Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 18. október.

Meiriháttar sending

Tómas Jónsson brunaði fagnandi í hlað til mín á dögunum með forláta flatbökukassa þar sem er að finna plötur hans Tómas Jónsson 1, 2 og 3 (sjá mynd). Það er ofboðsleg tónvirkni í Tómasi nú um stundir, þessi kassi, Gúmbó nr. 5, sem kom út í ágúst, ný dúettaplata með honum og Magnúsi Trygvasyni Eliassen (Best á flest: Sounds of America) og gleymum ekki dáindis Garminum sem kom út í fyrra. Allt saman frábært stöff!

Með ýmsa hatta á höfði
Já, ég skal segja ykkur það. Tómas hefur undanfarin ár verið með iðnustu hljóðfæraleikurum í djassi, poppi og nefndu-það og er með ýmsa hatta á höfði (auk raunhattsins sem hann ber). Útgáfa er eitt en svo leiguspilar hann eins og vindurinn í ýmsum verkefnum og er aukinheldur meðlimur í ADHD, djass/spunasveitinni mögnuðu og er þegar þetta er skrifað með henni á hljómleikaferðalagi í Evrópu.

Vinnur hlutina hratt
Ég skrifaði fyrst um Tómas árið 2017 og þá um fyrstu plötu kassans (sem út kom 2016). „Tómas er að draga úr djassbankanum, sannarlega, en skimar um leið í aðrar áttir. Samþætting þessa alls hljómar þá eðlilega og sannfærandi og er helsti styrkur þessa mjög svo ágæta frumburðar. Þetta er allt saman svo þægilega kunnuglegt eitthvað – en um leið ekki,“ sagði ég meðal annars. Reit og um hann er plata 3 kom út (ekki spyrja mig um þessa röðun) og þar segir: „„Breiðholt“, opnunarlagið, er eins og stef úr framsækinni rúmenskri mynd frá 1981, „Chicagomalt“ er eins og tónlist úr biluðum tölvuleik en „Sefgarðar“ er hrein fegurðarstemma. Eins er með „Ránargata“ á meðan „Kemurekkitilgreina“ er grallarapopp. „Heilsubótarganga vélmennis“ hljómar nákvæmlega eins og titillinn!“ Ég sló reyndar á þráðinn til hans er ég kokkaði upp pistilinn um 3 og hann sagði mér í gegnum landlínuna: „Ekkert af þessu var sérstaklega ákvarðað en ég reyni að finna fegurðina í lögunum, hvort sem þau eru ljúf, áleitin eða húmorísk … Ég legg áherslu á að vinna hlutina fremur hratt og þá er lykilatriði að vera með góðan mannskap, fólk sem þarf ekki að útskýra of mikið fyrir … Og ég tók þá ákvörðun fyrir nokkrum árum að hætta að reyna að semja góða músík. Þá losnaði um mikinn hnút hjá mér og þetta fór að flæða óheft og eðlilega.“

Eins og flís við rass
Þriðja platan, 2 (2025), ómar undir þar sem ég sit við tölvuna og fellur hún eins og flís við rass við þessa aðferðafræði/hugmyndafræði sem lýst er að ofan. „Réttum eld“ nuddar á mér eyrun núna, hljóðgervlasýra með viðkomu í nokkrum löndum og stefnum og alveg afskaplega Tómasarleg.

Örstutt í heilbrigt flipp
Þá er ég búinn að afgreiða kassann en ég vil minnast á hinar plöturnar líka. Á Best á flest: Sounds of America halda þeir Magnús áfram hljóðfærarannsóknum sínum sem fengu fyrst útrás á Bilað er best (2023) og Gúmbo nr. 5 er temmilega hamslaus, djúpdjössuð með vísun í suðurríki Bandaríkjanna eins og titillinn ýjar að. Garmur er þá einstök og gott að geta vikið fallegum orðum að henni hér. Fallegasta plata Tómasar, ljúf píanótónlist spiluð á gamalt píanó (garm) og upptakan þannig að það er eins og það sé verið að spila af 78 snúninga plötum frá 1932. Hér er galdur!

Tómas Jónsson er „íslenskur“ tónlistarmaður. Hann er virkur og hress, leysir úr hlutum, gerir þá og alltaf – blessunarlega – er örstutt í heilbrigt flipp. Megi „sneiðarnar“ verða sem flestar næstu árin.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: