julia holter

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 3. október, 2015

Hið ótamda land

• Julia Holter gefur út fjórðu plötu sína
• Aðgengilegri en fyrri verk… eða hvað?

Julia Holter steig upp úr jörðu ef svo mætti segja með síðasta verki sínu, Loud City Song (2013), en það var litli risinn Domino sem gaf verkið út. Stemning hafði verið að byggjast upp fyrir þessum listamanni jafnt og þétt en hún hafði verið virk í neðanjarðarsenu Los Angeles og gefið út tvær plötur sem vakið höfðu verðskuldaða athygli, Tragedy (2011) og Ekstasis (2012). Að þeim vann hún einsömul en í tónlistinni mættust ólíkir straumar, Holter samnýtti klassískt tónlistarnám og dálæti á jaðarbundnum listum og útkoman var nokk einstök; innilegar og fallegar plötur en um leið epískar að forminu til. Holter tók þetta svo lengra á áðurnefndri Loud City Song og vann þá í fyrsta skipti með hljóðfæraleikurum og upptökustjórnanda.

Einstrengingslegt

Þeirri plötu var tekið fagnandi, hún er myrk og furðu látlaus reyndar miðað við epíkina sem kraumar í æðum Holter. Rennur áfram sem ein heild, tilkomumikil, en í eyrum þess sem þetta ritar var samt eins og eitthvað vantaði.
Nýja platan, Have You in My Wilderness, er aðgengilegasta verk hennar til þessa og já, róum okkur aðeins niður þó að litlar viðvörunarbjöllur fari að hringja hjá sumum ykkar. Það er sterkt minni í dægurtónlistarsögunni að um leið og eitthvað verður blíðara í eyrum þá þýði það um leið að tónlistin sé minna virði. Og bakgrunnur Holter er þannig að öruggt er að einstrengingslegar menningarrottur í borg englanna telja hana hafa selt sálu sína fyrir löngu. En þannig er það engan veginn í þessu tilfelli. Í fyrsta skipti á ferli Holter ber ansi mikið á hefðbundnum popplagaformum og tónlistin stendur stórglæsilega þar inni. Eins og hún nái að draga fram áður óþekktan styrk með því að skorða sig þannig af. Kate Bush er líklega augljósasta samlíkingin hérna en Nico og Joni Mitchell eiga líka við. Allir þessir listamenn hafa sýnt af sér mikið hugrekki og eitthvað sem við getum kallað gjafmildi á sínum ferli og Holter svífur um á svipuðu rófi.

Knúin

Öll framganga hér stýrist af knýjandi þörf fyrir að segja eitthvað, miðla einhverju. Maður heyrir það einfaldlega. Textar eru oft ástríðufullir, mikið er talað um mig og þig og Holter er auðheyranlega að velta fyrir sér ástarsamböndum, fjarlægð og tengslum. Hún hefur aldrei stigið jafn einarðlega fram með slíkar vangaveltur og dulúðin hefur nú vikið fyrir nakinni sjálfskoðun. Það styður þá við þessa upplifun að söngröddin er framarlega í hljóðblönduninni, þú kemst ekki undan henni, og yfir um og allt í kring er falleg tónlistin; melódísk, aðsópsmikil – strengir fljóta um en einnig vandlega til fundin raf- og stemningshljóð.
Venjulega reyni ég að hafa þessa pistla meira í kynningarformi en einhvern veginn slapp þessi út í hálfgerðan dóm. Er það vel. Holter á það skilið.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: