Jólaleg Magnús Jóhann og GDRN bættu í jólaplatnaflóru Íslands þetta.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 21. desember.

„Plötur hljóma, söngvar óma“

Hér verða ­nokkrar nýjar íslenskar jólaplötur gerðar að umtalsefni. Heimtur voru giska góðar í ár, stöndug verk og góð komu út, verk sem gætu lifað áfram inn í fleiri jól ef því er að skipta.

Ný jólatónlist kemur út á Íslandi reglubundið og um hver jól erum við að tala um á bilinu núll til fjórar plötur. Slatti af stökum lögum kemur líka út. Í pistli þessum ætla ég að gera fimm nýjum plötum skil þó að sú síðasta sé smá svindl. En bara pínu samt.

Plata GDRN og Magnúsar Jóhanns er mér hugstæð enda fór ég rækilega inn í hana fyrir stuttu. Vandað er til verka í hvívetna, ungt tónlistarfólk að reyna sig við eilífðarslagara og vel tekst til, virkilega. Músíkalska parið þekkir lögin efalaust inn og út en er þó ekki á þeim aldri að hafa fengið þau þrædd inn í DNA-ið sitt með nál og tvinna. Þessi ákveðna kynslóðafjarlægð vinnur með plötunni, það er ekki verið að telja í lummur, miklu fremur verið að túlka upp á nýtt. Skapalónið er það sama og á Tíu íslensk sönglög (2022), allt hérna er löturhægt og strípað og minnir helst á „lent“-útgáfur hollenska píanóleikarans Reinberts de Leeuws á Satie-katalógnum.

Notaleg jólastund er metnaðarfull og einkar hátíðleg plata eftir Guðrúnu Árnýju. Platan á sér margra ára vinnslutíma í raun en hugmyndin kviknaði fyrir ári er Guðrún fékk lítinn kór og strengjakvartett til liðs við sig á jólatónleikum sínum. „Ég var með ákveðnar vonir og væntingar, en hefði aldrei órað fyrir því að útkoman yrði þessi,“ er haft eftir söngkonunni í fréttatilkynningu. Þetta ástríðuverkefni var svo tekið upp í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði og fór eftirvinnsla fram í janúar og febrúar á þessu ári. Innihaldið sérvalin lög og sálmar, hljómur plötunnar voldugur þar sem kór og strengir styðja vel við sönginn. Epík bæði og natni einkenna alla framvindu.

Þau Silva og Steini gáfu út plötu 2022, More Than You Know. Í dómi sem ber yfirskriftina Sindrandi stilla skrifaði ég m.a.: „Þessi plata býr yfir dásamlega lágstemmdum tón, rúllar áfram á fallegan og strípaðan hátt. Engin læti. Ljúf djasssöngrödd Silvu leiðir oftast nær framvinduna, blíð og tær, og rólegur – næsta ­varlegur – píanóleikur Steingríms styður alveg afskaplega vel við.“ Sama er upp á teningnum á jólaplötunni Christmas with Silva & Steini en nú syngur Steini, Steingrímur Teague, líka. Eins og hjá GDRN og Magnúsi er værð yfir en hún er allt öðruvísi um leið. Það er meiri djass fyrir það fyrsta og á köflum launskrítinn andi sem erfitt er að festa fingur á. Andrúmsloft sem lokkar og laðar og platan er afskaplega vel heppnuð verð ég að segja.

Þá er það alþjóðastjarnan okkar hún Laufey. A Very Laufey ­Holiday er fimm laga stuttskífa hvar opnunarlagið er „Santa Baby“ en sjálfur Bill Murray kíkti í heimsókn í meðfylgjandi myndbandi. Platan rúllar vel og örugglega í sönnum Laufeyjar-anda og skemmst að minnast þess að hún og Norah Jones gáfu út smáskífuna „Christmas with You“ saman fyrir ári. Að lokum vil ég svo nefna að Fischersund (Jónsi, Sin Fang og Kjartan Holm) var að læða Sounds of Christmas út á vínilformi en platan kom upprunalega út fyrir ári á stafrænu formi eingöngu. Gleðileg íslensk jól öllsömul!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: