brynjar gunnarsson (1)Ljósmynd/Brynjar Gunnarsson

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 2. ágúst, 2014

…mín von og trú

• Sóley kynnti nýtt efni í Mengi á fimmtudaginn
• Tíutomman Krómantík komin út og ný breiðskífa á næsta ári

Ég hef verið aðdáandi Sóleyjar allt síðan að ég heyrði hennar fyrsta útgefna verk, sex laga plötuna Theater Island, sem út kom 2010. Þrátt fyrir hægstreymt innihaldið hitti platan mig eins og elding, frá fyrsta tóni gafst ég ósegjanlega glaður upp fyrir óræðri fegurðinni sem þar er að finna. Svo ég vitni í dóm minn um plötuna, sem birtur var í Morgunblaðinu: „Þetta er ein af þeim plötum (og þær eru ekki margar) sem grípa mann með fyrsta tóni og draga mann inn í óræðan heim drauma og dásemda. Manni fer einfaldlega að líða vel um leið og fyrsta lagið, „Dutla“, fer af stað. En um leið spennist maður upp (þægilega) og fær nettan fiðring í magann […] Stemningin er því mikill hluti af verkinu; hún er dimm en um leið sakleysisleg, töfrum bundin og ævintýraleg; einmanaleg en upplífgandi í senn.“
Ég er í sumarfríi á Íslandi nú um stundir og þegar ég sá auglýsingu um tónleika með Sóley í Mengi sá ég færi á því að slá þrjár flugur í einu höggi, ef ekki fleiri. Sjá Sóley á tónleikum, upplifa þennan stað Mengi sem ég var búinn að heyra margt gott um og afgreiða um leið þennan vikulega pistil minn. Mér hefur fundist mikið til koma um dagskrá Mengis, sem ég hef orðið var við í gegnum helstu samfélagsmiðla. Tilraunakennd tónlist og ekki svo tilraunakennd, framsæknir listamenn sem starfa oft á e-m óskilgreindum mörkum og dagskránni mjög svo greinilega ekki slengt saman á síðustu stundu. Maður finnur að það eru pælingar, næmi og skilningur á bak við hana. Rýmið sjálft er þá sem skapað fyrir svona starfsemi og það sem vann t.d. frábærlega með fimmtudagskvöldinu er að þetta er salur undir listsköpun, punktur. Fólk sat því einbeitt við hlustir og aðstæður til að nema list Sóleyjar – og annarra – með allra besta móti.

Á bólakafi

Sóley hóf tónleikana á píanóspili, stuttum verkum af áðurnefndri tíutommu, Krómantík, sem er nýútkomin fyrir tilstuðlan berlínsku útgáfunnar Morr Music. Innihaldið ósungnar píanóstemmur (að mestu) sem urðu til á löngu tímabili. Um miðbikið sneri hún sér svo að nýjum lögum sem prýða munu næstu hljóðversplötu sem út kemur á næsta ári. Lögin eru enn að formast, gítarleikari og trymbill lögðu henni lið og allt saman lofaði þetta góðu, höfundurinn á bólakafi í smíðunum og innlifunin heillaði. Það mátti heyra saumnál detta meðan á þessu stóð. Undir rest fengum við svo gamalkunnar stemmur, „I‘ll Drown“ og „Pretty Face“ t.a.m. Best var þó uppklappslagið, hið magnþrungna og nánast uggvekjandi „Kill the Clown“. Flutningurinn var lágstemmdur, meira eins og hugleiðing um upprunalegu smíðina. Áhrifaríkt mjög. Ég bíð afar spenntur eftir næstu hljóðversplötu Sóleyjar. Þetta er það sem hún á að gera og verður að gera.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: