Dívur BRÍET og GDRN haka í öll þau dívubox sem til eru. — Ljósmynd/Sunna Ben.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 28. júní.

Íslenska dívan

Fyrir stuttu birti ég almennar vangaveltur um eðli og eigindi hinnar svokölluðu dívu og var þá með erlend dæmi þar um. Hér verður sjónum hins vegar beint að landi elds og ísa.

Elly, Ragga, Svala, GDRN, BRÍET, Ellen, Andrea (Gylfa sem Jóns) og fleiri og fleiri. Af stórkostlegum, geislandi söngkonum eigum við nóg og þið sjáið að ég fer eilítið út fyrir rammann þegar ég tefli Andreu Jóns fram. Rokkdrottning? Jafnvel díva?

Ég lagði fram skilgreiningu á hugtakinu í greininni sem ég nefndi í inngangi („Sjá, hinar seiðandi sírenur …“, birt fimmtudaginn 22. maí) og hún var á svofelldan hátt: „Orðið er iðulega notað yfir konur sem þykja skara fram úr á sínu sviði sökum hæfileika, konur sem eru öruggar og sjarmerandi og fylla upp í þau rými sem þær ganga inn í eins og að drekka vatn. Það gustar af þeim. En skilgreiningin felur það líka í sér að viðkomandi kona búi yfir viðkvæmu skaplyndi, sé kröfuhörð, frek og yfirþyrmandi. Sjálfumglöð jafnvel.“

Höfum við átt slíkar, í tónlistinni, hérlendis? Auðvitað. Skilgreiningin er ekki fullkomin, því hefur m.a. verið teflt fram að inn í hana sé vinklað kvenfyrirlitningu og ómögulegt annað en að taka undir slíkt, lýsing dívunnar enda frá þeim tíma er ákveðnar konur, sem vissu hvað þær vildu og hvað þær stæðu fyrir, voru „erfiðar“, „skapstyggar“ og þar fram eftir götunum, hegðun sem var ekki í takt við það sem feðraveldinu þótti ásættanlegt (já, bara svo þið vitið, feðraveldið er staðreynd).

Díva felur um leið í sér lýsingu á einhverju máttugu, ósnertanlegu, dularfullu … dívan er á einhverjum stalli, yfir okkur dauðleg hafin svo ég gerist dramatískur. Svo ég noti vinkonu mína Andreu áfram sem dæmi, þegar maður sér hana stika inn eftir ganginum í útvarpinu þá er ekki um að villast. Þarna fer hrein og bein díva. Kveikjan að skrifunum var einföld, konur hafa verið meira áberandi í íslensku tónlistarlífi undanfarin ár, það er eins og það sé eitthvað að breytast þó lítið sé það og svifaseint engu að síður. Hægt er að tiltaka nokkur svið sem færa heim sanninn um þetta, t.d. gott gengi kvenna í Músíktilraunum undanfarin ár og starfsemi öflugra samtaka eins og KÍTÓN og Læti! / Stelpur rokka! Almennt séð hafa okkar helstu stórstjörnur undanfarin ár komið úr ranni kvenna, GDRN, BRÍET, Árný Margrét, Elín Hall og Una Torfa svo eitthvað sé nefnt.

Fyrir meira en tuttugu árum starfaði hópur sem kallaði sig Íslensku dívurnar, fyrsta útgáfan innihélt þær Guðrúnu Árnýju, Védísi Hervöru, Röggu Gísla, Völu Guðna og Margréti Eir og allar bera þær titilinn með rentu. En í dag er ég meira að hugsa um listafólk þar sem þetta er ekki stafað beint út en liggur öllu heldur í framsetningunni. Söngleikurinn um Elly fékk mann til að fara á dýptina í nákvæmlega þessum pælingum. Hvað er díva? Geta þær þrifist innan jaðardúettsins CYBER? Svar: Já! Eða þá í ferli Laufeyjar, sem spilar inn á klassíska dívutakta og nútímabundna. Og fyrir stuttu sungu tvær af okkar helstu samtímadívum, BRÍET og GDRN, saman með Stórsveit Reykjavíkur. Báðar fanga þær dulúðina og ofurstjörnuáruna sem hér er nefnd.

Á heiðurstónleikum til handa Magnúsi Eiríkssyni í desember mætti Ragga og fyllti upp í salinn með sínum töfrum, svo rosalega reyndar að fólk varð orðlaust. Engu minni urðu svo áhrifin er sírenan Ellen Kristjánsdóttir tók yfir sviðið. En stuttu áður hafði BRÍET komið inn, sungið lög sem voru í algleymingi áratugum áður en hún fæddist, og áhrifin voru nákvæmlega þau sömu og hjá Röggu og Ellen. Dívumátturinn lagði salinn og frá sætunum séð var þetta eitthvað svo auðvelt og náttúrulegt allt saman. Hún fyllti upp í salinn, eins auðveldlega og að drekka vatn, rétt eins og allar alvöru dívur.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: