mark lanegan

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 23. nóvember, 2013]

Friður og dýrið

• Hinn dulmagnaði og djúpraddaði Mark Lanegan heldur tvenna tónleika í Fríkirkjunni næstu helgi
• Lokatónleikar í tveggja mánaða órafmagnaðri reisu

Hvalrekarnir halda áfram hvað tónleikahald varðar á Íslandi en hinn mikli Mark Lanegan ætlar nú að seiða hjarnbúa um næstu helgi með órafmögnuðum tónleikum í Fríkirkjunni. Það er vart hægt að hugsa sér betri stað fyrir hinn dulmagnaða og djúpraddaða Lanegan og hans bikuðu, berangurslegu lög. Það er tökulagaplatan Imitations sem kom út í haust sem er kveikjan að tónleikaferðalaginu en einnig kom platan Black Pudding út í vor, eitt langt næturljóð sem hann vann með Duke Garwood. Lanegan hefur verið giska iðinn við kolann að undanförnu og reyndar hefur hann verið hamhleypa til verka alla tíð og á að baki lygilega fjölskrúðugan feril. Kíkjum aðeins á hann.

Gruggið góða

Við kynnumst Lanegan fyrst sem söngvara Screaming Trees sem var ein af meginsveitunum í gruggbyltingunni góðu vestanhafs. Fyrstu plötur hennar eru gegnheilar rokkplötur og Lanegan er einfaldlega ROKKSÖNGVARINN, með þetta allt saman frá byrjun. Screaming Trees var góð bæði neðan- og ofanjarðar, Uncle Anesthesia og Sweet Oblivion, fyrstu plöturnar sem hún gerði fyrir stórt merki, frábærar plötur báðar tvær. Efnið sem kom út áður á SST er þá stórkostlegt, mæli sérstaklega með Buzz Factory (1989).
En nú hefst upptalning, og ég veit varla hvort mér auðnist að komast yfir alla þá merkishluti sem Lanegan hefur gert utan Screaming Trees sem lagði upp laupana árið 2000. Þá hafði Lanegan þegar gert þrjár sólóplötur (í dag eru þær alls átta talsins). Hann gekk til liðs við Queens of The Stone Age skömmu eftir að Screaming Trees þraut örendið en Josh Homme hafði spilað með sveitinni á tónleikum. Hann stofnaði þá ofurdúettinn The Gutter Twins ásamt Greg Dulli (The Afghan Whigs) árið 2003 og gerði þá þrjár plötur með Isobel Campbell, fyrrverandi söngkonu Belle and Sebastian. Ekki var annað hægt en að grípa í líkinguna „Fríða og dýrið“ þegar fréttist af því samstarfi, en ólíkara samstarfsfólk var eiginlega ekki hægt að ímynda sér. Það er til marks um hæfileika beggja að plötur þeirra rúlla dásamlega, myrkur og ljós togast þar fallega á. Hann hefur að sjálfsögðu tekið þátt í starfi gruggbræðra sinna í hjálparsveitinni Mad Season og leikið inn á eyðimerkurdjömmin hans Josh Homme en einnig hefur Lanegan unnið nokkuð reglubundið með raftónlistarmönnum eins og Tim Simenon, UNKLE, Soulsavers, Moby og Massive Attack en sá vinkill á dægurtónlistinni er honum nokkuð hugleikinn (minnir dálítið á elsku Johns okkar Grants á þessum geira). Læt ég þetta duga og er þá ekki nándar nærri allt upptalið. Lanegan virðist dálítið eins og Nick Cave, kurfslegur skuggaprins, en það er glettilega stutt í æringjann (eins og reyndar hjá Cave). Í mögnuðu spjalli við hina ágætu vefsíðu Quietus ræðir hann um uppáhaldsplöturnar sínar og er þar eins og óður og uppvægur skólastrákur. Nöfnin sem hann nefnir þar eru ekki af lakara taginu; Gun Club, Joy Division, Kraftwerk og nokkur sem koma í opna skjöldu eins og Roxy Music og Bee Gees. Kannski hann renni sér í „Jive Talkin‘“ á tónleikunum?

Fríkirkjan

Með Lanegan á tónleikunum eru svo tveir meistarar miklir og segja má að áheyrendur fái þarna þrjá fyrir einn. Annars vegar nefndur Duke Garwood sem á að baki nokkuð merkan feril þótt lágt hafi farið og hefur hann unnið með aðilum eins og Savages, Orb, Wire og Kurt Vile svo fátt eitt sé nefnt. Belginn Lyenn er einnig með í för en hann hefur unnið með listamönnum á borð við Sam Amidon, Shahzad Ismaily og Marc Ribot sem allir búa að margvíslegum Íslandstengingum í gegnum tónlistariðkun sína.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: