Ljósmynd/AET

Dómur um Autechre í Hörpu, 15. ágúst, 2025. Birt á FB reikningi höfundar.

—Þegar ljósin slokkna—

Autechre, John McCowen og sideproject í Hörpu, 15. ágúst, 2025

Vel var mætt í Silfurberg Hörpunnar í gær og ætla má að öll þau sem minnstu afskipti höfðu af raftónlistarsenu Íslands á 10. áratugnum hafi verið á staðnum. Autechre er þess til að gera jaðarsveit en æsingurinn í kringum framsækna raftónlist í upphafi þess áratugar, einkanlega fyrir tilstilli Warp-útgáfunnar sem gerði út frá Sheffield fyrst um sinn, gerði það að verkum að Autechre náði að sleikja meginstrauminn ekki ósvipað og Aphex Twin. Þannig böðuðum við hjónin okkur í Nauthól ásamt vinkonu okkar áður en við fórum í Hörpu, vinkonu sem fylgist „venjulega“ með tónlist getum við sagt og Autechre hljómaði kunnuglega í eyrum hennar.

Það var því mætingarskylda fyrir ákveðinn hóp en og mátti sjá ungt fólk á aldur við börnin mín, fólkið sem leiðir neðanjarðarsenu Íslands í dag. Einnig hina og þessa menningarmágusa og fullt af fólki sem ég sá síðast á Norðanpaunk. Ég hef nefnt það í fræðaskrifum að á 10. áratugnum mætti fólk með áhuga á jaðartónlist á alla slíka viðburði, burtséð hvaða geirum þeir tilheyrðu, rokk, raf eða hipphopp. Smæð landsins gerði þetta að verkum. Ég sá það í gær að þetta hefur ekkert breyst. Ef þú býrð í litlu landi og lítilli borg þá þarf að sækja í það sem býðst.

„Strákarnir okkar“, sideproject, hófu leika c.a. 20.02 og voru frábærir. Sumir þeirra nemendur mínir og föðurlegt stolt bærðist um mann. Ég fékk Stilluppsteypuflassbakk við að sjá tríóið þarna á bakvið púlt, predikandi ferska og framsækna raftónlist kvartöld eftir að Steypumenn stunduðu viðlíka. Settið þeirra var sprúðlandi og aldrei slakað á. Taktar, tónar og hljóðbútar á þvers og kruss í tónlistarlegri orrahríð og stöku heimstónlistarhrif flugu inn. Meðlimir einbeittir og þrátt fyrir lætin og hringlið var þetta naumhyggja, minimalismi, þar sem festan í keyrslunni viðhélst frá fyrstu sekúndu til hinnar síðustu.

John McCowen lék á kontrabassaklarinett, sat einn á sviðinu, og flutningur hans var magnaður, algerlega í takt við efnisskrá kvöldsins. Öll atriðin voru keyrð í gegn án orða, kynninga eða kúnstpásu. Það heyrðist ekki eitt orð frá einum einasta flytjanda. Tónlist McCowen þetta kvöldið fellur undir drunulistina („drone“, drón), þar sem sama tóni eða svo gott sem er haldið út í gegn. Fyrst um sinn var þetta dáleiðandi, þægilegt og hjúpandi. Margir sátu á gólfinu, lygndu aftur augum og duttu í hálfgerða leiðslu. Minn betri helmingur hafði áhyggjur af súrefnisinntöku McCowen og ekki að undra. Það var ótrúlegt að fylgjast með líkamlega erfiðinu uppi á sviði. Tónlistin afgerandi og afdráttarlaus, suðandi drón sem á köflum minnti ekkert sérstaklega mikið á tónlist, argandi hljóð og hávaði og eins og flutningurinn dytti óvart á hliðina á köflum (einn kafli minnti mig á stórkostlegan einleikskafla í lagi Talk Talk, „After the Flood“, þar sem leikið er á bilaðan varíófón). Innslag McCowen yljaði, róaði og „hvíldi“ mannskapinn fyrir brjálæðið sem framundan var. Uppröðun kvöldsins var að þessu leytinu til fullkomin.

Ljósin slokknuðu er þeir Rob Brown og Sean Booth, sem skipað hafa Autechre síðustu 38 ár, komu sér fyrir á sviðinu. Það var kolniðamyrkur og ég sá ekki handa skil. Þessi drynjandi, afbyggða, afstrakt og tilraunakennda raftónlist þeirra smekkfyllti salinn. Það var slökkt en ég kveikti. Kveikti allt í einu á því tónlistin þeirra er „industrial“. Eða a.m.k. meira þannig en ég hef hingað til talið. Þessi „uppgötvun“ sló mig ískaldan. Auðvitað. Þeir eru frá úthverfum Manchester, bjuggu í Sheffield, heimaborg fyrstu alvöru gjörningana með kalda, „fráhrindandi“ tölvutónlist (sjá Cabaret Voltaire, Clock DVA, Vice Versa, fyrri tíma Human League) og um miðbik níunda áratugarins fer „industrial“-bylgjan af stað með Einstürzende Neubauten í broddi fylkingar sem ferðast svo m.a. yfir til Kanada (Skinny Puppy, Front Line Assembly) og Beneluxlandanna (Front 242). Og Bretland sjálft pikkaði upp áhrif frá þessu sköpunarríka tímabili í Sheffield langt fram eftir 9. áratugnum. Sean og Rob voru eðlilega með eyrað við jörðina, auk þess sem bandaríska teknóið hóf að flæða yfir Atlantsála um miðbik hans. Allt þetta læsti sig um dúettinn.

Ógurleg tónlist Autechre var farin af stað. Linnulaust tempó, taktar á tvist og bast og draugaleg stemning sem kallaði fram heimsendatilfinningu. Tónlist Autechre borar innilokunarkennd í þig og þau líkamlegu áhrif sem hún getur haft mögnuðust í myrkrinu. Hugsanir og orð sem koma til mín eru kuldi, króm, fjarrænt, hvasst, sverðaslíðrun. Ruglingslegt, brjálæðislegt. Skrítið, erfitt, sleppur undan. Já, óþægilegt á köflum. En, og hér er ráðgátan, líka þægilegt. Hlýtt, hjúpandi. Stundum var sett í dansgír og þá heyrðist í gleðiraustum innan úr myrkrinu. Bransafélagi minn, trymbill, sagðist hafa verið agndofa yfir snúnum taktpælingunum sem voru undir hljóðagrautnum sem steyptist miskunnarlaust yfir okkur.

Í fyrri skrifum mínum um Autechre hef ég talað mikið um það hvernig þeir færðu sig hægt og sígandi yfir í hreina hljóðlist, grúvið nánast fjarlægt og eftir standa beinaberir, stafrænir punktar. En það er mikilvægt að muna að þeir koma úr dillandi diskói, ekki úr myndlistarbundinni hljóðlist þó að tónlistin hljómi í dag eins og hið síðarnefnda. „Ég hugsaði „svona á tónlist framtíðarinnar eftir að hljóma. Þetta er vélmennatónlist!“,“ sagði Sean Booth við mig í viðtali sem ég tók við þá félaga fyrir tónleikana og vísaði í það er hann, kornungur, heyrði „I Feel Love“ með Donnu Summer í fyrsta skipti en arktitektinn að því lagi er diskókóngurinn Giorgio Moroder.

Autechre keyrðu sitt sett í á að giska 90 mínútur, gæti hafa verið styttra, maður missti doldið tímasansinn í þessum aðstæðum. Dúóið læddi sér síðan af sviði, eina „lífið“ var er Rob kastaði stuttri kveðju með því að veifa til okkar handan bássins þaðan sem þeir höfðu varpað sinni einstöku list á okkur.

Ég fór á Autechre í MH 1999 en man lítið. Þá þegar voru þeir goðsagnir. Sú staða er óbreytt. Ég var svo heppinn að fá viðtal við þá fyrir þessa tónleika hér (sjá arnareggert.is), spjall sem var skemmtilegt, fyndið, auðgandi og … „létt“. Stælar og stífni, þetta var ekki, bara þrír menn á sextugsaldri að spá og spekúlera í músík. Viðtalið fór fram í gegnum Signal-forritið þannig að við fengum að kynnast andlitsfettum og -brettum hvers annars í þessar 20 mínútur. Þetta hjálpaði upp á hitting vorn í lok Hörputónleikana, í einu af baksviðsherbergjunum. Menn föðmuðust og göntuðust (og Englendingar eru alltaf smágerðari en maður heldur). Það var eitthvað við það að labba með Rob Brown í gegnum neðanjarðarelítu Íslands í djúpum samræðum um hljóðvist staðarins. Er ég að monta mig? Já, ég viðurkenni það. Ég er ekki fullkomnari en svo. Báðir ræddu þeir í löngu máli um hljóminn, báru hann saman við aðra staði, og voru í hæstu hæðum. Við svona tal kikkar jafnan inn Mörlandastolt. Við getum líka verið alþjóðleg stundum.

Rob og Sean eru feimnir menn. Kurteisir samt. Rob ögn meira til baka, Sean ögn meira fram. En það er bitamunur, ekki fjár. Dulúðin er þarna og þeir viðhalda henni, ómeðvitað og pottþétt smá meðvitað líka. Ég stóðst ekki mátið að nota þetta déskotans Signal-forrit sem mér var gert að hlaða niður fyrir viðtalið einu sinni enn hið minnsta og skaut þessu á grúbtsjatt okkar félagana um miðnæturbil: „Walk slowly through the doors of joy! So good to see all of you in the flesh!🙏 Keep on producing the art of timelessness!!💪🤖“ Skilaboðunum var vel tekið.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: