Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 15. nóvember.

Gnægtahorn fegurðarinnar

Ég sit hér við borðstofuborðið og handleik glæsta vínylútgáfu af Cornucopia Live, nýjustu útgáfu hinnar einu sönnu Bjarkar. Þar sem ég strauk glansandi umslaginu, plötusafnarinn sem ég er, fór ég að hugsa um eftirfarandi: Hluti dægurtónlistarbransans, einn af mörgum, eru efnislegir hlutir, eins og vínylplötur, klæðnaður, hljóðfæri og svo framvegis. Dauðir hlutir sem eru órofa partur af þessari menningu, hvort heldur sem skraut, praktísk tól til að fremja sjálfa tónlistina eða þá undirstinga ímynd listamannsins.

Í upphafi hljóðritana var vaxhólkunum einfaldlega komið fyrir í pappahólk og í dag rúllar tónlist mikið til í hulinni, stafrænni veröld. En eins og þið gjörla þekkið, vínyll, geisladiskar og kassettur áttu öll sitt blómaskeið og ekkert þessa er algerlega horfið á braut. Þessi form, og alltaf í meiri mæli, kölluðu á listrænt innsæi, hönnun og altæka hugsun þegar kom að framstillingu þeirra. Geisladiskarnir urðu æ flottari, með pappaumslögum og öðrum hugvitssamlegum lausnum. Vínylplatan lifði sína gósentíð á áttunda áratugnum en undanfarið er eins og hönnuðum haldi engin bönd. Það þarf svo ekki að koma á óvart að Björk Guðmundsdóttir passi upp á að þessi mál séu alltaf í toppstandi.

Umslag verður listaverk
Cornucopia Live kemur út í alls kyns útgáfum sem innifela bæði hljóðrás og tónleikamynd sem frumsýnd var í upphafi þessa árs. Þrefaldur vínyll, geisladiskur, mynddiskur, „Blu-ray“, „Ultra HD Blu-ray“ og eru miðlunarformin í ýmsum samsetningum. Hægt er t.d. að fá tvöfaldan geisladisk ásamt mynddiski og er pakkningin bústin, hvar áhersla er á hið myndræna. Vínylútgáfan er síðan eitthvað annað og nú ræsi ég plötusafnarann og þann fagurkera sem hann geymir (plötukeri?). Umslagið er vel glansbundið og á framhlið er mynd af Björk á tónleikum.

Umslagið er þríhliða opnanlegt (enda þrjár plötur innra) og leggst út í 3×12 tommu stærð. Þetta pláss er nýtt undir stórar, undurfagrar ljósmyndir, teknar á Cornucopiu-tónleikunum sjálfum. Hér enginn texti, bara myndefni. Innri kápurnar, „nærbuxurnar“, eru þykkar og í glansham sömuleiðis. Pressan sjálf er þykk og góð og sérstakir plötumiðar fyrir hverja hlið. Til fyrirmyndar.

Frá botni til himins
Cornucopia Live var hljóðrituð í Altice Arena í Lissabon, Portúgal, 1. september 2023. Á þeim tónleikum eða tónleikasýningu öllu heldur dró Björk saman marga og magnaða þræði, sannaði rétt einu sinni að sem listamaður er hún með öllu einstök. Tónlistin hér er náttúrulega stórkostleg og platan gerir það eðlilega að verkum að eyrun eru í yfirvinnu, augun get ég hvílt, sem var ekki í boði er ég sá myndina. Upptakan er góð, röddin er nálæg í hljóðblönduninni og flautur í bland við furðuhljóðfæri leiða framvinduna.

Við byrjum á nýrra efni, lög af Vulnicura, Utopia og Fossora setja tóninn. Sígild lög eins og „Isobel“ og „Hidden Place“ eru leikin og takið eftir, þetta eru lög sem passa vel við þann hljóðheim sem Björk hefur verið að búa til á síðustu verkum. „Violently Happy“ kæmist seint á þennan settlista hygg ég. Lögin eru alls 22 og þau byggja undir vissa heild, þessa sögu sem hófst á Vulnicura, þar sem okkar kona var brotin bæði og beygð en færist svo – jafnt og þétt – inn á stað heilunar og líknar, ferðalag sem nær hápunkti hér hvar listakonan Björk knýr fram þessa guðdómlegu list sína sem bærst hefur í brjósti hennar frá fæðingu og aldregi eytt verður. Er ég of dramatískur? Nei, ég held bara ekki.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: