Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 6. janúar.

Með tilkomu streymisveitna og allra handa stafrænnar útgáfu hefur miðlun tónlistarsköpunar aukist verulega. Sem betur fer. Íslendingar ólmast rétt eins og aðrir hvað þetta varðar og á síðasta ári var hægt að telja rúmlega 500 útgáfur af alls kyns toga og tilheyra þær flestum þeim geirum og undirstefnum sem undir vetrarsólinni þrífast. Arnar Eggert Thoroddsen fór ódeigur inn á þennan vettvang og pakkaði nokkrum öndvegisverkum í bakpokann sinn ykkur til hægðarauka.

Plata ársins
Plata Páls Óskars Hjálmtýssonar og Benedikts Hermanns Hermannssonar, Benna Hemm Hemm, Alveg, gat í raun aldrei orðið annað en plata ársins. Lagið „Eitt af blómunum“ varð strax að einslags mannúðarbaráttusöng, kyrjaður í leikskólum landsins og víðar og platan sjálf er ekkert minna en ótrúleg. Páll Óskar með frábæra, dásamlega sungna texta – nema hvað – þar sem bæði er tekist á við persónuleg mál sem pólitísk. Tónlist Benna liggur síðan undir, melódísk og hæfilega kenjótt. Dass af diskói, strengjum og létthlustunarverkum frá áttunda áratugnum og platan öll tilkomumikill, póstmódernískur dans við sígilda popptónlist fyrri áratuga.

Hipphopp ársins
Alaska1867 kom á sjónarsviðið með heljarinnar látum og 222 undirstrikar rækilega að það er ástæða fyrir umtali sem vinsældum. Stjörnuáran er tilfinnanleg, á sviði er hún frábær og tónlistin er letileg og svöl, myrkar hljóðmottur og glúrnir taktar (í boði Whyrun) liggja undir haganlega ortum textum sem lýsa tilfinningaróti höfundarins. Ástarskot og óvissa flæða þar um í bland við alvörubundnari lýsingar og uppgjör ýmiskonar.

Kynnið ykkur líka vel sterka plötu M Can, Paint a Picture, þar sem fer naumhyggjuleg tónlist og stórgott rapp og nýliðann Zyber sem gaf út stuttskífuna Free Mixtape rétt fyrir áramót í fyrra og stóru plötuna Smile! Youre on Camera í sumar.

Nýliði ársins
Lucas Joshua er enn á táningsaldri en vakti mikla og verðskuldaða athygli á liðnum Músíktilraunum hvar hann var í senn öruggur og fagmannlegur. Platan Meyja kom svo út í haust, vitnisburður um hugrekki hinna ungu þar sem þeir ráðast óhræddir á sköpunargarðinn þar sem hann er hæstur. Þannig er farið víða um raftónlistarsviðið á Meyju og Lucas er svo sannarlega tónlistarmaður sem vert er að hafa eyru með á næstu misserum.

Hlustið einnig á frumburð hljómsveitarinnar Emmu, Halidome, og kynnið ykkur hinn bráðefnilega spunadjassleikara Kjartan Huga Rúnarsson sem hefur undanfarið gefið út plöturnar Mávasessjón (1, 2 og 3).

Rokk ársins
Symfaux leitar til baka, rótar upp naumhyggjulegri nálgun Tortoise og ýmsu hávaða- og reiknirokki frá liðnum áratugum. Hryssingsleg, reykvísk útgáfa Don Caballero og Battles með dassi af Ligtning Bolt. Meðlimir eru allir hluti af reykvísku neðanjarðarsenunni, koma úr sveitum eins og Sucks to be you Nigel, World Narcossis og Bucking Fastards. Platan, mowerpic, rúllar fallega og nuddar eyrun rækilega upp úr harðneskjulegu óhljóðabaði.

Kynnið ykkur líka nýjasta verk eðju- og dómsdagsrokkaranna í godchilla, psionic dreams, og ógurlega plötu Náriðils (þvílíkt nafn!), Evil Is The Only Way 

Popp ársins
Útgáfulega hófst þetta ár með plötunni Afturábak en hún kom út 1. janúar 2025, á afmælisdegi höfundarins, Hildar Kristínar Stefánsdóttur (Hildur). Popp- og melódíuinnsæið er vel stillt og gírað hjá Hildi, sem er eldri en tvævetur þegar kemur að bransanum. Vangaveltur um ástir, tengsl og tilfinningar eru þræddar inn í lög sem tikka á raftónlistarbedda með indíblæ og heildarmynd plötunnar er bæði heilsteypt og sannfærandi.

Vert er líka að nefna stórgóða plötu Snorra Helgasonar, Borgartún, hvar íslenskar hversdagsvinjettur fá vængi og fyrsta skammtinn í útrás poppstirnisins Bríetar, Act I.

Söngvaskáld ársins
Tvöföld plata Jóns Halls Stefánssonar, Mansöngvar, er mikið þrekvirki. Hún fjallar um ástina í öllu sínu veldi, stóra, smáa, hversdaglega og epíska og stundum birtist hún best í því þegar við sleppum takinu eins og margítrekað er í samnefndu lagi. Jón hleypir okkur inn í innstu kytrur og lágvær, pínu hrjúf en þekkileg söngröddin byggir undir lög sem eru í senn melódísk og angurvær um leið og dásamlegt skringi hangir yfir.

Hlýðið einnig á frábæra plötu Ástu, Blokkarbarn, en lengi var von á plötu númer tvö frá henni og líka spánnýtt verk Péturs Ben, Painted Blue, en bið eftir hljóðverskífu frá þeim meistara hefur líka verið löng bæði og ströng.

Tilraunatónlist ársins
Platan Cruel Baboons Dilemma er eftir Yul4ik&Einar sem eru þau Yulia Vasileva og Einar Hugi. Þau tengjast inn í önnur verkefni/sveitir eins og MC Myasnoi og Spidernoise (bæði með hörkuplötur þetta árið) og þetta er sá mannskapur sem er að gera athyglisverðustu tilraunatónlistina á Íslandi dag. Hér fer áleitinn hávaði, draugaleg tölvuhljóð utan úr geimnum, tónlist sem er tætt, sundurlaus og sundurklippt. Og eyrun eru sperrt allan tímann.

Hlustið og á tilraunaóperuna Mörsugur (í flutningi Þrjátíu fingurgóma: Ásbjörg Jónsdóttir, Heiða Árnadóttir og Ragnheiður Erla Björnsdóttir) og stórkostlegan sorgarópus Eiríks Stephensen, Eirrek.

Jaðarpopp ársins
RAKEL læddi út stórgóðum frumburði í líki plötunnar a place to be og það var hreint út sagt léttir að heyra loksins plötu frá henni og henni einni en hún hefur verið hluti af íslensku senunni lengi vel en þá oftast í hlutverki með- og baksöngvara. Platan er í lágstemmdum gír, eins og töfra- eður huliðsheimur þar sem hlutirnir eru værir og jafnvel viðkvæmnislegir. Natin dagbókarskrif í öryggi svefnherbergisins, umbreytt í tóna og hljóma.

Endilega, athugið og stórgóða plötu múm, History of Silence og glæsiverk Ólafs Arnalds og Talosar, A Dawning.

Dans/raftónlist ársins
Það er Ida Schuften Juhl sem stendur á bakvið knackered listamannsnafnið og platan, fyi, er gefin út af hinu framsækna útgáfufélagi Marvaða. Ferskur andvari leikur um tilraunakennda teknókeyrsluna og taktforritun er öll til fyrirmyndar. Ida gerði áður tónlist sem IDK IDA en stígur nú fram með þetta verkefni hér og það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu því að innistæða fyrir frekari snilld er sannarlega fyrir hendi.

Endilega hlýðið líka á plötu Skurken (Jóhann Ástuson), Nótt, sem er með því allra besta sem þessi reynslubolti hefur gert og þá gáfu Slummi & Jamesendir út mikla meistarasnilld í formi plötunnar Jelly Star.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: