nina persson

 

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 8. febrúar, 2014]

Villtar treyjur

• Nina Persson, söngkona The Cardigans, gefur út sólóplötu
• Animal Heart býr yfir draumkenndu, „eitís“-legu poppi

Þegar ég tala við Breta um skandinavíska popptónlist er furðulítið sem kemur upp úr dúrnum. Björk jú og Sigur Rós. Abba. Og The Cardigans er líka nafn sem furðumargir þekkja. Þeir sem fylgdust sæmilega með á tíunda áratugnum virðast muna vel eftir ómótstæðilegu skrítipoppi sveitarinnar á plötufernunni Emmerdale, Life, First Band on the Moon og Gran Turismo, allt saman mjög gifturíkar plötur. Sjarmi sveitarinnar lá mikið til í þokkafullri, nánast dáleiðandi rödd söngkonunnar Ninu Persson sem stígur nú fram með sólóplötu. Platan, Animal Heart, er langt í frá fyrsta sólóverkefni hennar en þetta er þó í fyrsta skipti sem Persson styðst við eigið nafn í slíkum æfingum.

Linnulítið

Helstu plötur hennar utan við Cardigans hafa þannig verið með annarri sveit, A Camp, sem hún stofnsetti stuttu eftir að Cardigans luku við Gran Turismo. Fyrsta platan, samnefnd sveitinni, kom út 2001 og var unnin með Nicklas Frisk (Atomic Swing), Mark Linkous (Sparklehorse) og Nathan Larsson, sem er eiginmaður Persson (Larsson var gítarleikari í Shudder To Think og er auk þess afkastamikið kvikmyndatónskáld). Tónlistin á þessari plötu er mjög „ameríkuleg“ en Larsson er Bandaríkjamaður (þrátt fyrir nafnið) og hjónin búa í Harlem, New York, í dag. Önnur plata, Colonia, kom svo út heilum átta árum síðar. Auk þessa hefur Persson komið að ýmsu, hún lék t.d. annað aðalhlutverkið í myndinni Om Gud vill (2006) og komið fram sem gestalistamaður með listamönnum eins og James Iha og Manic Street Preachers. Listinn yfir þessa starfsemi hennar er ansi langur og ljóst að Persson er linnulítið að, þrátt fyrir að við höfum lítið fengið að sjá hana eina og sér eða þá með hinni elskuðu Cardigans (sem er enn starfandi, engar áhyggjur, og er víst að fara að hlaða í plötu skv. Persson).

Frelsi

A Camp duflaði við ameríska tónlist en Animal Heart er aftur á móti hljóðrænt séð í Evrópu. Hátimbrað „eitís“-popp liggur stundum til grundvallar en einnig vinnur Persson með angurværa, skandinavíska söngvaskáldið sem hefur og vomað yfir Cardigans á köflum. Plötuna vann hún með eiginmanninum og Eric D. Johnson (Shins, Fruit Bats) og ólíkt A Camp-plötunum, sem voru miklar hljóðversplötur, voru lög samin og æfð í íbúð parsins.
Í viðtali við Scan Magazine segir hún að lífsaðstæður sínar nú hafi haft mikið að segja um það form sem platan átti eftir að taka. „Ég á lítið barn, bý í New York og fólk sem ég er vön að vinna með er allt í Svíþjóð. Þannig að ég vann einfaldlega með það sem ég hafði aðgang að. Þetta var bæði auðveldara og erfiðara en að vinna með hljómsveit. Maður saknar félagsskaparins og að þurfa ekki að vera með alla plötuna einn á herðunum. En að sama skapi nýtur maður þess að þurfa ekki að taka þátt í endalausum tölvupóstsþráðum til að finna einhverjar lausnir og málamiðlanir.“ Persson tiltekur þá annan jákvæðan þátt í að vera foreldri með takmarkaðan tíma fyrir sig. „Það er einfaldlega ekki tími til að vera að velta hlutunum mikið fyrir sér. Maður þarf að stökkva á innsæið af meira hugrekki en áður, af því að maður neyðist hreinlega til þess. Og það er frelsandi.“

 

Tagged with:
 

One Response to Nina Persson: Norðanbragur á New York

  1. mæli með þessari plötu við alla

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: