waterboys steve mike
[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 14. desember, 2013]

 Fleyið skrítna

• The Waterboys fagna kjörútgáfu Fisherman‘s Blues með tónleikum
• Blaðamaður fylgdist með einum slíkum í Barrowlands, Glasgow

„Well here we are in a special place, what are you gonna do here? … Here we are in a fabulous place, what are you gonna dream here?“ Þessar rómantísku sönglínur eru teknar úr opnunarlagi This is the Sea, „Don‘t Bang The Drum“, sem var þriðja hljóðversplata rokksveitarinnar The Waterboys. Þær koma úr brjósti leiðtogans, Mike Scott, og ná vel að kjarna þann mann og hvernig vegferð hans í lífinu hefur verið yfirleitt. Eins og nærri má geta hefur þessi hárómantíska sýn á allt og alla verið honum til bölvunar og blessunar; hlutir eru umfaðmaðir í miklu hástigi eða allt er guðsvolað og svart þegar hlutirnir passa ekki við kjörmyndina. Þessi þráhyggja stýrði meðal annars málum er meistarastykkið Fisherman‘s Blues var tekið upp. Opinber afrakstur var tólf laga plata en fullkomnunarárátta Scott varð til þess að langt yfir hundrað upptökur söfnuðust í sarp. Til að marka kvartaldarafmæli plötunnar var megnið af þessu gefið út sem Fisherman‘s Box, sem hefur að geyma 121 lag alls. Megnið, segi ég, því heimildir eru fyrir því að enn séu til lög í skúmaskotum Scott.

Tilfinningahlaðin endurkoma

Útgáfunni var fylgt eftir með tónleikum í haust og hóaði Scott m.a. saman hluta af þeim mannskap sem stóð að plötunni á sínum tíma. Þessa menn barði ég augum á hinum sögufræga stað Barrowlands í Glasgow nú á þriðjudaginn. Á bassa var Trevor Hutchinsson („sem er ennþá myndarlegasti maðurinn í Írlandi,“ lýsti Scott yfir og hann fer eflaust ekki með fleipur en Hutchinson minnti helst á Dean Martin, stóískur og mjög svo náttúrulega „svalur“). Þá lék á saxófón, orgel, mandólin og fleira Anthony Thistlethwaite sem var jafnan hægri hönd Scott á mektarárunum. Fiðlari var þá Steve Wickham, sem Scott hefur kallað tónlistarbróður sinn, en það var fyrir tilstilli Wickham að Fisherman‘s Blues-ævintýrið allt fór af stað á sínum tíma. Fyrir aðdáendur Waterboys er þetta um margt tilfinningahlaðin endurkoma en í árafjöld töluðust þessir menn ekki við.
Leikar hófust á „Strange Boat“ af Fisherman‘s Blues en fljótlega var hent í rokkaða útgáfu af fyrsta smelli Waterboys, „A Girl Called Johnny“. Menn voru því ekki eingöngu í Fiskimannsblúsnum (þó að nóg væri efnið!) og lög eins og „Don‘t Bang The Drum“ og „The Whole Of The Moon“ voru einnig spiluð. Fisherman‘s Blues-efnið var engu að síður í forgrunni, nema hvað, og „When Will Be Married“ var leikið, sem og frábært titillagið (og þá söng salurinn með sem einn maður) og hið gullfallega „When Ye Go Away“. Hápunkturinn var hins vegar helmögnuð útgáfa af „We Will Not Be Lovers“, þetta grama, sára lag flutt af eftirtektarverðum fítonskrafti. Sveitin var klöppuð upp þrisvar og kvaddi með fjörugri útgáfu af hinu dásamlega „And a Bang on the Ear“ en það lag kom þessum penna upprunalega á bragðið.

Ljúfsárt

Auðvitað hreyfði það við manni að sjá þessa menn sameinaða á ný, sækjandi í þennan gnægtabrunn sem þeir hlóðu í sameiningu á sínum tíma. Og á völdum augnablikum mátti skynja sanna töfra, þessi tilfinning sem þú færð þegar máttur tónlistarinnar nær upp og út fyrir manneskjurnar sem eru að skapa hana. Það er erfitt að koma þessu í orð en allir þeir sem hafa orðið snortnir af tónlist vita hvað ég er að tala um. En (og nú koma leiðindin) eitthvert dökkt ský virðist hanga eilíflega yfir Scott og fyrir því finnur maður líka. Einhverjir ókennilegir, óþægilegir straumar sem flæða einnig út í salinn. Það er nóg að lesa ævisögu hans (Adventures of a Waterboy, kom út í fyrra) til að skilja, a.m.k. betur, af hverju staða mála er svo.
Ljúfsár kvöldstund var því niðurstaðan en aðdáun mín á listfengi Scott hefur ekki minnkað agnarögn og yrði ég fyrstur manna til að stökkva á annan hundrað laga skammt frá þessum blessuðu Fisherman‘s Blues-upptökum.

Tagged with:
 

One Response to The Waterboys: Innlit í Himnaríki og helvíti Mike Scott

  1. Ingimar Neinei Bjarnason says:

    Hutch er andskoti svalur. Ég sá hann fyrir tveimur árum síðan með hinni hljómsveitinni hans Lúnasa. http://en.wikipedia.org/wiki/L%C3%BAnasa_(band)

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: