Kexland_Eventbanner_Burns

Mér rennur eðlilega blóðið til skyldunnar, búandi nú hjá góðfrændum okkar Skotum, að minna hressilega á Burns Night sem verður fagnað á hinu dásamlega KEX Hostel næstu helgi (þess má geta að Mastersritgerðin mín, sem fjallaði um skoska popptónlist, var skrifuð að hluta til á KEX síðasta sumar).

Þetta er í þriðja sinn sem kvöldinu er fagnað á KEX og meðal dýrða hafa verið tónlistaratriði frá „heimalandinu“ og hafa m.a. Withered Hand, Wounded Knee, Bill Wells og Alisdair Roberts komið fram. Í ár troða upp Barnaby Brown, sekkjapípuleikari og tónlistarfræðingur, sem ég sá reyndar leika í gær ásamt Benna Hemm Hemm, Alisdair Roberts og Bill Wells á frábærum tónleikum í Glasgow (sem hluti af Celtic Connections hátíðinni). Benni mun einnig spila á Burns kvöldi KEX þetta árið ásamt Snorra Helgasyni.

Þá koma tvær bubblandi, zizzlandi og sjóðandi heitar neðanjarðarsveitir fram. Conquering Animal Sound er á mála hjá hinu mikilsvirta Chemikal Underground (Arab Strap, Mogwai  o.fl.) og hefur verið að vekja talsverða athygli hér í Skotlandi undanfarin misseri (þau hef ég líka barið augum á sviði og get hiklaust mælt með þeim). Að endingu kemur dúettinn Sacred Paws fram, vel hrá rokksveit skipuð þeim stöllum Eilidh Rodgers og Rachel Aggs. The Raincoats og X-Ray Spex koma upp í hugann þegar hlustað er. Og það met ég út frá eina demóinu sem ég hef heyrt til þessa (sjá hlekk í tilkynningu hér að neðan). Snilld!

Læt að lokum tilkynningu frá KEX fylgja, auk myndar af Conquering Animal Sound. Lang may yer lum reek!

Skosk menningarhátíð á KEX

– Burns nótt haldin í þriðja sinn –

Kex Hostel mun halda sína árlegu skosku menningarhátíð í þriðja sinn helgina 23. til 25. janúar næstkomandi, í samstarfi við Vífilfell og Icelandair. Burns nótt er haldin ár hvert í Skotlandi þann 25. janúar, á afmælisdegi þjóðskáldsins Robert Burns, og er fagnað með skoskum mat, drykk og tónlist og að sjálfsögðu ljóðlist Robert Burns. Kex Hostel hefur  boðið skoska sekkjapípu­leikaranum Barnaby Brown til landsins og mun hann sjá til þess að Burns nótt fari fram í samræmi við hefðir og reglur. Einnig munu hljómsveitirnar Conquering Animal Sound og Sacred Paws koma fram á hátíðinni ásamt íslensku tónlistarmönnunum Benna Hemm Hemm og Snorra Helgasyni.

Veitingastaður Kex Hostels býður upp á sérstakan Burns matseðil í kringum hátíðina og samanstendur hann af góðum og sannreyndum skoskum mat og drykk. Að sjálfsögðu verður boðið upp á hið heimsfræga haggis með stöppuðum kartöflum, rófum, næpum og viskísósu. Aðrir réttir sem eru á matseðli eru lambakássa af Hálöndunum, blaðlaukssúpa og svo auðvitað ógrynni af viskíi, en það þykir ómissandi á Burns nótt.

Hlekkir:

www.facebook.com/kexhostel

www.kexhostel.is

www.kexland.is

Frekari upplýsingar veitir:

Böðvar Guðjónsson, Kexlandi, s: 822-0300, e: kexland@kexhostel.is

Um tónlistarmennina:

Barnaby Brown er sekkjapípuleikari og tónlistarfræðingur en hann hefur einnig víðtæka þekkingu á þjóðlagadönsum. Hann er mikill sérfræðingur á sviði skoskrar þjóðlagatónlistar og mun koma fram á Kex í hlutverki sekkjapípuleikara, danskennara, söngvara og ljóðaupplesara.

http://barnabybrown.info

Conquering Animal Sound er skipuð þeim James Scott og Anneke Kampman og leika þau jaðarpopp af bestu gerð. Síðasta breiðskífa þeirra kom út hjá skoska útgáfufélaginu Chemikal Underground, sem hafa gefið út rjómann að skoskri jaðartónlist síðustu ár, td Mogwai, Arab Strap ofl.

http://www.conqueringanimalsound.co.uk/

Sacred Paws er rokkdúett skipaður Eilidh Rodgers og Rachel Aggs. Þær vinna að sinni fyrstu breiðskífu um þessar mundir. Þær hafa vakið mikla athygli í Glasgow fyrir hráa og kraftmikla tónlist sína.

http://sacredpaws.bandcamp.com/

2013_01_23 - CAS Press Shots - Greig Jackson - Milk (1)Conquering Animal Sound

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: