Kántríjól Trisha Yearwood í jólaskrúða en hún er með vinsælustu kántrísöngkonum heims.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 18. desember.

„Plötur hljóma, söngvar óma“

Í þessum pistli verður farið í saumana á spánýjum erlendum jólaplötum. Við tökum svo innlendar fyrir núna á laugardaginn. „Stærsta“ platan, sú sem er að fá mesta athygli í fréttum og í jólatónlistarkreðsum er ný plata Trishu Yearwood, kántrídrottningarinnar. Christmastime er í raun fjórða hátíðarplatan hennar, árið 1994 kom platan The Sweetest Gift út og árið 2016 dúettaplatan Christmas Together (sem hún og eiginmaður hennar Garth Brooks gáfu út, eitthvað sem bergmálar æfingar George Jones og Tammy Wynette í þeim efnum). Sama ár kom svo út plata, Christmas, með lögum af The Sweetest Gift og nokkrum aukreitis.

Christmastime rúllar glæsilega í fullorðinslegum meginstraumsgír og yfir hangir þægilegur gamaldagsbragur. Yearwood getur sungið og öllu þessu er landað með glans. Önnur plata úr sama ranni er ný plata Brad Paisley, á ég að kalla hann Íslandsvin, en hann lék í Hörpu um árið við fádæma góðar undirtektir. Ég er mikill Paisley-maður og platan Snowglobe Town er önnur jólaplatan hans en fyrir nítján árum kom platan Brad Paisley Christmas út. Nýja platan er stórgóð, Paisley er svalur og hefur alltaf verið aðeins utan við kántrímeginstrauminn. Minn maður.

Pönkuð jólatónlist
Förum yfir til Englands en þar finnum við fyrir Sunderlandsveitina The Futureheads, jaðarrokkarar alla leið. Þeir eru með plötu, Christmas, og hún hljómar svona eins og flestar jólaplötur sem sveitir af þessum toga hræra í. Hæfilega kæruleysislegar, „við erum yfir þetta hafnir“-ára og stundum er látið skína í kaldhæðni, svona til að hafa flóttaleið ef plöturnar floppa gjörsamlega. Platan er fín, þess til að gera, en plötur úr þessari átt eiga það til að falla flatar, mér verður hugsað til plötu Tracey Thorn, Tinsel and Lights (2012), sem gekk bara ekki upp. Glæsiverk af þessari gerð eru t.d. plötur Low, Mark Kozelek og Sufjan Stevens. Futureheads er þarna einhvers staðar á milli.

The Greatest Gift Of All er plata eftir kristilegu þungarokkarana í Stryper og í raun furðulegt að þeir hafi ekki löngu verið búnir að smella í slíka. Taylor Momsen’s Pretty Reckless Christmas er þá stuttskífa hvar rokki, róli og svita er hent undir jólatréð. Um frumsamin lög er að ræða að mestu, pönkuð jól og mikið sem það er hressandi.

Dansvæn jólalög
Amerísku „a cappella“-sveitirnar – þ.e. sungið án undirleiks – Pentatonix og Straight No Chaser eru þá afar iðnar við jólatónlistarkolann. Áttunda plata Pentatonix að þessu leytinu til kom út í ár og Straight No Chaser læddi einni slíkri út sömuleiðis. Af Ameríku er og það að frétta að Lady A gaf út aðra jólabreiðskífu sína í ár. Já, Kaninn var duglegur í ár.

Og því er ekki úr vegi að setja Cuban Christmas í öndvegi hér í blálokin. Sarah Willis og sveit hennar Sarahbanda standa að plötunni sem er gefin út af Deutsche Grammophon en Willis er margfræg, leikur á franskt horn og var fyrsta konan til að gerast meðlimur í blásarasveit Berlínarfílharmóníunnar. Á plötunni eru sígild jólalög, með kúbversku sniði, en einnig verk eftir Bach og Tsjajkovskíj, einnig með kúbversku sniði! Heyrn er sögu ríkari …

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: