Kraftur Ham og Apparat voru „sjálfsagðir bólfélagar“ eins og Hörður Bragason Apparatslimur myndi orða það. — Ljósmynd/Red Illuminations.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 29. mars.

Við erum öll Hamparat

Fyrstu tónleikar Hamparats, hvar rokksveitin Ham og Orgelkvartettinn Apparat sneru bökum saman, fóru fram í Hörpu um liðna helgi.

Sveitirnar sneru reyndar alls ekki bökum saman heldur horfðu allir meðlimir, alls átta, beint fram. Uppsetningin var glæst. Og rétt. Aftast sat á hrynstóli Arnar Geir Ómarsson, meðlimur beggja sveita. Apparatsfélagar hans komu því næst framan við, þrír talsins. Fremst var svo restin af Ham, fereyki. Fallegur píramídi. Eldborg Hörpu var fullkominn hýsill fyrir það sem fram fór og ég var á besta stað fannst mér, næstum aftast í salnum, líkt og ég væri í afturendanum á risastóru geimskipi. Ég sat nákvæmlega fyrir miðju og þegar herlegheitin runnu af stað var fílingurinn sá. Að risastórt ferlíki væri farið af stað og ekkert sem yrði í vegi þess ætti nokkurn einasta séns.

Ef Harpa hefði hrunið þetta kvöld hefði gervöll X-kynslóð landsins þurrkast út. Það voru allir þarna. Allt djammliðið frá tíunda áratugnum, allt hljómsveitagengið, allt þetta fólk sem hefur verið manni samferða í gegnum breiðstræti íslenskrar neðanjarðartónlistar. Leikar hófust með „Síríus Alfa“, súrkálsbundinni stemmu af Pólýfóníu, annarri plötu Apparatsins frá 2010. Því næst var hlaðið í „Ingimar“, lag Ham af Svikum, harmi og dauða (2011). „Carko Frakt“ fylgdi og á eftir hið stórfenglega „Sanity“. Sveitirnar léku saman, gítarsláttur fylgdi orgelgöldrum Apparatsins sem studdi síðan smekklega við rokkveislu Ham. Þessi samsláttur gekk fullkomlega upp. Léttari Ham og þyngri Apparat. Dansandi Óttarr Proppé, mjaðmahnykkir og sprell undir snilldargrúvi Apparatsins. Á hinn bóginn æpandi sveittir Apparatsliðar en tveir þeirra sátu við fótskör meistaranna í Ham í árdaga.

Maður gat eiginlega snert stemninguna uppi á sviði. Hún var góð. Menn eru komnir á aldur. Við erum öll komin á aldur. Við, sem erum öll Hamparat. Á sviði voru mýkri, þroskaðri, rólegri menn. Aldur aðskilur enga lengur, þarna voru vinir að störfum, áratuga bransafélagar og framkvæmdin því öll svo lauflétt eitthvað, þó að tónlistin sem á okkur dundi hafi verið langt frá því. Steinunn Eldflaug (dj. flugvél og geimskip) kom á svið í nokkrum lögum en hún er dóttir Harðar Apparatsmanns og söng undurfallega. Reglulega mynduðu Apparatsmenn svo táknið góða og stemningin í salnum jókst jafnt og þétt með vel þegnu háreysti annað veifið. Hið ofurfallega „The Anguish of Space-Time“ var fyrsta lag eftir hlé og það var ekkert minna en unaðslegt að sjá Ham-aðdáandann Úlf Eldjárn öskra úr sér lungu og lifur í „Dauðri hóru“. Ég vissi ekki hvert ég ætlaði þegar „Musculus“ hófst. Jú, ég komst að því að þetta væri fullkomnasta lag sem nokkru sinni hefði verið samið og jú, hvert ég ætlaði? Ég fór úr líkamanum, féll í öngvit yfir snilldinni sem á borð var borin.

Tveir slagarar lokuðu dýrðarstundinni. „Stereo Rock & Roll“ með Apparat og svo eilífðarútgöngumarsinn „Partýbær“. Músíkvatur minn gólaði þar af mikilli list og sælustraumur fór um mig. Jónas kollegi Sen skrifaði tímamótadóm um þessi tímamót sem þessi penni hefur ekki roð við (við hefðum eiginlega átt að skrifa dóm saman til að endurspegla kvöldið). Stórkostlegt kvöld var að baki og nærandi sem það var. Ég gat ekki keyrt beint heim eftir þá, hringsólaði um Reykjavíkina með Hamparats-lagaspotta á fullu blasti. Áttmenningarnir og þeirra fólk á skilið Fresca. Jafnvel límonaði, rútu eða hvað þetta heitir nú allt saman.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: