Kvartett Óskar Guðjónsson, Einar Scheving, Eyþór Gunnarsson og Skúli Sverrisson skipa kvartettinn

Velkomin í Schevings-hús

Mi Casa, Su Casa nefnist ný plata eftir Einar Scheving. Fjórða plata hans en sú þriðja sem hann vinnur með kvartettinum sínum.

Ég ræddi fyrst við Einar Scheving árið 2007, vegna fyrstu sólóplötu hans, Cycles . Þekkti manninn ekkert en hafði hins vegar séð nafnið hans oft á geisladiskum sem ég var að höndla og hlusta á. Hittumst í herbergi í FÍH og fengum okkur kaffi. Maður í minni stöðu er búinn að tala við allt tónlistarfólk Íslands – tvisvar – og maður tengir eðlilega mismikið við mannskapinn. En ég og Einar náðum strax svona dandalavel saman. Erum á svipuðum aldri en svo bara einhverjir töfrar. Eftir þetta höfum við haldið þeim sið, ómeðvitað, að hittast í kringum plötuútgáfurnar hans og spjalla. Stundum hef ég verið í formlegum erindagjörðum, stundum ekki.

Nýjasta plata hans, Mi Casa, Su Casa , kom út korter fyrir jól og með honum þar, eins og svo oft áður, þeir Óskar Guðjónsson, Eyþór Gunnarsson og Skúli Sverrisson. Í þetta sinn gat ég boðið Einari í formlega heimsókn til þess að ræða um plötuna og segja alþjóð svo frá í gegnum þetta blað, þennan pistil. Einar kíkti á mig á þriðjudagskvöldi, við fengum okkur chai-te og ég leyfði einhverri nýbylgju að malla undir (ætlaði að ganga í augun á honum með því að spila Eric Dolphy eða Miles en hætti við. Aulahrollurinn náði mér).

Rætt var um heima og geima en mest um tónlist náttúrlega. Rush, Billy Cobham, þætti úr íslenskri djasssögu og margt, margt fleira. Og, eðlilega, sitthvað um þessa plötu hér. Mi Casa, Su Casa kemur út í kjölfar Intervals (2015) sem var unnin með sama kvartett. Þar á undan kom hinn magnaða Land míns föður út, sem var óður Einars til Íslands og föður síns, Árna Sheving. Hún var svona hliðarspor, eins og Einar segir mér, og þar á undan var það svo Cycles (2007) eins og ég hef nefnt.

Einar segir mér að meginhausverkurinn sé venjulega að koma þessum mannskap saman á sama svæði sömu dagana, sem sé meira en að segja það. Sjálf platan var svo tekin upp á þremur dögum, í september. Hljóðverið var Masterkey-hljóðverið á Seltjarnarnesi sem Sturla Mio Þórisson og Marketa Irglová eiga. Sturla hljóðritaði og blandaði en Lars Nilsson hljómjafnaði í Nilento-hljóðverinu í Svíþjóð. Einar segir að tónlistin sé í raun beint framhald af Intervals. Eðli málsins samkvæmt sé hann að semja með félaga sína í huga, á einhvern hátt, og hver og einn fær visst rými til að leika sér innan lagarammans. Oftast hafi þeir spilað þetta beint inn, og sumt fékk að standa. Einar viðurkennir þó að með nútímatækni sé hægt að sveigja hluti og beygja eftir hentugleik ef þurfa þykir, splæsa saman tökum o.s.frv. Svo farið sé á persónulega nóturnar þarf ég ekki að selja neinum neitt í þessum pistli hvað innihaldið varðar. Það er nóg að sjá nöfnin til að taka bókstaflega andköf. Unaður er á að hlýða og er hver og einn sannkallaður meistari á sínu sviði. Hér eru tónlistarmenn sem geta svamlað um í meginstraumnum af hægð og með reisn en allir eru þeir um leið með einkar glúrið nef fyrir tilraunamennsku og skapandi sprettum sem fara með þá út fyrir boxið. Mi Casa, Su Casa dansar glæsilega á milli þessara tveggja heima; aðgengilegur og melódískur djass en á sama tíma er dýpt þarna og sterk höfundareinkenni frá Einari sem maður hefur fengið að kynnast í gegnum þegar útkomnar plötur.

Mi Casa, Su Casa er m.a. til á Spotify, Bandcamp, geisladiski og vínil – og útgáfutónleikar verða 5. febrúar í Kaldalóni, Hörpu (Múlinn – djassklúbbur).

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: