Stirnir. Ljósmynd/Yulia Vasileva.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 21. janúar, 2023.

Með æskuroðann að vopni

Hér fara á eftir skrif um tvo kornunga tónlistarmenn sem gáfu út ansi merkar skífur á síðasta ári. Oliver Devaney vinnur með andrúm og stemningu á sinni en Stirnir hendir sér af alefli í skringipoppið.

Þegar maður grisjar ársútgáf­urnar er gæðum öllum misskipt en oftar en ekki heyrir maður hvar sniðugt væri að staldra við. Þeir Stirnir og Oliver eru með þannig „x“. Þeir hafa ýmislegt fram að færa og eru með hæfileika sem maður einfaldlega nemur. Ekki af því að þessi hljómasamsetning sé flott, viðlagið þarna grípandi eða upptakan á þessu lagi sé skemmtilega hrá, nei, það er einhver heildarafstaða sem heillar.

Ég man ekki nákvæmlega hvernig Oliver barst mér til eyrna. Verið getur að lærifaðirinn, Árni Matt­híasson, hafi stungið þessu að mér. Við komumst svo að því að Oliver er og gítarleikari í ungsveitinni Sameheads sem vakti verðskuldaða athygli á liðnum Músíktilraunum. Strákar í kringum tvítugt að semja svala nýbylgjutónlist. Gítarvinna Olivers þar vakti einmitt athygli mína.

Fyrir liggja smá-, stutt- og breið­skífur, allar á Spotify. Tvennt kom út í fyrra, annars vegar LUCA 2 , sex laga stuttskífa og svo Coney Island , átta laga breiðskífa. Oliver sagði mér í stuttu Messenger-spjalli að LUCA-röðin væri hugsuð eins og skissubók, hvar hann gæfi út tilraunakenndari smíðar. Þegar hann tekur eftir ákveðnu þema í sarpi sínum slengir hann efninu saman og gefur út. LUCA 2 inniheldur rafskotna, nokk dreymandi tónlist, „ambient“-snið á öllu saman en svo er það „x“-ið. Það er ákveðinn rólyndisblær yfir, ákveðið öryggi sem heillar. Ég kalla svona einstaklinga, hvort sem þeir eru í tónlist eða í nemendahópi mínum í HÍ, framtíðarfólk. Maður bara heyrir að ef rétt er haldið á spöðum þá fer þetta langt. Coney Island er svo fyllri, tilbúnari. Glæsiverk eiginlega og maður trúði því varla að svona ungur maður stæði á bak við hana. Hér er verið að vinna með minni frá síðrokkinu í kringum 2000 (Labradford), nútímatónlist (William Basinski) og framvindan er nánast kvikmyndatónlistarleg. Afskaplega langt komið. Það er fegurð og ró yfir og framfærsla öll örugg og fagmannleg.

Stirnir er nafn sem ég hef oft séð bregða fyrir þegar ég rölti um stafrænar gresjur post-dreifingar, hins máttuga neðanjarðarforlags. Hann átti þrjár plötur í fyrra, The Big City (janúar), Beautiful Summer , Big stjarna (júlí, elska svona orðablöndu) og The Brick Wall (nóvember). Hér erum við lent í harðkjarna-neðanjarðarpopprokki. Ég hugsa aðeins um Neutral Milk Hotel, Daniel Johnston, en um leið er hér á ferðinni klassísk, melódísk nýbylgja, sjá t.d. goðsagnirnar skosku í Pastels, hvar ákveðinn næfismi og gerum-það-sjálf afstaða rennur saman við náttúrulega melódíunæmni. Þú veist aldrei hvað er handan við hornið hjá Stirni. Lágvært kassagítarfitl birtist kannski óforvarandis en næsta lag á eftir er svo drifið áfram af Casio-hljómborði. Lögin eru oft stutt og stundum er farið út í hreina maurasýru (Truman‘s Water kemur upp í hugann líka. Allt í lagi Arnar, nóg af þessu nafnatogi!). Þrátt fyrir stílaflöktið sem ég er að lýsa er Stirnir um leið algerlega með sitt líkt og Oliver. Höfundareinkenni sem maður nemur, eitthvað „x“ sem skilur hann frá svo mörgum sem hafa minna erindi í tónlistarbaks.


Framtíðin er björt. Hei, hún er alltaf björt! Öllu skiptir nefnilega hvert maður beinir sjónum – og eyrum. Grasrótin íslenska iðar af lífi eins og svo oft áður, ný tækni gerir svo margt kleift og aukinn sýnileiki fyrir alla; konur, kalla og hvern sem er, er gróði fyrir okkur öll.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: