Stórt Glastonbury-hátíðin á Englandi er ein vinsælasta tónlistarhátíð veraldar en hún var fyrst haldin árið 1970. — Ljósmynd/WikimediaCommons – Paul Holloway.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 17. júlí.

Er ekki bara „drullugaman“?

Sumarið er tími tónlistarhátíða, stórra sem smárra. Hvort heldur í Glastonbury-skíri eða í litlum þorpum í Færeyjum. Eigum við ekki að rýna aðeins í þetta fyrirbæri?

Er það þess virði að veltast um í forarsvaði fyrir lifandi tónlist? Ó já væri algengasta svarið frá tónelskandi jafnöldrum mínum og reyndar líka þeim sem eru ekki jafnaldrar mínir. Tónlistarhátíðir? Hvað er þetta annars og hvaða tilgangi þjóna þær? Rafall fyrir poppiðnaðinn og ákveðið vélavirki? Tækifæri til að detta í það með félögunum og sjá uppáhaldssveitirnar sínar á einu bretti? Möguleiki fyrir listafólk að koma sér á framfæri og flagga sínu? Svar: Allt þetta og ýmislegt fleira meira að segja.

Svo ég byrji á punktinum með það að sjá allt á einu bretti þá eru auglýsingarnar um Reading-hátíðina í Melody Maker-tímaritinu sem ég las sem unglingur ljóslifandi. Þetta var snemma á tíunda áratugnum. Bara vá! Tugir æsispennandi sveita sem ég gat séð yfir nokkra daga og það í slagtogi með vinum mínum. Hvar skrifa ég undir? Hátíðina sótti ég svo 1996 og ári fyrr fór ég á Hróarskelduhátíðina goðsagnakenndu og sá Blur, Oasis og Bob Dylan (og missti af Jeff Buckley). Og ég fann að tónlistarhátíðir snúast ekki eingöngu um að sjá sveitir á sviði. Fjarri því. Þarna var samvera með góðum vinum, kynni við nýja, matur, skrall og alls kyns ævintýr sem við förum ekki nánar út í hér. Þetta er pakki, með alls kyns íhlutum, og tónlistin bara einn af þeim. Aðalmálið er því „andinn“ og í raun skiptir það ekki máli hvort þessi eða hinn er að spila heldur einstæð stemningin. Hátíðirnar hafa þannig gildi í sjálfum sér og margar þeirra eftirsóttar einmitt vegna þess, einhverra sérkenna eða orðspors, hvort heldur sem er Hellfest í Frakklandi, Sátan í Stykkishólmi eða G!-hátíðin í Færeyjum.

Tónlistarhátíðir eru auk þess mikilvægur hluti tónlistariðnaðarins. Eitt er persónuleg upplifun, gleði og andleg styrking, annað er hið kalda vélavirki sem lætur hátíðarhjólin snúast. Hátíðir koma og fara, vaxa eða fara á hausinn, en heilt yfir er jarðvegur þeirra góður á þessu herrans ári, 2025. Plötusala hefur minnkað, línulegt útvarp er í lausu lofti, stafrænan tröllríður tónlistinni – til bölvunar sem blessunar – en ekkert virðist ógna þörf okkar fyrir að sjá tónlist leikna á sviði í góðra vina hópi. Tónlistarhátíðir hérlendis t.d. eru í vexti finnur maður. Litlar sem stórar hátíðir, almennar sem sértækar, eru haldnar um land allt og ekki bara yfir sumartímann. Undanfarin ár hafa tónlistarhátíðir svo orðið vettvangur fyrir framsæknar hugmyndir í garð sjálfbærni. Tilraunir eru gerðar með alls kyns endurnýtingu og -vinnslu, hvernig hægt er að minnka kolefnisfótspor og knýja hátíðirnar með vistvænum orkugjöfum. Tónlistarhátíðir taka þannig mið af breyttum samfélagsáherslum almennt, eru eins og lítill tilraunagarður fyrir betri og meira nærandi heim.

Ég opnaði símann rétt áður en ég settist niður til að klára þessa grein. Fór inn á Instagram. Það fyrsta sem kom upp í fréttastreyminu mínu var myndband frá Glastonbury. Auðvitað ekki tilviljun, algrímið sér um sína. Verið var að opna hliðin að hátíðinni á táknrænan hátt og sjá mátti höfðingjann Michael Eavis, níræðan, en hann stofnsetti hátíðina á sínum tíma. Við hlið hans dóttirin Emily sem keyrir hana af festu í dag. Talið var niður og svo fylgdu gríðarleg fagnaðaróp er gestir streymdu inn, kampakátir. Glastonbury er ein stærsta og farsælasta hátíð sinnar tegundar, milljónabatterí, en um leið er hlúð að ákveðnum gildum sem hátíðin stendur fyrir, mannlegum þáttum sem og samfélagslegum hugsjónum. Tónlistarhátíðir virka þannig á míkró- og makrósviðum, snúast um einstaklinga en okkur öll líka á sama tíma. Góða skemmtun í sumar!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: