the knife

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 20. apríl, 2013]

Blað skilur bakka og egg

• Sænski skrítipoppdúettinn The Knife gefur út nýja plötu
• Sú fyrsta síðan árið 2006

Sænski dúettinn The Knife, sem er skipaður systkinunum Karin Dreijer Andersson og Olof Dreijer, vakti fyrst verulega athygli fyrir plötu sína Deep Cuts (2003). Ein plata, samnefnd dúettinum hafði þá komið út 2001 en hann var stofnsettur tveimur árum þar á undan. Meginathyglin var þó vegna útgáfu landa þeirra, José González á laginu „Heartbeats“ sem glumdi í vinsælli Sony auglýsingu. Þannig að eldsnemma á ferli urðu systkinin að mæta erfiðri siðferðislegri spurningu. Tónlist þeirra og lífsviðhorf almennt eru ýkja langt frá meginstraumnum og hvernig áttu þau þá að réttlæta þessa sölu á hugsmíð sinni? Tilgangurinn helgar meðalið segir einhvers staðar og Dreijer-tvíeykið nýtti peninga Sony til að koma af stað eigin útgáfu (og já, það má vel segja að á því höfum við öll grætt listrænt séð).

Leikreglum storkað

Næsta breiðskífa, Silent Shout (2006), dýpkaði svo enn frekar á orðspori þessa einstaka dúetts. Gagnrýnendur voru svo gott sem á einu máli um gæði gripsins og gekk það svo langt að smekkbiblían sjálf, Pitchfork, valdi plötuna þá bestu það árið. Heima fyrir vann sveitin allt sem hægt var að vinna á sænsku tónlistarverðlaununum en lét hins vegar ekki sjá sig á athöfninni. Eitt af mörgum dæmum um það að Knife-liðar spila ekki eftir hefðbundnum leikreglum bransans. Þessi dularfulla ára sem í kringum Knife er, hvort heldur á ljósmyndum, myndböndum eða yfirlýsingum hefur styrkt hana og því lengra sem systkinin fara í þær áttir því æstari verða aðdáendur og fjölmiðlar. Augljósasta viðlíkingin væri Björk, sem nær á undraverðan hátt að skapa utangarðslist innan ramma meginstraumsins án þess að missa vott af trúverðugheitum.

Rammpólitísk

Silent Shout var myrkari og óaðgengilegri en fyrirrennarinn og nú, sjö árum síðar, er farið enn lengra út á sýrulegnar lendur. Platan nýja, Shaking the Habitual, er t.a.m. um 100 mínútur að lengd og kemur hún út á tvöföldum geisladiski (og þreföldum vínyl). Eitt lagið er nítján mínútur og mörg þeirra í kringum tíu mínútur. Platan virðir lög og reglur í popplandi fullkomlega að vettugi og maður fyllist hálfpartinn lotningu þegar maður hlustar – og einfaldlega veltir listrænni afstöðu þessa fólks fyrir sér. Eins og nærri má geta hafa fimm stjörnur verið að koma í hús hvaðanæva og meira að segja þeir gagnrýnendur sem finnst platan leiðinleg og tilgerðarleg virðast samt ekki geta annað en tekið ofan.
Platan er rammpólitísk. Systkinin eru búin að liggja í feminískum og hinsegin fræðum („queer theory“) og plötutitillinn er tilvitnun í franska heimspekinginn Michel Foucault. Umhverfispólitík og gagnrýni á skipan nútímasamfélags eru þarna líka, risastór temu svo sannarlega! Yfirlýsingar systkinanna í viðtölum eiga rætur í anarkisma, ný-hippisma jafnvel þar sem hinni hefðbundnu, vestrænu kjarnafjölskyldu er t.d. gefið langt nef („stofnun sem styður við ójafnrétti og óréttlæti“, segir Karin m.a.).

The Knife heldur í tónleikaferðalag í enda mánaðar til að boða fagnaðarerindið. Það verður spennandi að sjá hvort þeim tekst að sá einhverjum spurnarfræjum í viðtakendur þar. Eða á lína Bono úr „God Part II“ kannski við: „I don’t believe that rock’n’roll / Can really change the world“? Og hefur hann þó reynt!

 

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: