Ró og næði Stund milli stríða hjá Rike Huy úr LUX:NM en fimm verk voru á efnisskrá kammerhópsins. — Ljósmynd/Arnar Eggert Thoroddsen.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 31. júlí.

Berlínarbít og Berlínarbjarmar …

Blaðamaður var staddur í Berlín á dögunum og nýtti að sjálfsögðu tækifærið og sótti nokkra tónleika af margvíslegum toga.

Það segir sig sjálft að þegar maður er staddur í milljónaborgum eins og Berlín, hvar menningar- og listasagan er djúp og rík, er tiltölulega einfalt að dýfa tám í hina og þessa tónlistarviðburði. Það er stanslaus dagskrá úti um alla borg, í öllum hverfum, og maður sat við algert gnægtaborð. Ég fann síðu, www.echtzeitmusik.de, sem var einkar hjálpleg og læt ég hana fylgja hér enda alla jafna stríður straumur af listelskandi Íslendingum til Berlínar. Fyrstu tónleikarnir sem ég sótti voru reyndar alls óvæntir. Við fjölskyldan kíktum inn á 8mm á föstudagskvöldi, helsvalan bar sem hefur löngum verið vel sóttur af Íslendingum í Berlín (sekur!). Þar sem ég sat með sódavatnið mitt, í myrkrinu, horfandi á fólk sem var að gera sitt besta til að lifa af týpuálag upp á ellefu á Richter, var síðhærður, prúðskeggjaður maður að koma sér fyrir uppi á sviði. Listamannsnafnið er Lucola, heimaland hans Nýja-Sjáland og tónlistin hljóðgervlatónlist sem kallar fram áttunda og níunda áratuginn á víxl. Ekki var þetta mjög merkilegt, Bónus-útgáfa af Hermigervli og Berndsen, og lítið meira um Lucola að segja þannig lagað. Kastaði á hann kveðju fyrir utan og já, hann er kynlegur kvistur utan sviðs sem innan. Staðfest.

Næstu tónleikar voru meira fullorðins. Þeir áttu sér stað á Heroines of Sound-hátíðinni, tón- og hljóðlistahátíð sem helguð er kvenkyns og hinsegin tónskáldum. Þessi merka hátíð fagnaði ellefu ára afmæli í ár og tónleikarnir sem við sóttum fóru fram í ZK/U (Zentrum für Kunst und Urbanistik) í Moabit-hverfinu. Kammerhópurinn LUX:NM flutti nokkur verk sem eru öll sem eitt á ytri mörkum hins samþykkta. Eitt verkanna, „Termite Territory“ (eftir Hönnu Hartman), var spilað á fimm pappaspjöld. Fimm verk voru á efnisskránni og eitt eftir hópinn sjálfan. Tónskáldin voru sum í salnum og stemningin góð og innileg. Salurinn flottur og umhverfið sömuleiðis, menningarvænir stórborgarstraumar liðu um loftið. LUX:NM dreifði sér um salinn fremur en að vera uppi á sviði og framfærsla hans öll og tónlistarflutningur tilraunakenndur og markaþenjandi. Ég þarf reglulegt skot af svona hlutum og var mér heldur betur fullnægt þetta kvöldið.

Eftirminnilegustu tónleikarnir voru svo þeir síðustu, djasstónleikar í Wedding-hverfinu. James Crutchfield-kvartettinn að spila á Alter Schwede, stað sem er með þeim myndrænni sem ég hef séð. Þetta var meira eins og kvikmyndasett og við fjölskyldan orðin leikarar í Kaurismäki-mynd (hráir, ókláraðir veggir. Ónýtt píanó í horninu). Við löbbuðum nánast í flasið á hljómsveitinni og er við komum inn, hundblaut eftir steypiregn, var bandið að telja í. Hefðbundinn djass var leikinn, ef hann er til, en með reglubundnum, vel víruðum sprettum. Trommarinn (John Schröder) er sérstaklega eftirminnilegur. Matthías Hemstock þeirra Þjóðverja með dassi af Trygvason Eliassen.

Þetta var gott gigg, eiginlega frábært. En þetta var líka fyndið. Saxófónleikarinn Henrik Walsdorff var eins og hann væri búinn að liggja í skrítnum sígarettum allan daginn og silaðist einatt sposkur inn á mitt svið þegar hann átti að sólóa. Argentínski bassaleikarinn Rudolfo Paccapelo var líka skemmtilegur á sviði og línan „það er eins og það hafi fundist afgangsbrúður inni á lager hjá Prúðuleikurunum“ fékk að fljúga.

Það var ekki aðgangseyrir, frjáls framlög, og það teiknaðist upp mjög táknræn mynd af eðli tónlistarbransans. Eiginlega skuggaleg. Þarna voru atvinnumenn að spila, fyrir fimmtán manns, og á borðinu lá ölmusuhattur. Ég vissi ekki hvort ég ætti að brosa eða gráta. Berlín var hlaðin tónlist, líkt og endranær, í þessari heimsókn okkar og kannski ágætt að impra á því hér í restina að listformið æðsta þarf aðhlynningu eins og aðrir hlutir. Hugsum um og til tónlistarfólksins okkar. Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: