Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 4. desember.

Hljóðveggurinn mikli

Auðvitað er það upplifun og það dálítið svakaleg þegar maður sér tónlistargoð æsku sinnar á sviði í fyrsta skipti. Þannig var það hjá mér fyrir sléttri viku er ég sá nýbylgjurokksveitina My Bloody Valentine á tónleikum í Glasgow (Hydro-höllin sem getur hýst tæplega 15.000 manns). Ég hef verið með sveitina á stalli í 37 ár (ja hér, tíminn maður …) og tónleikarnir sendu mig út og suður. Í uppáhaldslögunum varð ég fimmtán ára á nóinu og tárin streymdu niður kinnarnar. Tónlistin sem slík, hávaðinn og „endurgjöfin“ öll (fídbakk) hrærði þá í líkamanum sem slíkum. Andi og efni á nostalgískum harðahlaupum og þeim ekki leiðinlegum.

Olli straumhvörfum
Þessi írsk-enska sveit er óhikað með áhrifamestu neðanjarðarsveitum allra tíma. Fyrsta stóra plata My Bloody Valentine er Isn’t Anything (1988) og olli platan miklum straumhvörfum í neðanjarðarrokki. Platan ber með sér trukkandi, ýlfrandi nýrokk; skringilegheit og öskrandi hávaða; sturlaða bjögun, ljúflingsraddir og krúttisma saman með hrollvekjandi textum og það stundum í einu og sama laginu! Á köflum er eins og platan hangi vart saman og sé við það að fara út af teinunum, söngurinn „lélegur“ og allt einhvern veginn í skrúfunni en á sama tíma eru töfrar þessa verks svo gjörsamlega yfirþyrmandi að mann setur einfaldlega hljóðan. Þessi plata hafði gríðarleg áhrif á fimmtán ára dreng, hún breytti lífi mínu í raun réttri þar sem allur pakkinn var undir. Tónlistin, útlitið, ímyndin, pælingarnar. Margir halda því þó fram að sveitin hafi toppað sig þremur árum síðar með plötunni Loveless. Þar snúast hlutirnir meira um áferð, hljóm og gítarfetla alls kyns og fer þar magnað þrekvirki sem skilur hlustandann eftir jafn orðlausan og frumburðurinn.

Lögin skipta mestu
Fyrir utan himinhrópandi svalheitin, áruna, hávaðann, fagurfræðina, englaraddirnar, dulúðina og tímamótaverkin þá eru það „lögin“ sem fara dýpst. Þetta fann ég á tónleikunum. Jú, hljóðver og hljómaarkitektúr ef við getum kallað það svo er vissulega stór hluti af eigindum sveitarinnar en melódíurnar, hljómagangurinn og uppbyggingin í smíðunum sem innihalda þetta allt hleypir upp gæsahúð. Ég fór ekki að gráta í öflugustu lögunum, tárin spýttust hreinlega út. Þetta var ótrúlegt.

Á sviði var fereykið frábæra, Kevin Shields (gítar, söngur), Bilinda Butcher (gítar, söngur), Debbie Googe (bassi) og Colm Ó Cíosóig (trommur). Fimmti meðlimurinn, Jen Macro, stóð til hliðar og lék á hljómborð og gítar þegar við átti. Settið var áhugavert. Sex lög af Loveless, ókei, en ekki nema þrjú af plötunni „minni“, Isn’t Anything. En heil fjögur af fimm laga stuttskífunni You Made Me Realise! Sem er reyndar svo rosaleg að allt er fyrirgefið. Sveitin gaf út þriðju hljóðversplötuna, m b v, árið 2013 og fyrir mína parta hefði alveg mátt sleppa því að spila lög af henni.

Mesti hávaðinn?
Samsetning áhorfendaskarans var líka áhugaverð. Konur og karlar og mikið af ungu fólki sem hefði getað verið börnin mín. Ungviðið dansaði villt og galið fremst við sviðið og undir rest voru gamlir hundar komnir þangað líka. Lokalagið var „You Made Me Realise“ sem var brotið upp með mikilli hávaðaorgíu. Fyrir rokkskaddaðan mann sem hefur farið á reiðarinnar býsn af tónleikum hvar hljóðið er skrúfað rækilega upp var hávaðinn hvorki mikill né lítill. Flökkusaga um að þetta sé mesti hávaði rokksögunnar gengur ljósum logum um samþykkta My Bloody Valentine-orðræðu og það er lítill vilji, finnur maður, til að bakka eitthvað út úr henni. En þetta er önnur umræða og ég þarf líklega að breyta um heimilisfang eftir þessa yfirlýsingu.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: