creed
Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 15. október, 2016

Stóra Creed-málið


Hvað ræður því hvaða listamenn eru „í lagi“ og hverjir eru settir út af sakramentinu? Höfundur fékk skemmtilega innsýn í þessi mál í síðastliðinni viku.

Þetta byrjaði með grallaralegri færslu á Fésbókinni þar sem ég var innblásinn af tveimur kaffibollum og fjölmiðlafræðilegu kenningunni um Þagnarsveipinn eða „The Spiral of Silence“. Færslan var svohljóðandi: „Ég læt ekki spíral þagnarinnar hefta mig lengur. Ég óttast ekki útskúfun samfélagsins lengur. Ég ber mér á brjóst, til fjandans með afleiðingarnar, og hrópa: ÉG FÍLA ÞETTA LAG!!!“. Svo mörg voru þau orð en lagið var „My Own Prison“ með bandarísku síðgruggssveitinni Creed. Grallaragrín í morgunsárið, en tek þó fram að þetta tiltekna lag náði landi hjá mér á sínum tíma, mér finnst það raunverulega gott. Hin svokölluðu „læk“ urðu þó furðu mörg og fljótlega hafði Atli Fannar Bjarkason hjá Nútímanum samband við mig og vildi gera úr þessu skemmtilega frétt. Athugasemdaþráðurinn við færsluna hóf líka að lengjast og þessi sakbitna sæla virtist hreyfa við mörgum og það á margvíslega vegu.

Þagnarsveipskenningin segir til um að ef fólk skynjar að einhver skoðun gangi gegn almenningsálitinu þá velji það fremur að þegja en tala út um hana. Allt frá því að Creed kom fyrst fram hefur hún notið hins vafasama heiðurs að vera talin afskaplega léleg og leiðinleg, nánast eins og það sé samfélagslegt samþykki að sveitin eigi lítið inni. Sveitin tilheyrir seinni bylgju gruggsins sem reis ca 3 árum eftir að fyrsta bylgjan skall á. Í raun má segja að allar senur sem ná almannahylli, hvort sem það er Bítlarokk eða grugg, geti af sér útvötnuð bönd sem eru að feta í fótspor þeirra sem ruddu brautina, oft með æði misjöfnum árangri. Eru eins og skugginn af þessu upphaflega og Creed er gott dæmi um slíka sveit.

En athugasemdaþráðurinn var fróðlegur. Margir hlógu við og hentu gaman að á meðan aðrir fyrtust við og lýstu hatri sínu á sveitinni í löngum og litríkum færslum. Aðrir fögnuðu og „komu út úr skápnum“ sem einlægir Creed-sinnar. Og enn aðrir námu lítt þá kaldhæðni sem var lykluð inn í þetta og spurðu í forundran afhverju væri verið að gera veður út af þessari mætu sveit. Allt var þetta á tvist og bast í þeirri ormagryfju sem fésbókin getur svo oft verið.

Fyrir félagsfræðinginn mig var þetta einkar athyglisvert allt saman. En svo er það annað. Hljómsveitir eins og Toto, Journey og Foreigner þóttu eitt sinn gríðarlega hallærislegar en fengu svo „hipstera“-stimpil. Það er „í lagi“ að lýsa aðdáun á þeim og þú þarft ekki einu sinni að setja kaldhæðinn fyrirvara á það lengur.

Ef ég hefði póstað kraftballöðu með Foreigner og sagst fíla hana hefði ég bara fengið hjörtu og læk. Þannig að … ef nokkrir hipsterar í Brooklyn taka sig saman og ákveða að Creed sé málið, þá breytist þetta. Svona hlutir hafa nefnilega lítið að gera með tónlistarlegt innihald, þetta snýst um stimplun, vinda tímans, samfélagslega stemningu hverju sinni o.s.frv. Creed kúl? Þið lásuð það fyrst hér.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: