VARÚÐ: Þessi færsla inniheldur “spilli”

Hún getur verið afar þreytandi, sú tilhneiging okkar mannanna að búa til hálfguði úr lifandi, fallvöltum verum. Ég er enginn kórdrengur hvað það varðar og tek fullan þátt í athæfinu (Lemmy t.d.) en getum við talað aðeins um David Bowie?

Oft er talað um íslensku meðvirknina hvað menningu varðar, að ekki megi hafa uppi hnjóðsyrði um nokkurn listamann þar sem allir eru frændur allra og margt til í því reyndar.

En í tilfelli nýjustu plötu David Bowie, Blackstar, er eins og gervöll heimsbyggðin hafi tekið sig til og ákveðið að hér væri komið fram ósnertanlegt, fumlaust meistarastykki. Og platan er ekki komin út! Platan væri auk þess rosalega sýrð, gríðarlega “avant-garde” og Bowie væri að fara óhikað inn á lendur sem enginn tónlistarmaður hefði þorað að koma nálægt. Mönnum svellur móður og benda á að hann sé “69 ára gamall og honum haldi engin bönd!”.

Æ, hversu blind og heyrnarlaus við verðum þegar við “viljum” eitthvað svo rosalega mikil. Ég er að hlusta á plötuna núna og þetta bara er ekki svona. Jú, það eru saxafónar þarna og djasssprettir en það er meira um venjulega hljómaganga en ekki. Maður stendur ekki á öndinni við að hlýða á þetta vegna gargandi tilraunastarfsemi.

Hvers á maðurinn að gjalda? Hann getur ekki dregið andann lengur án þess að menn falli organdi á hnén. Tin Machine, Never Let Me Down, Labyrinth, allt er þetta gleymt virðist vera og sú staðreynd að Bowie hefur sannarlega verið mistækur í gegnum tíðina. Það gerir hann einmitt svo spennandi. Hann þorir að prófa, þorir að taka áhættu en slíku getur óhjákvæmilega fylgt miður skemmtileg niðurstaða.

Ég er rétt að byrja að hlusta og þetta er ekki dómur um innihaldið, öllu heldur athugasemdir um ruglið sem hefur fylgt aðdragandanum.

Ergo: Drögum andann og leyfum Bowie að vera sú viðkvæma listamannssál sem hann hefur alltaf verið, múrum hann ekki inn í platínuhjúp.

Ég veit að ég verð skotinn á færi eftir þessa stöðuuppfærslu. Eins gott að ég var ekki að tala um Tom Waits eða Nick Cave. Líkið hefði verið enn verr útleiknara þá.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: