Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 10. mars, 2018

 

Norðurlandarokk

 

Norrænu tónlistarverðlaunin voru afhent í Ósló um síðustu helgi í tengslum við tónlistarhátíðina by:Larm. Pistilritari var á staðnum.

Greinarhöfundur situr í dómnefnd Norrænu tónlistarverðlaunanna (Nordic Music Prize), verðlauna sem stofnað var til árið 2010 en fyrsta árið sigraði Jónsi okkar með plötunni Go. Í ár vorum við með þrjá fulltrúa á tólf platna stuttlista – það mesta sem við mörlandar höfum átt – og voru það þau Högni, Alvia Islandia og Björk. Allt kom fyrir ekki og verðlaununum hampaði Susanne Sundfør fyrir plötu sína Music for People in Trouble. Hún var vel að þessu komin; platan ein sú besta frá síðasta ári, en Íslendingurinn í manni beit að sjálfsögðu harkalega í vörina þegar þetta var tilkynnt. Yggldi sig jafnvel. Allt tal um sameiginlega þætti norrænnar popptónlistar er vandkvæðum bundið. Það er eðlilega vilji til að stilla fram einhverju sameiginlegu (það er hentugt markaðslega) en það sést hins vegar (og heyrist) að margir og ólíkir hlutir eru í gangi í þessum löndum. Þessi norræni tónn er því ansi fjöltóna ef svo mætti segja. Til að blómleg tónlistarmenning fái þrifist á þessum svæðum er hins vegar nauðsynlegt að halda henni að væntanlegum hlustendum og margt gott starfið er unnið að því leytinu til og með Norrænu tónlistarverðlaununum er leitast við að stimpla það inn að margt popplegt þrekvirkið er unnið hér á norðurslóðum ár hvert.

Tónlistarhátíðin by:Larm, sem skýldi verðlaunaafhendingunni ef við getum sagt sem svo, er mikilvægasta „bransa“-hátíð Norðurlanda, því að samfara tónleikum um alla borg, sem hafa að langmestu leyti að gera með nýleg bönd frá Norðurlöndunum, eru erindi, ráðstefnur, fundir og allsherjar samkrull allra þeirra sem keyra þennan heim vopnaðir lyklaborðum og netfangalistum. Eftir verðlaunahátíðina settist ég niður með kollegum mínum í nefndinni ásamt fleiri spöðum, fulltrúum frá útgáfum eins og Rough Trade og Domino. Við hliðina á mér sat Rob nokkur Young, breskur tónlistarblaðamaður sem var eitt sinn ritstjóri Wire og er höfundur Electric Eden, frábærs rits um breska þjóðlagatónlist og vinnur hann nú að bók um Can. Young lét falleg orð falla um Jóhann okkar Jóhannsson á verðlaununum og þakkaði ég honum mikið og vel fyrir það.

Tónleikum var svipt upp linnulítið eins og segir og þefaði maður af kornungum bílskúrssveitum á vel sveittum rokkbörum. Ég fékk líka tækifæri til að sjá Sólstafi spila og áttu þeir framúrskarandi innkomu; þéttir, öruggir og gefandi. Einnig léku Reykjavíkurdætur á hátíðinni.

Alls kyns uppákomur, miðaðar að tónlistarnerðinum í okkur öllum, voru í gangi og m.a. var kynning á og djúprýni í plötu Lees Hazlewoods, Cowboy in Sweden. Þar spjallaði m.a. Matt Sullivan, eigandi og stofnandi Light in the Attic Records, sem er eitt fremsta endurútgáfufyrirtæki heims í dag. Ég náði að krækja aðeins í Sullivan í morgunmatnum einn daginn og áttum við gott spjall um þennan bransa; að grafa upp löngu gleymda gimsteina og endurútgefa þá til heilla fyrir nýjar kynslóðir hlustenda.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: