Arthur Russell[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 29. mars, 2014]

Fjölsnærð fegurð

• Endurútgáfa á verkum Arthur Russell í fullum gangi
• Áhrif þessa margbrotna listamanns sjaldan meiri en nú

Arthur Russell var bandarískur tónlistarmaður sem gat með engu móti fest sig við eitthvað eitt er tónlistargyðjan seiddi hann til sín (sem hún gerði af miklum krafti allt hans líf). Russell var menntaður selló- og píanóleikari en samdi og lék diskótónlist, nútíma- og tilraunatónlist, popp- og rokk og þjóðlagatónlist. Hann átti það til að hræra þessu saman líka og er hann starfaði var hann ljósárum á undan sinni samtíð, staðreynd sem verður æ ljósari eftir því sem árin líða. Russell skapaði „tónlist“ og gerði engan greinarmun á flokkunum, skiptingu og pólitík sem oft þvælist fyrir hreinleika listarinnar. Sköpunarmáttur Russell var ótvíræður en að sama skapi var honum svo gott sem ókleift að klára nokkurn skapaðan hlut og koma honum út til fólksins. Hin síðustu ár hefur áhugi á tónlist Russell aukist til muna og fer útgáfufyrirtækið Audika Records fremst í flokki þegar kemur að því að miðla henni til fjöldans.

Bergmál

Í vikunni kom platan World Of Echo (upprunalega gefin út 1986) út á tvöföldum vínyl. Sú plata, sem var eina breiðskífan sem Russell tókst að koma út á meðan hann var á lífi (hann dó úr alnæmi árið 1992, fertugur að aldri), hefur verið endurútgefin mörgum sinnum og þó að þar gefi að líta aðeins eina hlið á ferli hans er um hreint magnaðan grip að ræða. Tónlistin samanstendur af rödd, sellói og tölvuhljóðum og -töktum og er dáleiðandi, ber með sér næmi og fegurð sem erfitt er að lýsa. Tímalaust verk, eins og má reyndar segja yfirhöfuð um list Russell.
Audika Records var stofnað sérstaklega til að koma tónlist Russell út en hann átti yfir 1000 spólur með tónlist á er hann lést. Fyrsta platan sem Audika gaf út var Calling Out Of Context (2004) og svo fylgdu fyrsta endurútgáfan á World Of Echo (2005) og First Thought Best Thought (2006, tilraunakennd nútímatónlist sem hann samdi á fyrri hluta ferilsins). Einnig má nefna Love Is Overtaking Me (2008) en hún inniheldur „hefðbundnustu“ smíðar Russell; kántrí- og þjóðlagaskotin popplög. Fingraför höfundarins eru mjög svo greinileg þrátt fyrir venjulegheit smíðanna. Russell er mikið lofaður fyrir framlag sitt til diskótónlistarinnar en þau lög komu flest út á 12 tommum, oft undir öðru nafni. Soul Jazz Records gaf út plötuna The World of Arthur Russell árið 2004 sem gefur sæmilega innsýn í þann þátt en einnig er platan 24->24 Music, sem kom út undir nafni Dinosaur L, til en hún var endurútgefin árið 2007 en kom út upprunalega árið 1982 á merki Russell sjálfs, Sleeping Bag Records. Margt er þó enn niðurgrafið og ærlegur safnkassi, í samstarfi þeirra aðila sem eiga réttinn á diskósmíðum Russell, væri afar vel þeginn.

Ást

Vínylendurútgáfur á Love Is Overtaking Me og Calling Out Of Context, fyrir tilstilli Audika, eru væntanlegar á næstu mánuðum og ljóst að markaðurinn er hvergi nærri mettur. Heimildarmynd um feril þessa merka manns, Wild Combination, var þá frumsýnd árið 2008. Myndin er næm og falleg (eiginlega eins og tónlist Russell) og færir áhorfandann nær einhvers konar skilningi á flóknu gangverki þessa einstaka listamanns.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: