bb

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 6. ágúst, 2016


Hvar var ljósið?

Nýleg kvikmynd um kántrígoðsögnina Hank Williams hefur fengið afar laka dóma og ekki að ósekju. Tækifærinu til að kafa ofan í ævi þessa merka tónlistarmanns var glutrað niður með miklum glans, því miður.

Myndin sem um ræðir, I Saw the Light, er nefnd eftir einu þekktasta lagi Williams og það er enski leikarinn Tom Hiddleston sem fer með hlutverk hans (Loki í myndunum um ofurmennið Þór). Williams var Suðurríkjamaður, fæddur í Alabama, og þessi ráðning Hiddleston mætti nokkurri úlfúð. Það er því giska skondið að hann er um það bil það eina sem stendur upp úr í arfaslakri mynd. Ferill Hank Williams, sem lést aðeins 29 ára gamall eftir satt að segja ævintýralegan lifnað, er svo litaður af drama og upphlaupum að það má heita órúlegt að menn hafi náð að klúðra úrvinnslunni, slíkt gull sem efniviðurinn er. En það er hins vegar staðreynd og það sár.

Hiddleston er frábær í hlutverki Williams. Hann lítur út eins og Williams, kann taktana og glæðir persónuna lífi og trúverðugleika. Hann jafnhattar hreiminn og syngur lögin sjálfur. En sagan gengur ekki upp og framvindan er merkilega flöt og leiðinleg. Williams var sturlaður alkóhólisti, bjó þó yfir viðkvæmnislegri snilligáfu og lög hans – einföld, hrein og bein – snertu fólk og halda áfram að gera það. Myndin nær aldrei að fanga þetta, draga þetta fram eða fá mann fram á bríkina. En þannig var líf Williams. Algjört drama og mynd sósuð af slíku hefði verið raunsönn lýsing, fremur en Hollywood-glamúr. Hér hefðu menn ekki verið skammaðir fyrir ýktan draumaverksmiðjubrag en þeir brenna hins vegar af í dauðafæri. Leikstjóranum, Marc Abraham, er væntanlega um að kenna. Hann skrifaði handritið en þetta er bara önnur myndin sem hann leikstýrir. Hann hefur hins vegar framleitt kynstrin öll, t.d. Commitments, The Emperor’s Club, The Last Exorcism, The Thing, endurgerð af Dawn of the Dead o.fl.

Ég klóra mér í kollinum yfir þessu öllu saman, svei mér þá, og er því að spýja pirringi úr pennanum. Ég hafði nefnilega lengi vel undrast yfir því að ekki væri búið að gera almennilega mynd um ævi þessa manns en hann er einn áhrifamesti tónlistarmaður sem uppi hefur verið í Bandaríkjunum, áhrif hans á nútíma dægurtónlist algerlega ómæld (og ef þú ert að lesa, Baltasar. Það þarf líka að gera dramatíska mynd um björgunarafrekið við Látrabjarg!). Myndir hafa verið gerðar áður, Your Cheatin‘ Heart (1964) þykir ekki sannferðug, Hank Williams: The Show He Never Gave (1980) er kanadísk mynd, sjaldséð, og fjallar um hvað hefði getað gerst, hefði Williams náð að halda þá tónleika sem hann var að ferðast til er hann dó. The Last Ride (2012) einbeitir sér einnig eingöngu að þessum síðustu tónleikum, en þykir ekki sérstök.

Ég hoppaði því hæð mína í loft upp, eða svo gott sem, þegar ég heyrði fyrst fréttirnar af þessari mynd hér. Var mjög spenntur. En fór svo að heyra utan að mér að hún væri ekki góð. Og las síðan dóma. Og lét mig að endingu hafa það, að sannreyna þetta sjálfur.

Nú vona ég að einhver ríkur framleiðandi, og kannski bara Baltasar sjálfur, sé að lesa. Ég fer fram á nýja mynd um Hank Williams. Settið og búningarnir eru til staðar. Hiddleston er frábær. Það eina sem vantar er almennilegt handrit. Karma heimsins er að veði. Ég skal meira að segja hræra í beinagrind, væntanlegum handritshöfundum að kostnaðarlausu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: