airwaves 2013Frá Airwaves, 2012. (c) Airwaves

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 26. október, 2013]

Stóreflis öldur á Airwaves

• Iceland Airwaves hefst á miðvikudaginn
• Dagskráin sérstaklega safarík í ár hvað erlenda listamenn varðar

Airwaves-hátíðin hefur um nokkuð langt bil verið giska þekkt menningarvörumerki í alþjóðlegum poppheimi og er hún reyndar rísandi hvað það varðar. Á tímabili var keyrt farsællega á svotil óþekktum erlendum listamönnum og hljómsveitum, margar þeirra við þröskuldinn (Florence and the Machine lék t.d. á hátíðinni nokkru áður en hún sló í gegn) en í ár er ljóst að nöfnum, sem kalla má þungavigtarnöfn, hefur fjölgað. Mín kenning er sú að þetta sé vegna hins trausta orðspors sem hátíðin býr yfir í dag, auðveldara er að bóka „stærri“ nöfn en áður og mörg hver sjá sér efalaust hag í því að leika á þessari merku og nokk einstöku hátíð sem er landi, þjóð og aðstandendum til mikils sóma. Ég varð eiginlega hvumsa þegar ég sá alla „risana“ og ætla rétt að tæpa á þeim helstu í þessum pistli.

Kraftwerk, Midlake, Yo La Tengo

Fyrst ber að sjálfsögðu að nefna Kraftwerk, en þessi áhrifaríka þýska sveit slítur hátíðinni. Segja mætti, og það með nokkuð gildum rökum, að engin sveit – utan Bítlanna – hafi haft jafnmikið að segja um þróun nútímadægurtónlistar. Öll tölvutónlist er á einn eða annan hátt runnin undan rifjum þessara mögnuðu brautryðjenda. Svei mér þá, ég fékk gæsahúð við að skrifa þetta.
Fagna ber þá innilega komu Texassveitarinnar Midlake sem hefur og sterk tengsl við Íslandsvininn mikla John Grant. Plata þeirra frá 2006, The Trials of Van Occupanther, þykir mikið þrekvirki og er enn umtöluð í dag og ekki var platan sem kom þar á eftir, The Courage of Others, síðri. Skemmst er frá því að segja að menn hafa beðið með öndina í hálsinum eftir nýju efni frá sveitinni en ný breiðskífa kemur einmitt í búðir degi eftir að Airwaves lýkur.
New Jersey-sveitin Yo La Tengo varð þá fyrir margt löngu að nokkurs konar táknmynd hins algera neðanjarðarbands; sveit sem hefur frá degi eitt gert allt á sínum forsendum og uppskorið mikla virðingu og vinsældir fyrir. Tónleikar hennar verða sem helgihald fyrir alla þá sem einhvern tíma hafa átt röndóttan bol, Converse-strigaskó og verið með hárið oggulítið ofan í augu.

Jon Hopkins, Savages, Robert Forster

Einn af fjölmörgum lærisveinum Kraftwerk, Bretinn Jon Hopkins, mun þá koma fram. Hopkins er umtalaðasti raftónlistarmaður heims í dag og tvær síðustu plötur hans, Insides og hin magnaða Immunity (ein af plötum þessa árs), hafa verið tilnefndar til Mercury-verðlaunanna virtu í Bretlandi. Hopkins er þúsundþjalasmiður og með mörg járn í eldinum; hefur t.a.m. unnið með Coldplay og Brian Eno, verið ötull við samningu kvikmyndatónlistar og jafnframt lagt neðanjarðartónlistarmönnum eins og Fence-merkinu skoska lið.
Ný-síðpönkveitin Savages frá London er ný af nálinni og hefur gert mikinn skurk á síðum tónlistarblaðanna það sem af er ári. Sveitin þykir fantagóð tónleikasveit, þær stöllur vinna gagngert með síðpönk, hvort heldur það eru eldri hetjur eins og Joy Division, Siouxsie and the Banshees eða nýrri eins og Interpol. Framfærslan er á sama tíma nýstárleg og orkurík og þetta er band sem þarf eiginlega að upplifa á tónleikum.
Mig rak þá í rogastans þegar ég sá nafn Roberts Forsters, fyrrverandi Go-Betweens-liða, á listanum en sú eðla sveit er með merkustu rokksveitum allra tíma og gjörsamlega og algerlega glæpsamlega fyrir utan radar flestra. Hver veit, kannski vera Forsters á Airwaves nái að vekja athygli einhverra á listaverkunum! Eftir að annar hluti öxulveldisins í Go-Betweens, Grant McLennan, lést skyndilega úr hjartaslagi árið 2006 hefur Forster lagt stund á tónlistarskrif meðfram tónlistarsköpuninni og er verðlaunaður sem slíkur og gaf út greinasafn með skrifum sínum árið 2009.
Góða skemmtun og munið líka að „týna“ ykkur á hátíðinni. Snilld morgundagsins lúrir oft inni á einhverjum „off-venue“-staðnum handan við hornið.

 

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: