wwwwwwwwwwwwwwwwwwwwwwwwwwwwww

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 28. mars, 2015

Sirkus í bænum

• Alabama 3 hélt orkuríka tónleika í Edinborg
• Allra handa samsuða hjá höfundum inngangsstefsins að Sopranos

Kosturinn við að búa í stórborg fyrir tónlistaráhugamann er að hér er endalaust rennsli af spennandi hljómsveitum. Í raun er það ókostur um leið, valið er einfaldlega það mikið að maður freistast til að loka augunum fyrir því, einfaldlega til að halda geðheilsunni. Ábendingar frá vinum virka því vel að þessu leytinu til og ég lét slag standa þegar einn slíkur dró mig með sér á tónleika með Brixton-sveitinni Alabama 3.

Hreysi

Ég hef lengi vel vitað af þessari sveit en aldrei kafað í hana. Hún er í dag langþekktust fyrir að eiga inngangsstefið að Sopranos-þáttunum en „Woke Up This Morning“ af fyrstu plötu sveitarinnar, Exile On Coldharbour Lane, prýðir upphaf þáttanna. Sveitin lúrði sem sagt, eins og svo margt, óafgreidd á hlustunar-tossalista í hausnum og þessir tónleikar því gott tækifæri til að taka hana eilítið út.
„Einhver keypti sér sundlaug fyrir tilstuðlan „Woke Up This Morning“ en því miður var það enginn af okkur,“ segir m.a. á heimasíðu sveitarinnar. Þetta lýsir anda hennar vel, þetta eru grallarar og það er sterk kommúnu- eður hreysisára („squat“) í kringum hana. Sveitin enda stofnuð í Brixton, London og hún gæti ekki verið frá neinni annarri borg. Meðlimir eru fallega lifaðir, reggílokkar prýða suma þeirra og það er eins og annar hver meðlimur hafi annaðhvort spilað í skorpupönkssveit („crust“) á sínum yngri árum, eða þá í sýruhúsrokkbandi að hætti Happy Mondays. Svona hefði Crass orðið, hefði hún umfaðmað dansvænt og grúvbundið skrítipopp.

Þvalir veggir

Sú stemning fyllti síðan tónleikastaðinn, Studio 24, sem var fullkominn fyrir svona tónleika. Hráslagalegur og töff. Alabama 3 er einkar vinsæl tónleikasveit og staðurinn var smekkfullur, á að giska 500-600 manns voru þarna og allflestir eldheitir aðdáendur. Eftir að sekkjapípuleikari hafði leikið inngangsstef ruddist mannskapurinn inn á svið, litríkur og fjölskrúðugur mjög. Það var eins og sirkusinn hefði stungið þetta fólk af og það ákveðið að henda í tónleika til að hafa ofan af fyrir sér. Larry Love (allir bera gælunöfn) leiddi partíið af öryggi, minnti helst á Prófessorinn í Funkstrasse og honum til halds og trausts var Rev D Wayne Love en hann leit út eins og bankastarfsmaður sem hafði villst upp á svið fyrir hótfyndni almættisins. Annað var eftir þessu, níu manns voru á sviði og útlitsleg samræming engin. Söngkonan Aurora Dawn átti sálarríka söngspretti og byggði undir taktfast grúvið sem læsti sig um salinn hægt en örugglega. Alabama 3 er yndisleg þversögn á einhvern hátt, uppi á sviði var hálfgerður glundroði að því er virtist og stílaflökt var mikið – stundum innan eins og sama lagsins – en um leið sigldi sveitin meistaralega um á áðurnefndu grúvi allt til enda.
Fólk tíndist út í rólegheitunum og ég strauk puttanum eftir einum veggnum. Hann var þvalur og bjórsvitalyktin tilfinnanleg. Gott gigg að baki, eitt af tugum þetta kvöldið og enn meira í gangi daginn eftir. Hvert á ég að fara næst? Kannski ég spyrji bara vin minn…

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: