Á flugi Jónas Ásgeir Ásgeirsson og Andrew Power skipa EKKI MINNA. — Ljósmynd/Niklas Ottander

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 26. júlí.

Alltaf meira

Dúettinn EKKI MINNA, skipaður Íslendingi og Breta, vakti athygli pistilritara fyrir sérdeilis ævin­týralega plötu á síðasta ári. Rýnt er í hana hér auk þess sem verkefnið sem slíkt er tekið út.

Í reglubundnu skanni fyrir dómnefndarstörf sem taka til útgáfu ársins rekst maður stundum á tónlist sem setur mann skemmtilega á hliðina. Einhver tónn, eitthvað sérstakt situr í manni og fær mann til að klóra sér í kolli. Maður punktar þetta samviskusamlega niður hjá sér en annað mál er svo hvernig muni ganga að selja öðru dómnefndarfólki snilldina!

Þannig var það með EKKI MINNA, fyrirbæri sem ég vissi ekki neitt um þar til ég hnaut um það. Þetta er dúett, skipaður þeim Jónasi Ásgeiri Ásgeirssyni og Andrew Power. Platan sem rataði svo í eyrun, NO MORE NO LESS, hefst á „eðlilegu“ harmonikuspili en allri siglingu um meginstrauma lýkur strax í næsta verki, tæpri einni og hálfri mínútu síðar. Sú smíð er lágvær og erfitt að greina hljóðaskil, tónlistin svona varla bærist um hljóðrásirnar. En ég veit að það heyrist í sellói, mögulega líka harmonikunni, en þannig er hljóðfæraskipanin samkvæmt textaupplýsingum að minnsta kosti. Fyrstu þrjú verkin eru stutt og merkt „Täuschung“ eða blekking. Fyrsta, þetta nokkurn veginn „eðlilega“, er eftir Franz Schubert og tvö þau næstu eftir Christian Winther Christensen. Þetta þrennt er svo sett í EKKI MINNA-matvinnsluvélina (tónvinnsluvélina?) og útkoman hrífandi verður að segjast. Eyrun voru orðin vel sperrt. Fjórða verkið, „Vidder1“ (eftir Mads Emil Dreyer), er hins vegar tæplega fjórtán mínútna drunulist, til þess að gera lágvært og hangir á sama tóni nánast út í gegn.

Já, ég var hrifinn og þótti þetta forvitnilegt. Hvaðan kemur þetta eiginlega og hverjir eru þetta? Þeir Jónas og Andrew, sem búsettir eru í Kaupmannahöfn, byrjuðu að spila saman 2017 og einbeita sér að nýrri norrænni tónlist. Og tilraunakennt er þetta alla leið. Dúettinn fer þannig meðvitað yfir mörk, mæri og geira og vinnur annars konar list inn í sína eigin. Dagskipunin er að prufa, reyna og máta eitthvað nýtt og spennandi við sköpunina. Nægir að líta til fagurfræðinnar sem prýðir heimasíðu dúettsins til að fá sönnun fyrir því. EKKI MINNA vinnur því beint með tónskáldum að útfærslu verka þeirra og rækileg hugsunarstarfsemi fyrir utan „boxið“ stýrir jafnan för. Þannig var gagnvirkt gjörningstónverk eftir Áslaugu Rún Magnúsdóttur, „a lot of ANGELS to consider“, flutt á Myrkum músík­dögum árið 2020 og er það í sjö mínútna búningi á þessari plötu og lokar henni jafnframt. Þar á undan er verkið „Privataufführungen“ eftir Johannes Kreidler og eru þá öll stykkin á plötunni upptalin. Það verk er fimmtán mínútur og nánast óþægilegt á köflum. En það á góðan máta. Þegar EKKI MINNA flýgur sem hæst minna þeir mig einna helst á Báru Gísladóttur og þetta afdráttarleysi sem hristir upp í þér. Þú vilt eiginlega að tónlistin hætti en samt alls ekki.

Svona kynntist ég þeim félögum, í gegnum þessa plötu (sem út kom í febrúar 2024, á Smekkleysu) en seinna sama ár kom svo stuttskífa, Reaction, hvar dúettinn verkar um smíðar Hauks Tómassonar. Útgefandi Dacapo, sem hefur m.a. gefið út verk með áðurnefndri Báru Gísladóttur.

Ýmis járn eru í eldi hjá EKKI MINNA nú um stundir. Dúettinn hefur t.d. verið bókaður inn á MINU-hátíðina í Kaupmannahöfn næstkomandi nóvember en hátíðin hefur að gera með framsækna og tilraunakennda tónlist. Samverkamenn verða þeir Matthew Grouse og Niklas Ottander. Meira en tónlist er á skipuritinu hvað MINU varðar samkvæmt upplýsingum frá Dacapo en ekkert er gefið upp um hvað það verður nákvæmlega. EKKI MINNA: Alltaf meira.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: