Femínískur Eysteinn Orri fer vandrataða stíga í rokkinu.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 25. janúar, 2020.

Öfgar eru alltaf góðar

Íslenskt öfgarokk er við góða heilsu nú sem endranær. Ein af athyglisverðari útgáfunum úr þeim ranni var á vegum HUSH, dularfullt verkefni sem Húsvíkingurinn Eysteinn Orri stendur að.

Þegar öfgarokksplata ber nafnið Dissolution Of Virile Chauvinism (lausleg þýðing: Upplausn ofstopafullrar karlrembu) þá sperrir þú eyru og glennir upp augu. Svona yrkisefni finnur þú sjaldnast í öfgarokki, sem er sögulega séð undirlagt af testósteróni (breytingar að e-u leyti eru í gangi, en þær eru löturhægar). Titillinn vakti athygli en ekki síður tónlistin. HUSH uppgötvaðist seint á síðasta ári, er dómnefnd Kraums sat sveitt við yfirferð ársins. Í dag er það svo að fólk gefur út efnislega sem stafrænt á hinum og þessum veitum, og sumt hverfur í haf óminnisins, en líklega hefur aldrei verið erfiðara en nú að ná í gegnum útgáfukraðakið (sem er bæði gott og slæmt). Á Bandcamp lúra t.d. ýmis neðanjarðarverkefni og þar fannst HUSH, illa merkt, en heimili var engu að síður Akureyri, Ísland. Formanni dómnefndar, Árna Matthíassyni, tókst svo að hafa uppi á listamanninum, sem reyndist ungur Húsvíkingur að nafni Eysteinn Orri.

Kauði hafði þá, frá október 2019, dælt út efni undir þessu nafni. Einni breiðskífu ( Pandemonial Winds ), stuttskífu ( Dissolution Of Virile Chauvinism ) og nokkrum smáskífum. Tónlistin er allsvakaleg, svo ekki sé fastar að orði komist. Nokkurs konar hljóðlistardauðarokk, sem er hvað tærast á Pandemonial Winds . Lögin hljóma eins og þú sért fastur í stormi eða það sé „hvítt hljóð“ í sjónvarpinu þínu. Afbyggð, brjáluð keyrsla, strúktúrlaus hávaði á köflum. Geðveikislegt. Minnir á Impetuous Ritual, Mitochondrion og álíka sveitir. Allt mjög dularfullt, öll umslög svört og grá með heiðnum táknum og hringjum. Lög kaflaskipt (oft með I, II og IV merkingum). Lögin skæld og skrítin, löng, tilraunakennd og í gruggugri keyrslunni má skynja bæði sveim og örgustu hávaðalist. Einhvers staðar þarna er HUSH.

Pistilritari sló á þráðinn til Eysteins og spjallaði lítið eitt við hann. Sagðist hann hafa langað til að gera dauðarokk með femínísku þema, margar slíkar sveitir væru syndandi um í kvenhatri og hann hafi langað til að snúa þessari kjörmynd á rönguna. Eysteinn er með mörg önnur verkefni í gangi, sem heita nöfnum eins og Places of Torment, Black Memorial og Moon Bearer, öll með ólíkum áherslum (plata með Moon Bearer datt inn á Bandcamp í janúarbyrjun).

HUSH fæddist vegna ritstíflu sem tengdist Places Of Torment. „Mig langaði bara að gera eitthvað einfalt og þungt,“ segir Eysteinn. „Það var mjög lítill undirbúningur, ég settist bara niður og skrifaði eitt lag sem varð svo að fimm lögum og ég ákvað svo bara að gefa það út.“ HUSH er einslags svefnherbergisverkefni, en Eysteinn gerir allt sjálfur við skrifborðið heima hjá sér í gegnum Logic Pro með hljóðkorti.

Það er ljúft að spjalla við Eystein, sem kemur fyrir sem rólyndis pælari. Engar stórkostlegar áætlanir eru uppi um framhaldið þrátt fyrir athyglina en HUSH komst á langlista Kraumsverðlaunanna. Eysteinn er með puttana í alls kyns stílum, og þegar ég spyr hann um hvort hann ætli lengra með HUSH, er svarið dæmigert: Það er allt opið.

„Ég held að ég muni halda áfram með HUSH í einhvern tíma en veit ekki hvort ég myndi spila á tónleikum með efnið, nema þá að ég myndi stækka HUSH í hljómsveit. Eins er með hin verkefnin mín, ef ég fæ einhverja geggjaða hugmynd sem hentar þeim frekar, þá fer ég í þá áttina.“


Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: