Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 22. nóvember.

Með augun full af von

Bubbi Morthens kom inn í íslenskt tónlistarlíf með miklum krafti árið 1980 er hann gaf út sína fyrstu sólóplötu, Ísbjarnarblús. Tímamótaverk í íslenskri dægurtónlistarsögu, það er bara þannig. Í kjölfarið varð hann heimsfrægur á Íslandi og ferli hans héldu engin bönd. Goðsögnin Bubbi varð til með undraskjótum hætti og hraðinn á öllu saman fær mann til að súpa hveljur, einkanlega er maður lítur í baksýnisspegilinn.

Bubbi fór þannig með himinskautum næstu ár en árið 1985, eftir að Íkarus hafði misst flugið lítið eitt, kom út hin lágstemmda og innilega Kona, plata sem margir telja hans besta verk fyrr og síðar. Báðar fagna þessar plötur því merkisafmælum í ár og af því tilefni hafa þær verið endurútgefnar í forláta vínilpakkningum og með aukaefni.

Hægt er að velja um þrjár mismunandi gerðir af hvorri fyrir sig. Ísbjarnarblús kemur út tvöföld (í tvískiptum bláum og hvítum vínil), sem einfaldur blár vínill og sem venjulegur svartur. Kona kemur einnig út tvöföld (í tvískiptum rauðum og svörtum vínil), sem einfaldur rauður vínill (með hvítum slettum) og sem venjulegur svartur.

Í upphafi var Bubbi
Á Ísbjarnarblús lagði Bubbi línurnar að sínum ferli að svo mörgu leyti. Þarna heyrum við í þessum fallega, seiðandi baritón hans sem var ekki lengi að smeygja sér inn í æðakerfi landans. Gítarleikur hans einnig og auðvitað lagasmíðanáðargáfan sem gerir mann stúmm enn þann dag í dag.

„Stál og hnífur“ er þarna, sem margir telja óeiginlegan þjóðsöng landsins, og þarna er hent í pönk, „Jón pönkari“, og sjálfir Utangarðsmenn mættir á svæðið. Sum aukalögin hér komu út á endurútgáfu árið 2005 en ekki öll.

Hér eru t.d. lögin „Beitingablús“ (RÚV-upptaka frá 1980), útgáfa af „Þorskacharleston“ sem var tekin upp fyrir Ísbjarnarblús en ekki notuð, „1. maí í Malaga“ (RÚV-upptaka frá 1979) og „Grettir og Glámur“ og „Elliheimilið Hrund“, upptökur gerðar í Norræna húsinu 1977.

Einnig er upptaka á „Þorskacharleston“ frá Vísnakvöldi 1979. Eðlilega er þetta hvalreki fyrir harða Bubba-aðdáendur og af þeim er nóg.

Svifið inn til lendingar
Bubbi gat pönkað, rokkað og rólað en í honum voru líka Cohen, Dylan og Guthrie. Árið 1985 bæði skildi Bubbi og fór í meðferð, tímamót í lífi okkar manns og leitaði það uppgjör í hljóma, tóna og texta, nema hvað. Hér má m.a. finna hið magnþrungna „Rómeó og Júlía“, lag sem hleypir upp gæsahúðinni í hvert og eitt sinn. Yfir Konu er stilla, ró og ókennilegur galdur. Feginleiki og andvarp þess manns sem er loksins laus úr fjötrum eyðandi fíknar.

Líkt og með Ísbjarnarblús eru hérna aukalög sem og er að finna á fyrri endurútgáfu en fjögur aukreitis sem ekki hafa verið viðruð áður. Þau eru „Söngurinn hennar Siggu“ (upptaka frá afmælistónleikum á Hótel Borg, 1986), „Eina nótt í viðbót“ (hljóðversupptaka frá janúar 1985 sem var svo ekki notuð) og kassettudemó af „Talað við gluggann“ og „Frosin gríma“.

Þessar endurútgáfur eru gerðarlegar og vandaðar, í takt við þá tísku í dag að endurútgefa meistaraverk á vínil og leggja ögn meira í mál en að þrykkja bara á svart enn eina ferðina. Og ef að líkum lætur er þetta ekki í síðasta sinn sem þessar plötur poppa upp á nýjan leik.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: