Autechre Rob Brown og Sean Booth hafa skipað dúettinn frá upphafi vega.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 2. ágúst.

Á mörkunum

Fáir hafa þokað raftónlist í jafn áhugaverðar áttir og breski dúettinn Autechre. Hann mun leika á tónleikum hér á landi – í kolniðamyrkri – föstudaginn 15. ágúst í Silfurbergi, Hörpu.

„Sérvitringarnir í Autechre hafa leyft viðtal. Viltu taka það?“ Svona voru skilaboðin frá tónleikahaldaranum til mín á Messenger. Væri ég til í að spjalla við þá menn sem eru hvað ábyrgastir fyrir því að hafa fært raf/„dans“-tónlist inn á áður ókunnar lendur, þar sem dansgólfið er farið að minna meira á tilraunastofu, tónlistin tekin að stökkbreytast í hljóðlist og jafnvel „ekki“-tónlist? Uuu … já!

Gott og vel. Ég var því næst settur í samband við umboðsmanninn þeirra. Hann spurði mig hvort ég gæti gert viðtalið í gegnum Facetime. Ég sagðist PC-maður og stakk upp á Zoom, Google Chat, Teams eða Whatsapp í staðinn. „Notarðu Signal?“ var svarið frá umboðsmanninum. Ég, maður á sextugsaldri, fór þá í að hlaða því apparati niður en tókst ekki að koma því inn í tölvuna. Síminn minn stóð því uppi við vatnsglas á eldhúsborðinu, með tvo helstu frumkvöðla framsækinnar raftónlistar á skjánum – líkt og frímerki að stærð – á meðan ég hripaði sveittur niður helstu gullkornin, með upptökumöguleikann í tölvunni í gangi og símann á „speaker“. Tæknilegt?

Autechre var stofnsettur fyrir 38 árum í Rochdale, bæ sem tilheyrir Stór-Manchester-svæðinu. Fyrsta breiðskífa dúettsins kom út 1993 á Warp Records-merkinu (Incunabula) og hefur hann verið á mála hjá Warp allar götur síðan. Fljótlega fóru æ tilraunakenndari plötur hans að vekja athygli. Tónlistin, í upphafi undir áhrifum frá bandarísku teknói og bresku hipphoppi, tók að sveigjast í óhlutbundnari áttir (afstrakt) og varð „kaldari“, skrítnari og já, framtíðarlegri.

Þeir félagar, Rob Brown og Sean Booth, voru nú í fylkingarbrjósti þeirra sem voru að hugsa tónlist sem slíka upp á nýtt. Goðsagnarstimpillinn kom fljótlega og hefur verið kirfilega til staðar síðan.

Dularfullir?
Aðdragandi viðtalsins segir ýmislegt um áruna sem er í kringum Autechre. Dularfullir. Erfiðir. Fullkomnunarsinnar. Menn fárra orða. En þessi ímynd var rifin harkalega niður, á ég að segja því miður, í viðtalinu. Þetta eru nefnilega ekki alveg þeir grafalvarlegu tækninirðir sem við viljum að þeir séu. Spjallið var þvert á móti létt og skemmtilegt og allir þrír þátttakendur nutu þess svo greinilega að nördast smá um Giorgio Moroder, Sheffield og „hvítmiða“-skífur. Vitiði, við (ég og þeir og allir jafnaldrar okkar í tónlistinni) erum einfaldlega orðin það gömul að kúlistarembingurinn er horfinn. Bara slaki, smá fíflalæti en fyrst og síðast gleði og ástríða fyrir forminu æðsta. Já, það var mikið hlegið. Í Autechre-viðtali. Kanntu annan?

Við byrjum á því að rifja upp heimsókn þeirra til Íslands 1999 en þá spiluðu þeir í MH. Sean er örari en Rob, sér að mestu um að tala og er prófessoralegur getum við sagt. Vinalegur. Rob er allan tímann með milt bros og kemur inn þegar honum sýnist svo. Vinalegur. Og talaði alveg jafn mikið og Sean sá ég í enda upptökunnar. Hæglæti hans gabbaði mig. Mér fannst dálítið merkilegt að þeir gerðu þetta saman, eitthvað svo lýsandi fyrir það hvernig þeir nálgast sköpunina mætti segja. Vinna sem einn maður. Þeir minnast MH og hrista hausinn yfir því hvað tíminn flýgur hratt. Eins og við öll, jafnaldrarnir. Ég dembi mér síðan beint í djúpu laugina.

Hvernig var það að vera á mála hjá Warp þarna í upphafi 10. áratugarins? Var þetta félagsmiðstöð? Eða ópersónulegra batterí?

„Við þekktum ekki neinn þarna þegar við byrjuðum að vinna með útgáfunni,“ svarar Sean. „Við kynntumst þó Mark Bell (LFO, fyrrverandi samstarfsmaður Bjarkar) og fleiri aðilum fljótlega.“ Rob bætir við: „Við vorum dálítið einangraðir þar sem Rochdale er svona varla hluti af Mancester. En það sem við gerðum, við héldum áfram að senda kassettur til Warp þar til það fór loksins eitthvert samtal í gang.“

Sean segir að þeir hafi búið í Sheffield um hríð sem er aldeilis vagga raftónlistar. Þar var Warp einnig stofnað árið 1989. Blaðamaður nefnir til sveitir eins og Human League, Vice Versa, Cabaret Voltaire o.fl., þegar rætt er um tónlistarsögu bæjarins og þeir kinka kolli. „Þar mynduðum við ýmis tengsl náttúrulega þó að við höfum eðlilega ekki náð þessari fyrstu bylgju sem þú nefnir. Við fluttum þangað 1994 og bjuggum þar í fimm ár. Konan mín var þá að sjá um fjölmiðlamálin fyrir Warp (Mira Calix, sem átti síðar eftir að gera frábæra tónlist fyrir Warp).“ Blaðamaður segir glettinn að Sheffield hljóti að vera kjörlendi fyrir kalda, tölvumiðaða tónlist. Þeir félagar svara glettnir til baka og tala hvor ofan í annan: „Það er heitt og gott þarna! Mun betra en Manchester! Allt hreint og fínt!“

Rob segir að aðstaða til sköpunar hafi verið mjög góð í Sheffield. Þeir hafi haft aðgang að hljóðverinu Red Tape Studios sem hafi verið á bak við höfuðstöðvar Warp og nýttu sér það til að kokka upp tónlist. „Phil Oakey keyrði næstum því yfir mig þegar ég var einu sinni á leiðinni þangað,“ segir hann óvenju æstur en Oakey er söngvari Human League. Mannskapurinn hlær.

Sean er kominn í stuð. Hann rifjar upp tónlistina í Bretlandi í upphafi 9. áratugarins, þessa grófu hljóðgervlatónlist og reggíið/döbbið sem átti eftir að finna sér stað í tónlist Autechre eftir að búið var að eima áhrifin niður. Rob hendir inn pælingum líka og þeir félagar eru komnir í mikinn samanburð á Sheffield og Manchester og niðurstaðan er sú að Manchester hafi verið of poppuð. Ókei, þeir félagar eru grjótharðir líka!

Sprungið
Það er merkilegt hvernig tónlistin ykkar þróaðist á sínum tíma. Varð alltaf meira og meira afstrakt. Getið þið sagt mér aðeins frá þessu? Hún varð eiginlega eins og hljóðlist, nánast tónlist fyrir myndlistarinnsetningar ef ég á að vera dálítið … hvað er orðið aftur … (var að leita í ofvæni að enska orðinu fyrir tilgerðarlegur).

Sean brosir og spyr: „Tilgerðarlegur? („Pretentious?“)“. „Já!“ segi ég og allir springa úr hlátri. „Við vorum reyndar alltaf að stefna á þennan hljóðheim,“ segir Rob þegar hláturrokunum lýkur. „En tækjakosturinn var takmarkaður í upphafi. Við náðum hins vegar fljótlega tökunum á einhverju sem hljómar ennþá eins og eitthvað úr framtíðinni.“

Ég man að Giorgio Moroder („diskófaðirinn“) sagði einhverju sinni að sig langaði að hafa á tilfinningunni að vélarnar sjálfar væru að semja tónlistina …

„Já, þetta er komment sem ég er mjög hrifinn af,“ svarar Sean. „Moroder hafði mikil áhrif á okkur. Ég man þegar ég heyrði „I Feel Love“ í fyrsta skipti. Ég var ungur en ég hugsaði „svona á tónlist framtíðarinnar eftir að hljóma. Þetta er vélmennatónlist!“ Maður gleymir þessu ekki. Þetta hafði mótandi áhrif á mig … og okkur.“

Ég sleppi þeim félögum lausum, tuttugu og fimm mínútur eru liðnar og ekki nándar nærri allt fór inn sökum plássleysis. Við kveðjumst með virktum og slökkvum á Signal-spjallinu, þessu framtíðarforriti sem var eðlilega hárréttur vettvangur fyrir þetta viðtal. Maður talar ekki við Autechre á Teams!

Tónleikarnir fara fram föstudagskvöldið 15. ágúst í Silfurbergi, Hörpu. Það eru sideproject og Hekla sem hita upp.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: