Ný plata Grasasna – í eldhúsinu mínu!

John Prine hylltur af Vestlensku sveitinni Grasösnum

Fékk góða sendingu frá Steinari sjálfum Berg í gær, nýja plötu Grasasna sem kallast einfaldlega Prine. Innihaldið eru lög með hinu merka bandaríska söngvaskáldi John Prine sem féll frá fyrir ekki svo löngu síðan. Þar hefur Steinar snarað textum yfir á hið ylhýra, alls tíu, en síðasta lagið, “Let’s talk dirty in Hawaian”, fær að standa með upprunalegum texta (og platan er auk þess líka til öll á ensku, sjá Spotify).

Vínyleintakið er glæst. Opnanlegt umslag (“gatefold”) og umslagsmyndin klár vísun í frábæran frumburð Prine frá 1971.

Ég rúllaði plötunni nokkrum sinnum í morgun í eldhúsinu/stofunni (sjá mynd!) og hafði giska gaman af verð ég að segja. Grasasnar hafa tekið töluverðum framförum frá síðustu plötu sem var stirðbusaleg á köflum. Það er meira öryggi yfir núna, skárra væri það nú, og platan rúllar bara eitthvað svo vel og ákveðið. Steinari hefur farið fram sem söngvara, hann situr einhvern veginn sælari í því hlutverki, og rúllar sér ákveðið með sínu nefi í gegnum lögin ellefu.

Steinar syngur semsagt og leikur á kassagítar en aðrir Grasasnar eru Sigurþór Kristjánsson (trommur og söngur), Halldór Hólm Kristjánsson (bassi, söngur) og Sigurður Bachmann (raf- og kassagítar). Margir aðrir koma við sögu en ég tel þá ekki upp hér og vísa fremur á þessa síðu hér, hvar hægt er að bergja á frekari fróðleik.(https://www.facebook.com/Grasasnarnir)

Ég nefndi það hvað platan rúllar vel og er það m.a. vegna fumlauss hljóðfæraleiks. Í eldhúsinu í morgun, með haustsólina í fullum gangi var það hreint og beint notalegt að heyra dásemdarkántríhljóma sem nærðu mann bæði og nudduðu. Textar Steinars eru líka skemmtilegir. “Engill frá Akureyri” sérstaklega vel heppnaður og yfirsnaranir hans heilt yfir hinar bestu.

Ég bið að heilsa upp í sveit!



 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: