Síðrokkari Ólafur Örn Josephsson hefur verið iðinn við kolann undanfarin 20 ár.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 30. október, 2021.

…gefur út plötu

Stafrænn Hákon er sólóverkefni og stundum hljómsveit Ólafs Arnar Josephssonar. Vegleg afmælisútgáfa af fyrstu plötu hans, …eignast jeppa, kom út fyrir stuttu þar sem öll platan er meðal annars endurhljóðrituð.

Ég hef fylgst með tónlistarferli Ólafs frá upphafi og rakst meðal annars á nítján ára gamalt viðtal sem ég átti við hann fyrir blað þetta, ungur blaðamaðurinn eða a.m.k. yngri. Ólafur yngri líka en við erum á svipuðu reki. Tilefnið var önnur plata Stafræns Hákons, Í ástandi rjúpunnar, en …eignast jeppa hafði þá komið út árinu á undan. Báðar plöturnar pressaðar á heimagerða „brennda“ diska. Á þessum árum, um og upp úr 2000, var hið svofellda síðrokk í algleymingi fyrir tilstuðlan hljómsveita eins og Godspeed you black emperor! og Mogwai og Ólafur hjó í þann knérunn.

Það er falleg einlægni, jafnvel sakleysi, í þessu viðtali: „Ég hef lengi verið að smíða eitthvað niðri í kjallara… Síðan kom bara einfaldlega að því að ég ákvað að gera eitthvað úr þessu og dúndra þessu út. Í stað þess að leyfa félögunum að heyra þetta helgi eftir helgi,“ segir hann m.a. og lýsir fyrirmyndum allt frá Phil Collins til Glenns Branca. „Svo er ég mjög hrifinn af sveimtónlist; Aphex Twin er náttúrlega frábær. Svo eru Sonic (Youth) auðvitað goðin.“

Eftir þessar tvær plötur hrúgaði Ólafur út plötum og á einum tímapunkti breyttist verkefnið í fullskipaða sveit. Hann hefur líka gefið út undir nöfnum eins og Calder og Per: Segulsvið og sveiflast á milli hreinnar „ambient“-tónlistar og stemma sem eru rokkbundnari, alveg í stíl við þá áhrifavalda sem hann nefnir.

Ólafur ákvað svo að blása í alla lúðra varðandi endurútgáfuna á …eignast jeppa, merkir þessi fyrstu tónlistarspor sín með afgerandi hætti. Snotri heimalagaði geisladiskurinn er nú orðinn að glæstri þriggja platna vínilútgáfu en auk þess er hægt að nálgast allt heila klabbið stafrænt. Umslagið er með þykkum kili, einfalt, og þar inni eru þrjár plötur í einföldum nærbuxum. Á fyrstu plötunni er upprunalega platan sem tekin var upp á Tascam 424MKII seint á árinu 2000 og snemma árs 2001. Á plötu tvö er svo sama plata, endurhljóðrituð tuttugu árum síðar í heimahljóðveri Ólafs, Vogor Studios. Þriðja platan inniheldur svo nýjar hljóðritanir á lögum sem aldrei voru kláruð á sínum tíma auk þriggja laga frá 2001 sem er bara leyft að standa. Ekki nóg með það, heldur lúrir líka sjö laga endurhljóðblöndunarútgáfa („remixed“) af plötunni í netheimum hvar aðilar eins og Futuregrapher, Kippi Kaninus og Ruxpin véla um lögin.

Svona æfingar, að taka upp eigið efni á nýjan leik áratugum síðar eins og Ólafur gerir, er gert annað slagið í poppheimum. Útkoman er alls kyns. Stundum óþarfi þar sem engu er bætt við. Stundum verða lögin sprúðlandi fersk við þetta en á sama tíma æmta aðdáendur og skræmta og vilja ekki að hróflað sé við frumgerðunum. Merkileg þessi krafa neytenda að höfundar eigi helst ekki að fikta í verkum sem eru þó þeirra hugarsmíð.

Í tilfelli Ólafs er þetta bara mjög dægilegt, jafnvel notalegt. Það fyrsta sem ég tek eftir er að hljómurinn á upprunalegu plötunni er fínn og lögin hin bestu. Platan hefur staðist tímans tönn og er ágætis birtingarmynd þeirra strauma sem í gangi voru í bílskúrum Íslands á þessum tíma. Nýju útgáfurnar eru þá ekki það ólíkar. Jú, enn betri hljómur vissulega, feitari og áhrifameiri. Og svo er eins og Ólafur svona leyfi sér að leika sér að þessum smíðum sínum, án þess þó að fara of rækilega út af sporinu. Þetta er eins og að fylgjast með manni velta eigin sköpunarverki á milli fingra sér löngu síðar, glotta í kampinn og minnast.

Ég hlakka mikið til þegar fimmfalda útgáfan af Í ástandi rjúpunnar kemur út!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: