Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 27. maí, 2017

Í ómstríðu algleymi

Valgeir Sigurðsson sendi fyrir stuttu frá sér nýja plötu, Dissonance, í gegnum útgáfuna Bedroom Community. Eins og titillinn ber með sér byltast þar um hlutir sem eiga lítið skylt innbyrðis. En þó, þegar nánar er að gáð…

Útgáfan Bedroom Community á sér nokkuð einstaka stöðu í íslensku tónlistarlífi. Fyrir það fyrsta er vart hægt að kalla hana íslenska, alþjóðleg væri meira við hæfi, en Valgeir Sigurðsson stofnaði til hennar fyrir rétt rúmum tíu árum ásamt þeim Nico Muhly og Ben Frost. Fleiri listamenn hafa síðan komið að útgáfunni og að forminu til er um nokkurs konar samyrkjubú að ræða, með tiltölulega flötu innra starfi, þar sem enginn einn stígur fram sem framkvæmdastjóri, eigandi o.s.frv. Útgáfan hefur vegna þessa vakið töluverða athygli, sérstaklega utan landsteinanna, og hafa meira að segja verið skrifaðar fræðilegar greinar um fyrirbærið.

Ein af ástæðunum fyrir þessari athygli er sterk fagurfræði alls þess sem umlykur útgáfuna og gildir þá einu hvort um tónlist eða umbúðir er að ræða. Minnir þetta einna helst á mektarmerki eins og 4AD. Útgefið efni dansar á mörkum tveggja heima, þess klassíska og hins poppvæna; rafbundin nútímatónlist, grípandi síðklassík, sveimbundin tilraunatónlist o.s.frv. Fólk með rætur í poppi/rokki, stikandi ákveðið um heim skrifaðrar tónlistar og öfugt.

Valgeir hefur sjálfur látið til sín taka í þessum efnum og hefur gefið út eigið efni nokkuð stöðugt síðan útgáfan var sett á laggirnar. Ekvílibríum árið 2007, Draumalandið árið 2010 og svo Architecture of Loss árið 2012 (hann og Nico Muhly gáfu þá út verkið Scent Opera í fyrra). Nýjasta verk hans, Dissonance, kom út í síðasta mánuði og í titlinum má finna nokkurs konar yfirlýsingu um hvernig Valgeir hefur nálgast sína tónlist. Sambræðsla hins ólíka, eitthvað sem getur gefið af sér spennu, rafmagn og hreinlega eitthvað sem á ekki að ganga upp en gerir það samt. Lífræn hljóð innan um stafræn, samhygð samfara einhverju sértæku, fætur niðri á jörðinni en andinn einhvers staðar lengst þarna uppi. Platan inniheldur þrjú verk; stór nokk og mikilúðleg. Í titillaginu t.a.m. leiða strengir framvinduna en um leið eru þeir brotnir upp, það er nuddast utan í þeim og þeir skældir á ríkan og áhrifamikinn máta.

Platan var tekin upp á u.þ.b. einu ári, frá september 2015 og fram í nóvember 2016, í Gróðurhúsinu, hljóðveri Valgeirs. Dissonance verður flutt á tónleikum á þessu ári og mun Liam Byrne (strengir) og Antivj-hópurinn (sjónræn þáttur) veita Valgeiri liðsinni.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: