Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 20. júlí.

Óskapleg ærsl í öfgarokkinu

Það er nóg um að vera í íslensku öfgarokki eins og alltaf og fer hér smávegis skýrsla um at síðustu missera.

Þungarokkið, þessi stærsti undirgeiri rokksins, lifir góðu lífi hérlendis og þá sérstaklega afleiddi geirinn öfgarokkið (e. extreme metal). Svartmálmur, dauða-, dómsdags- og útfararrokk og svo má áfram telja. Ég ætla rétt að taka „mynd“ af stöðunni í dag og ætla að horfa þrjú misseri aftur í tímann.

Þrír, töfratalan, er við hæfi því að helstu sveitir okkar úr þessum ranni eru við hestaheilsu. Skálmöld gaf út nýja plötu, Ýdali, í ágúst síðastliðnum og Dimma tónleikaplötu í febrúar á þessu ári. Sólstafir gáfu svo út smáskífuna „Hin helga kvöl“ um miðsumar, titillag bráðkomandi breiðskífu sem kemur út á Century Media.

Duft er tiltölulega ný sveit, stofnuð 2021 en hóf sig til flugs á síðasta ári. Breiðskífa er þegar komin út, Altar of Instant Gratification (góður titill) og það á mílönsku útgáfunni Scarlet Records. Innihaldið er áhugaverð blanda af síð-/málmkjarna og einhvers konar dauðarokki/svartmálmi. Alger brimbrjótur. Vafurlogi er verkefni sem Þórir Garðarsson nokkur leiðir (Sinmara, Svartidauði) og byggist tónlistin á sígildum svartmálmsgrunni. Eitt lag er sloppið út og stór plata kemur út í september.

Sól án varma, „súbergrúbbu“-verkefni Misþyrmingar og fleiri kom út í apríl 2023 (og gerði ég grein fyrir því í pistli). Tónleikaplata með Misþyrmingu, Með hamri í lifandi formi, kom þá út í desember. Harðkjarnamulningsvélin Une Misère er þá að gíra sig upp og bæði stökull og stuttskífa komu út á síðasta ári. Gamalkunnug nöfn hafa verið að snara út efni, nýdauðarokkarararnir í Devine Defilement gáfu út stórgóða plötu í febrúar, Age of Atrocities, svartmálmssveitin Fortíð, sem á sér yfir 20 ára sögu, gaf út nýja plötu í fyrra og upprisin Celestine læddi út sex laga plötu (Detriment) í apríl.

Ég bregð mér svo á mátulegt hundavað undir restina. Á síðustu 18 mánuðum hafa m.a. komið út breið- sem þröngskífur frá Punks of the Empire, Nyrst, Vögel, Drunga og Úlfúð (stórgott dauðarokksbik (e. blackened death metal)). Helfró gaf út stóra plötu sem siglir um svipuð mið í desember og lék á vel þéttum tónleikum á Sátunni í sumar. Óreiða og Dauðaró leggja sig eftir hugfróandi tónlist, einslags sveimmálmi („ambient“) og dældi Dauðaró út slíku efni á síðasta ári. Plata Óreiðu, The Eternal, er þá skínandi flott dæmi um þetta afbrigði öfgarokksins. Dómsdagsrokkið (e. doom metal) er þá í góðum höndum þar sem Slor, Pthumulhu og Morpholith eru annars vegar og nýtt efni frá þeim síðastnefndu ku á leiðinni. Hin grjótharða Nexion er þá að brugga svakalegan seið, plata í farvatninu og hljómleikahald fram undan með nýrri mannaskipan. Vosbúð spilar fínasta svartmálm (sjá Heklugjá stuttskífuna, 2023) og sama má segja um Altari sem kemur líkast til með nýja plötu á næsta ári. Plata hennar, Kröflueldar (2023), er frábær. Og rétt í lokin, þetta tímabil sem hér er til umræðu byrjaði af krafti með sérdeilis flottum skífum frá Elikadama (Elía Karma Dan) þann 2. janúar, 2023. Tvær til viðbótar hafa þá komið út í ár. Elía er með afar persónulegan stíl á sínu öfgarokki en ég heyrði fyrst af henni í gegnum HUSH, 2020 (ég kallaði þá tónlist hljóðlistardauðarokk). Athugið svo, kæra fólk, að hér er stiklað á stóru og fullt af nöfnum sem eru ekki á blaði. Ekki lesa neitt í það. Færi að endingu senunni sem slíkri kærar þakkir en upplýsingar góðar fékk ég þaðan er ég lagði af stað í leiðangur.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: