Mirel_Wagner_2-1024x742

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 9. ágúst, 2014

Valkyrjublús

• Hin finnsk-eþíópíska Mirel Wagner gefur út aðra plötu sína
• Hið virta bandaríska útgáfufyrirtæki Sub Pop er nú með hana á sínum snærum

Það er hávært „suð“, eins og það kallast á bransamáli, í kringum Mirel Wagner nú um stundir og kemur ýmislegt til. Í fyrsta lagi er það einfaldlega þessi exótíska ára sem leikur um hana. Fædd í Eþíópíu en alin upp í Finnlandi frá eins og hálfs árs aldri og svo þetta stórbrotna germanska eftirnafn. Tónlistin er síðan niðadimmur alþýðublús í anda löngu liðinna Delta-blúsara. En pakkinn dugar aldrei einn og sér og það er fyrst og síðast innihaldið sem er að magna upp suðið.

Gömul sál

Já, því að tónlistin sjálf – þó síst frumleg sé – er það sem er að hreyfa við fólki, eitthvað sem var staðfest í ár þegar hið bandaríska Sub Pop (Nirvana, Shins, Fleet Foxes, Beach House o.fl. o.fl.) ákvað að gefa út aðra plötu hennar, When the Cellar Children See the Light of Day (þvílíkur titill!). Fyrsta plata Wagner, samnefnd henni, kom hins vegar út undir merkjum Kioski árið 2011 en það er í eigu umboðsmanns hennar. Þá var hún 23 ára gömul. Það ár sá svo Bon Voyage Recording Company um að koma plötunni út annars staðar í Evrópu en útgáfan er í eigu hinnar gagnmerku finnsku sveitar 22-Pisterpirrko, líkast til besta neðanjarðar rokkband sem Finnar hafa átt. Friendly Fire Recordings í Brooklyn gaf plötuna svo út í Bandaríkjunum árið 2012 og sú útgáfa vakti loksins ærlega á henni athygli og skilaði henni alla leið til litla risans Sub Pop. Wagner er greinilega gömul sál því þrátt fyrir ungan aldur má heyra nið aldanna í gegnum rödd hennar og hráan gítarleik. Henni hefur verið líkt við meistara eins og Charlie Patton, Townes Van Zandt og Hope Sandoval og sjálfur heyri ég dálítið af okkar eigin Lay Low í henni. En maðurinn sem uppgötvaði hana, finnski blaðamaðurinn Jean Ramsay, segir tónlistina eiga meira skylt við nakið og miskunnarlaust verklag Swans fremur en kaffihúsagítarplokk í anda Dylans.

Andsetin

Ramsay þessi rakst á Wagner á „opnu“ hljóðnemakvöldi í Helsinki og kolféll fyrir list hennar. Hann hóf óðar trúboð mikið sem leiddi til þess að Wagner hrærði í fyrstu plötu sína á tveimur dögum. Tónlistin hafði þá fylgt henni lengi vel en hún lærði á fiðlu sjö ára gömul er hún var að alast upp í borginni Espoo. Þrettán ára skipti hún yfir í gítar og sextán ára hóf hún að semja lög, innblásin af löngum stundum á bæjarbókasafninu þar sem gamlir blúsdiskar rötuðu einatt í spilarann. Hægt og sígandi sótti hún í sig veðrið, safnaði hugrekki og lét slag standa hvað opnu kvöldin varðar. Restin er svo í sögubókunum eins og sagt er.
„Allt hérna er naumhyggjulegt, einfalt og skorinort,“ segir á einum stað um fyrsta verk hennar. „Undurfallegri, en um leið afar brothættri stemningu, er viðhaldið alla leiðina í gegn.“ Sama má segja um nýjustu plötu hennar, en þegar best lætur hljóma Nick Cave og Tindersticks eins og Herman Hermits í samanburðinum. Og það er rétt sem þeir segja, tónlistin er einkar kunnugleg en um leið er eins og henni sé útvarpað frá einhverjum andsetnum handanheimi, þar sem angurvært myrkur grúfir eilíflega yfir.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: