Fimm í fötum Reffilegir ræflarokkarar stilla sér upp. Ljósmynd/Arnar Eggert Thoroddsen.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 9. ágúst.

Gaddavír á gresjunni

Norðanpaunk er tónlistarhátíð, haldin á Laugarbakka, þar sem grasrótartónlist af öllum toga fær að þrífast. Pistilritari dvaldi þar síðustu helgi við góðan kost.

Norðanpaunk er innileg, kraftmikil, umvefjandi og styrkjandi grasrótartónlistarhátíð sem hefur verið haldin í félagsheimilinu Ásbyrgi á Laugarbakka allar götur síðan 2014. Í þorpinu búa um 50 manns og skipuleggjendur hafa frá upphafi vega haldið sína hátíð í góðu samstarfi við íbúa. Mikill gerum-það-saman-andi þræðir sig um alla framvindu á þessari litlu hátíð og samvinna, sjálfboðavinna, umhyggja og passasemi, sem X-kynslóðarmaður upplifði ekki í kolsvörtu – en dásamlegu – næntísinu, stýrir för. Með nýjum kynslóðum koma nýjar áherslur og við sem störfum í bransanum fáum smjörþef af og innsæi í góða og gegna hluti í gegnum framtak eins og þetta. Hátíðin er þannig haldin í sönnum pönk/kommúnuanda og er í raun réttri á vegum þeirra sem hana sækja. Sviðin eru tvö, bæði í félagsheimilinu Ásbyrgi, eitt stórt en svo eitt sem er í anddyrinu/fatahenginu. Þar hafa farið fram „litlir“ og gersamlega stórkostlegir tónleikar. Norðanpaunk, sem er skilgreind sem árshátíð/ættarmót, er algerlega framkvæmd af sjálfboðaliðum og er ekki gróðamiðuð. Rík áhersla er á „öruggara rými“ (e. „safer space“), virðingu við og inngildingu hvers kyns jaðarsettra hópa og teymi frá skaðaminnkunarsamtökunum Matthildi er á staðnum.

Í ár hitti ég vini og kunningja og naut sólar, vinds og jafnvel rigningar. Var í samneyti, samfélagi, samskiptum, samveru. Tónlistarhátíðir eins og þessar eru alltaf miklu meira en einfalt hylki utan um tónlistarsköpun og alls kyns þræðir, vinklar og orkukúlur í gangi mannskapnum sem mættur er til heilla. Jú, tónlistin er einhvers konar útgangspunktur en maturinn, fíflalætin, reddingarnar, tjalduppsetningin, vináttan, gráturinn og hláturinn … þetta er ekki hluti af hátíðunum heldur er þetta hátíðirnar.

Á sunnudeginum settist ég svo niður með gestum, tónlistarfólki og sjálfboðaliðum og rúllaði af stað samveru- og samtalshring í áðurnefndu anddyri. Við sátum á gólfinu, í hring, eins og við varðeld, og áttum þar nærandi og uppbyggilegt spjall um tilgang og hlutverk grasrótartónlistarhátíða. Ég kryddaði með oggulitlum fræðum þegar hæfandi var og það var gott að fá pælingar frá aðstandendum viðlíka hátíða (Hátíðni, MBS) og fulltrúar frá grasrótarhátíð í Svíþjóð voru einnig á staðnum.

Tónlistin drundi þá daglangt að heita má, þekktar sveitir sem óþekktar, slatti af kunnum sveitum á jaðrinum og líka slatti af nýjum verkefnum, hinir og þessir aðilar sem hafa starfað með hljómsveitum sem maður kannast við að prufa sig áfram með eitthvað spánnýtt (Yang Soup t.d.). Ég sá harðkjarna frá Bandaríkjunum (sem talaði beint og kröftuglega inn í hörmungarástandið í Gaza), gítarspuna frá Íslandi (Symfaux með breyttu sniði), kuldabylgju frá Grikklandi og sturlað sett frá hinni fáránlega flottu World Narcosis. Bara, vá!!! Um 50 hljómsveitir tóku þátt, sem er heilmikið, settin voru stutt (kostur) og fjölskrúðugheitin auk þess mikil. Á Norðanpaunki er dómsdags- og gotarokk, pönk, harðkjarni, súrkálsrokk, tilraunatónlist, svartmálmur, sólósýra, drunulist, rafpopp, spunaflipp og (bætið við eftir smekk). Allt sem undir jaðarsólinni er. Í Löngufit handverkshúsi á Laugarbakka má svo upplifa þann merka samslátt landsbyggðar og jaðarbundinnar borgarmenningar sem á sér stað á hátíðinni þegar strangheiðarleg amma úr þorpinu selur glingri skrýddum ræflarokkara handprjónaða vettlinga. Og allir helsáttir. Áfram Norðanpaunk og munum þessa heillasetningu: „Drifkraftur mannskepnunnar er samvinna – ekki samkeppni.“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: