depeche mode

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, miðvikudaginn 3. apríl, 2013]

Grá ský á sveimi

• Delta Machine er þrettánda hljóðversplata Depeche Mode
• Þungt verk en léttleiki í sveitinni á sama tíma!?

Allt síðan Martin Gore, tónlistarlegur leiðtogi Depeche Mode, lét þurrka sig upp fyrir sjö árum er eins og jákvæðari orka hafi streymt frá þessari merku sveit, sem stofnuð var fyrir 33 árum í Basildon, Bretlandi. Gore hefur enda lýst því yfir opinberlega hvernig líf hans hafi breyst til hins betra, hvernig fyrri iðjusemi hafi hægt og bítandi komið aftur og hann sé opnari, glaðari og æðrulausari nú en nokkru sinni fyrr.

Nýtt viðhorf

Ég hef ekki bara fundið fyrir þessu í sjálfri tónlistinni. Síðasta plata, Sounds of the Universe, bar með sér glúrnar skírskotanir í fortíðina, án þess þó að vera einhver endurvinnsla. Plata frá bandi sem þarf ekki að sanna neitt fyrir neinum lengur. Ég finn þó mun meira fyrir þessum styrkjandi straumum þegar ég lít til þess hvernig Mode-liðar bera sig, hvernig þeir virðast hafa meiri áhuga á því sem þeir eru að gera í dag, hvernig þeir virðast sáttari með sig og sína, hvernig tríóið virðist á allan hátt þéttara. Samband söngvarans, Davids Gahans (sem er einnig þurr), og Gore hafði alla tíð verið viðkvæmt og spennuhlaðið en það er eins og slíkt sé að rúnnast út, eins og heilbrigður máttur leiki um það í dag.
Kannski var Gore að einhverju leyti að ná áttum á síðustu plötu, fikra sig áfram með ný vinnubrögð og nýjan fókus. Og í fljótu bragði virðist Delta Machine jafnvel enn sterkara verk. Hún er til muna myrkari og hráslagalegri, mikið um einmanalega, stálkalda raftakta og rokkið fær hér að víkja fyrir hægstreymandi raftónlist. Þetta er heildstæð plata með karakter eins og sagt er, lögin hlykkjast áfram á rökréttan hátt, stök lög skipta minna máli, heildin er fyrir öllu. Eiginlega nokkuð tilkomumikið verður að segjast, það er a.m.k. tilfinningin á meðan hún hefur verið að malla hérna undir skrifunum.

Snúningur

Platan var tekin upp í Bandaríkjunum, Santa Barbara og New York, en Gore býr á vesturströndinni og Gahan á austur. Þriðji meðlimurinn, Andy „Fletch“ Fletcher er síðan í Bretlandi! Upptökustjórnandi var Ben Hillier en hann sá um að snúa tökkum á tveimur síðustu plötum, Sounds of the Universe (2009) og Playing the Angel (2005) en sú síðastnefnda þótti bera með sér nýtt upphaf að mörgu leyti. Hins vegar hafa þeir félagar nú lýst því yfir að þetta verði síðasta platan sem Hillier muni vinna með þeim. Gamall og gegn félagi, Flood, var einnig á staðnum svo og hirðljósmyndarinn kunni Anton Corbijn. Gore lýsir upptökuferlinu sem snúnu, þar sem hann hafi viljað hafa hljóminn mjög „nútímalegan“ eins og hann orðar það. Eins og lög gera ráð fyrir verður farið í tónleikaferðalag til að fylgja gripnum eftir, Evrópa í ár og Ameríka á næsta ári. Af fréttum og viðbrögðum fólks að dæma er Depeche Mode síst að missa dampinn hvað vinsældir varðar, hagar sér eins og risastór „költ“-sveit. Um leið eru menn auðsýnilega í stuði, Martin Gore gefur viðtöl út um allar trissur, brosandi og hlæjandi og fyrir stuttu lék sveitin 50 mínútna tónleika hjá David Letterman sem var tekið með kostum og kynjum. Vélin er svo sannarlega á fullum snúningi.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: