jamey johnson

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 26. janúar, 2013]

Er hið hefðbundna satt?

• Jamey Johnson er merkasti kántrílistamaður Bandaríkjanna í dag
• Sækir í hefðir og fölskvaleysi fremur en gljáa og fínpússningu

Í síðustu viku var ég að tala um endurkomu breskrar þjóðlagatónlistar (Sam Lee) og nú er ég að skrifa um ákveðna endurkomu í bandarískri þjóðlagatónlist, sem er á einhvern hátt sambærilegt. Kántríið er kannski ekki „þjóðlagatónlist“ Bandaríkjanna en að sönnu þjóðartónlist landsins. Nashville-iðnaðurinn dælir reglubundið út – og af mikilli festu – kántrístjörnum sem sprikla velflestar glaðar í meginstraumnum og nudda sér að sama skapi upp úr poppgljáa með bros á vör. En síðan eru það alltaf einhverjir sem eru lítt gefnir fyrir slíkt og líta til baka með rómantískt blik í augum, vilja gera hlutina eins og þeir voru gerðir „í gamla daga“. Þessi stefna, eða kannski áhersla öllu heldur, er misáberandi og hagar sér í takt við flæðarmál markaðskántrísins. Er semsagt sterk þegar markaðskántríið flæðir yfir barmana, sem kærkomið mótefni þá, sígur svo þegar jafnvægi er náð. Þessi útgangspunktur nefnist á ensku „Neotraditional Country“ eða „New Traditionalism“ og er Jamey nokkur Johnson helsti fulltrúi hans í dag.

Dollarinn

Johnson er frá Alabama (fæddur 1975), er fyrrverandi sjóliði og eins amerískur og þeir gerast. Suðrið rennur um æðar hans, eins og tónlistin, og fyrsta sólóplata hans, The Dollar, kom út 2006. Hann hafði þá verið að harka í Nashville og hafði getið sér orð fyrir lagasmíðar og söng. Það er sláandi að bera ímynd Johnsons í dag saman við þá sem hann bar í árdaga. Á The Dollar merkir hann í öll þau box sem Nashville-listamanni er ætlað, hvíti hatturinn er til staðar og í engu sveigt frá því sem talið er „venjulegt“ í Nashville-fræðunum.
Það eina sem gefur til kynna að Johnson eigi eitthvað inni eru þrælfínar lagasmíðar og öruggur flutningur þó að sérkennin séu engin. Þetta átti allt eftir að breytast. Eftir The Dollar var Johnson sagt upp plötusamningi og hann skildi við konu sína. Og þá fóru hjólin fyrst að snúast fyrir alvöru. Árið 2008 kom út platan That Lonesome Song, myrk plata og lágstemmd þar sem Johnson gerði upp skilnaðinn á ástríðufullan, á köflum hryssingslegan hátt. En það sem meira var, reglubók Nashville var farin út um gluggann. Fram steig síðhærður, rokkaralegur langskeggur og tónlistin sömuleiðis í takt; Bakersfield-hljómur Merles Haggards, útlagakántrí Waylons Jennings og kántrírokk Grams Parsons efniviðurinn í þeim platta sem Johnson stóð á. Bráðgóðir textarnir hylltu líka orðaleiki þá sem einkenndu eldra kántrí og gagnrýnendur lofuðu dýptina, einlægnina og þau skáldlegu tilþrif sem þar voru. Eins og sjá má var ekki erfitt að heilla rokkaðdáendur með þessari uppskrift og Johnson sótti þá unnvörpum með tvöfalda meistarastykkinu The Guitar Song sem kom út tveimur árum síðar.

Sterkur

Nýjasta verk Johnsons kom út í fyrra, platan Livin’ for a Song: A Tribute to Hank Cochran, þar sem hann vottar þessum kunna lagahöfundi virðingu sína. Það er til marks um sterka stöðu Johnsons í dag að gestir á plötunni eru m.a. þau Elvis Costello, Emmylou Harris, Alison Krauss, Merle Haggard, Willie Nelson, Vince Gill, George Strait, Leon Russell og Kris Kristofferson. Fólk úr öllum áttum og sönnun þess hversu víða Johnson hefur náð með fyrri plötum. Þessi plata er eðli málsins samkvæmt meira kántrí en fyrri afurðir en andinn á henni og öll úrvinnsla er til mikillar fyrirmyndar. Johnson er í þeirri stöðu í dag að grannt er fylgst með honum, hvort heldur í Nashville, utangarðskántrílandi eða í rokkheimum. Virðingu allra þessara afla á hann, enginn smáræðis árangur það og spennan fyrir næsta útspili þessara meistara er mikil.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: