[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 13. október]

Einstigið þrætt

• Mikil eftirvænting hefur verið eftir nýrri plötu Bat for Lashes, sem kom út rétt fyrir helgi
• Hefur náð að samþætta framsækni við það sem „fólkið vill“

Bat for Lashes fæddist árið 1979 sem Natasha Kahn, stúlka af pakistönsku og ensku bergi brotin, ólst upp í Wembley en gerir út frá Brighton. Mann langar óneitanlega til, og ef maður leyfir rómantíkernum í sér að spretta úr spori, að tengja þessar staðreyndir við það hvernig tónlistarferill hennar hefur verið, það er að segja allt annað en hefðbundinn. Í raun mætti segja að Kahn feti í fótspor Bjarkar og Kate Bush, hún höfðar á einhvern magnaðan hátt til fjöldans (upp að vissu marki) en fylgir um leið kirfilega þeim listrænu línum sem hún hefur markað sér. Þannig nefnir Kahn Steve Reich sem áhrifavald og semur tónlist fyrir listinnsetningar á meðan lög hennar malla í morgunþáttunum á BBC. Súrt … en samþykkt.

Töfrakona

Listsystur á hún nokkrar, tónlistarkonur sem náðu eyrum fólks upp úr miðjum síðasta áratug, nöfn eins og Joanna Newsom og Feist og Reginu Spektor og St. Vincent mætti hæglega setja undir sama flokk. Athygli vakti hún fyrst árið 2006, þegar hún gaf sjálf út lagið „The Wizard“ á sjötommu (merki hennar kallast She Bear). Þá um haustið kom fyrsta breiðskífa hennar, Fur & Gold, út og vakti mikla athygli. Platan var m.a. tilnefnd til Mercury-verðlaunanna árið 2007 og 2008 féllu tvenn Brit-verðlaun í hennar skaut.
Önnur breiðskífan, Two Suns (2009), reyndist afar metnaðarfullur gripur og dulúðin í kringum hana minnir helst á það sem proggbönd áttunda áratugarins lögðu upp með. Ef umslagið er ekki nóg til að gefa slíkt til kynna þá snýst platan um tvö „sjálf“ Kahn og er hliðarsjálfið manneskja að nafni Pearl sem er sjálfstortímandi og tákn fyrir þá tvíræðu þörf sem við höfum gagnvart jafnvægi og glundroða. Eitthvað þannig að minnsta kosti! En, eins og fram kemur í upphafi, þá var Kahn allan tímann með puttann á popppúlsinum eins og sýnir sig t.d. í laginu „Daniel“ sem glumdi nokkuð reglulega í viðtækjum Vesturlandabúa það árið. Þá gestaði Scott Walker í lokalaginu, en tónlist hans í dag er drekkhlaðin myrkum skírskotunum (nokkuð ólíkt dramatísku barokkpoppinu sem hann er hvað þekktastur fyrir) og því vel við hæfi að hann legði okkar konu lið.

Nakið

Á meðal samstarfsmanna á plötunni nýju eru Beck, Adrian Utley (Portishead) og Dave Sitek (TV on the Radio). Umslagið hefur þegar vakið nokkra athygli en þar sést Kahn nakin með nakinn karlmann á bakinu (hún heldur á honum eins og veiðimenn sem halda á stórri villibráð, slengir honum yfir axlirnar). Ljósmyndina tók Ryan McGinley. Kahn sagði í spjalli við NME að hún væri m.a. að heiðra konur eins og Patti Smith með ljósmyndinni og þegar maður pælir í því má sjá vísun í Horses, tímamótaverk Smith frá 1975 sem ber einfalda, sterka og nokk hráa svart/hvíta ljósmynd af Smith.
„Mig langaði til að hafa þetta nakið, einfalt, bert,“ sagði Kahn í samtali við smekkmótarann Pitchfork fyrir stuttu, en viðtalið er í formi vefinnslags. „Ég er t.a.m. komin yfir þrítugt og finnst ég vera orðin kona!“ segir hún sposk í spjallinu sem er tekið inni á kaffihúsi. Það er ekki beint ára dulúðar yfir henni, hún er bæði kankvís og afslöppuð og greinilega komin á annan, náttúrulegri stað, mætti segja. „Á fyrstu plötunum dælir maður öllu út einhvern veginn,“ segir hún. „Allt það sem hafði áhrif á mig í æsku er þarna í einni bendu. Nú er maður hins vegar kominn með sjálfstraust til að gera sitt eigið og útkoman er fókuseraðri og í raun einfaldari.“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: