$R6BMEZ3

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 30. maí, 2015

Eitt sumar á landinu bláa

• Söngkonan Florence Welch gefur út þriðju breiðskífu sína, Ceremonials
• Epísk plata en um leið jarðbundin

Fylgst er með hverju skrefi bresku söngkonunnar Florence Welch og það þrátt fyrir að fjögur ár séu frá síðustu plötu hennar, Ceremonials. Welch hefur í raun verið stanslaust í sviðsljósinu allan þennan tíma, minnstu vísbendingar um nýtt efni og sérhver hósti sem stuna virðist rata í fjölmiðla. Hún hefur m.ö.o. vaxið upp í að vera stórstjarna, hún er í dag fyrst og fremst „Florence Welch“ frekar en tónlistarkona að nafni Florence Welch og margvíslegir þræðir dægurmenningarinnar snúast nú um hana; hún er tískutákn, eftirsótt í sjónvarpsþætti, verðlaunaafhendingar, tískusýningar o.s.frv.

Brú

Tónlistarlega brúar hún bil þeirra sem vilja það aðeins pælt og þeirra sem vilja geta sungið með og dillað sér. Hún er eins og uppfærð útgáfa af Kate Bush, allt er sæmilega dularfullt en hæfilega aðgengilegt um leið. Spennan fyrir nýrri plötu hennar, sem heitir hinu epíska og mjög svo „flórenska“ nafni How Big, How Blue, How Beautiful, er tilfinnanleg og ég ætla að gerast svo djarfur að segja að þetta verði ein af vinsælli plötum ársins (eða ein sú „stærsta“ eins og gjarnan er sagt). Fæðingin var hins vegar allt annað en auðveld, ýmis áföll og streita hömluðu sköpunarferlinu og dramatískur undirtónninn sem einatt fylgir lagasmíðum Welch slettist rækilega yfir í einkalífið. Um mitt ár 2012 tilkynnti hún að hún myndi taka sér ársleyfi frá störfum áður en hent yrði í gang fyrir næstu plötu og ástæðan var einföld, Welch var einfaldlega komin í þrot eftir mikla keyrslu og þurfti frí. Hún hefur sagt að í upphafi frísins hafi hún brotnað niður og hún hafi neyðst til að tjasla ýmsu saman á tímabilinu og uppræta lesti en hún var t.d. komin í ógöngur með áfengisneyslu. Eins og sannur listamaður nýtti hún sér þetta til að skapa en hljóðritun á nýju efni hófst í fyrra. Ferlið var viðkvæmt í upphafi og afurðin persónulegasta platan til þess samkvæmt söngkonunni.

Aðgengilegt

Welch hefur verið að læða út lögum og myndböndum síðan í febrúar og öll er hægt að nálgast á youtube eða þjónvarpinu nema hvað. Hún er við sama heygarðshornið, myndböndin eru dramatísk og spennu hlaðin á stundum og leikhæfileikar Welch skína í gegn svo um munar (hún var orðuð við nýju Stjörnustríðsmyndina á tímabili).
Af þeim smáskífum sem út eru komnar, og þá sérstaklega af „Ship to Wreck“, er auðheyranlegt að lagt er í nokk aðgengilegri hljóm en oftast áður. Brunnurinn sem Welch sótti í var máske beiskur en útkoman giska væn. Hún réð Markus Dravs, sem var einn af upptökustjórunum sem unnu með Björk að Homogenic (en Welch vísar grimmt í þá plötu), til að hafa yfirumsjón með plötunni en hann hefur og unnið með stórlöxum á borð við Arcade Fire, Coldplay og Mumford & Sons. „Ég vildi hafa plötuna aðsópsmikla og víðfeðma og það er ekkert nýtt,“ sagði hún í spjalli við Rolling Stone. „En við erum dálítið mikið að styðjast við hljómsveit og hljóðfæri, frekar en tölvur. Ástæðan fyrir því að ég leitaði til Markúsar er að hann kann að vinna með þetta risavaxna en líka þetta smáa. Ég vildi dýrka fram þetta viðkvæma, þetta hlýja, þetta jarðtengda líka, þar sem platan er sprottin úr þannig jarðvegi.“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: