Hlotnaðist sá heiður á dögunum að ræða við meistara Rickie Lee Jones í gegnum Zoom. Hún var stödd í L.A. en ég í hinni dásamlegu Reykjavík. Ég átti við hana afar gott spjall og mun það birtast í viðtalsformi í Morgunblaðinu 17. ágúst næstkomandi.

Þessi magnaða og mjög svo áhrifaríka tónlistarkona verður með tónleika í Hörpu þann 1. september, sannkallaður hvalreki. Jones sló í gegn vestanhafs með samnefndri plötu sinni 1979 (og hætti sama ár með kærastanum, Tom Waits). Upphafslagið, “Chuck E’s in Love” varð einkar vinsælt og bara umslagið á breiðskífunni andar krafti valdefldrar, helsvalrar konu sem er með munninn fyrir neðan nefið. Á næstu plötu, Pirates (1981), sýndi Jones fram á að ekki yrði tjaldað til einnar nætur og fólk fengi heldur aldrei það sem það vildi. Ferill hennar hefur enda verið litríkur allar götur síðan hvar aldrei er stoppað í einum stíl. Jones blandar fumlaust saman alþýðutónlist, djassi og poppi en hefur auk þess lagt sig eftir sálmatónlist, tripp-hoppi og hverju því sem hreyfir við hjarta hennar á hverjum tíma.

Hún er margverðlaunuð listakona, hefur m.a. verið tilnefnd til átta Grammy verðlauna og þar af unnið þau tvisvar. Plötur hennar hafa selst í milljónum eintaka um heim allan.

Um þessar mundir er hún að túra nýjasta verk sitt, Pieces of Treasure, þar sem hún flytur lög úr amerísku söngbókinni. Þá plötu vann hún með Russ Titelman sem hljóðritaði fyrstu tvær plötur hennar.

Miðar: https://tix.is/is/event/17471/rickie-lee-jones/

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: