Meiriháttar Cécile McLorin Salvant og hennar fólk voru á öðru plani. Ljósmynd/Hans Vera.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 6. september.

„Það jafnast ekkert á við djass“

Jazzhátíð Reykjavíkur hefur verið haldin síðastliðin 35 ár. Hún fór fram dagana 26.-31. ágúst, í Hörpu og víðar, og var mikið um dýrðir.

Vel var haldið á djassspöðum þegar kom að skipulagningu téðrar hátíðar og því gott að flandra aðeins um hana og taka smakk á gríðarlega virkri djasssenu Íslands. Á föstudeginum endasentist ég þannig upp stigann í Hörpu og datt inn í Norðurljósasalinn upp úr átta hvar Sigurður Flosason og Mattias Nilsson dúettuðu. Falleg efnisskrá og slakandi og tilvalið að lygna aftur augum og taka tónlistina hreint inn. Ku þetta hafa verið í fyrsta sinn sem þessir meistarar slógu í djassklárinn í sameiningu. Róberta Andersen hafði verið á undan en henni náði ég ekki í þetta sinnið, því miður, en hún er með skemmtilegri gítaristum hérlendis. Og eðlilega hefði ég viljað bergja mun betur á hátíðinni en tíminn er grjótharður húsbóndi.

Eftir að Sigurður og Mattias höfðu lokið sér af kom hin pólska O.N.E. sér fyrir á sviðinu. Þær voru ógurlegar. Íslendingur leysti reyndar af á gítar, Þorkell Ragnar Grétarsson, en hann er kunnugur meðlimum og þekki ég hann úr Ragnarök Trio þar sem ofsakenndur rokkdjass er á boðstólum. Tónlist þeirra pólsku var frábær. Frumsamin og vel víruð og afstrakt. Læti, spenna, gleði, ástríða og alvöru tónlistarinnsæi. Meiriháttar. Ég fór á afturlappirnar og naut hverrar sekúndu.

Halli Guðmunds mætti svo með Cuban Club á sviðið og mikil valmenni þar samankomin. „Gaman að sjá strákana,“ sagði ég við Andrés Þór gítarleikara sem stóð við hliðina á mér. Það var enda gaman að hitta á vini og kunningja úr íslenska djassheiminum á hátíðinni en sá heimur er í senn lítill og stór eins og flest á landi elds og ísa.

Á sunnudeginum voru svo lokatónleikar hátíðarinnar, tónleikar sem selt var sérstaklega inn á, og maður mætti því inn í troðfulla Eldborg. Um var að ræða tónleika sem maður vildi ekki að hættu. Cécile McLorin Salvant söngkona er margverðlaunuð sem slík og sannkallaður risi í alþjóðlegum heimi djassins. Hún og kátir kappar hennar önduðu frá sér svo góðum og styrkjandi anda frá sviðinu að ég komst í leiðslu. Eins og allir. Í 90 mínútur leið mér einfaldlega vel (mjög vel) og hreinlega gat ekki haft áhyggjur af einu né neinu. Þótt ég hefði reynt. Gleymdi stað og stund og naut listarinnar æðstu í botn. Slíkur var kraftbirtingarmáttur tónlistarinnar. Stórkostlegt! Það var eins og Salvant væri margra kynslóða manneskja. Datt í eldgamlan baðmullarstíl eins og ekkert væri en sveiflaði sér svo í samtímalegri sönghendingar – stundum í sama laginu. Hún söng lög úr söngleikjum og „staðla“ en einnig eigin lög, sem voru oft kenjótt og krúttleg. Bandið hennar algerlega frábært. Sullivan Fortner, píanó, Yasushi Nakamura, bassi, og Kyle Poole, trommur. Ég get eiginlega ekki stillt neinum einum fram en nefni að Fortner var dásamlegur á píanóinu. Það var svo innileg stemning í hópnum, grallaragrín og léttleiki og það smitaði rækilega út í salinn. „Mikið er þetta nú gott og vel gert fólk,“ hugsaði ég, eins og barn!

Eftir tónleikana, en þeir enduðu, því er nú verr, var boðið í lokahóf í Iðnó þar sem tónlistarfólk gat einnig stundað tónlistarspuna. Þar var gott að spjalla við gesti og gangandi og anda að sér heilnæmu stemningunni sem fólk flutti með sér úr Hörpu. Pistilritari er, eins og sjá má, þakklátur fyrir að hafa náð að dýfa aðeins tám í djasstjörnina íslensku, sem er bæði stór og djúp og státar aukinheldur af óhemju fjölskrúðugu lífríki. Hátíðin hélt vel utan um þetta allt saman þessa dásamlegu djassfylltu daga í Reykjavík.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: