Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 23. mars.

Ljúfir skjálftar, mjúk högg

Scope Neglect er fyrsta hljóðversplata Ben Frost í sjö ár. Það er hin virta útgáfa Mute sem gefur út. Innihaldið er afgerandi og afdráttarlaust, rífur mann í gang en róar um leið.

Er búið að taka riffin úr Killing Joke og sjóða þau niður í tölvukubb? Tónlistin rís og hnígur, nei, hún sprettur fram eins og höggbylgja – eftir höggbylgju – eftir höggbylgju, eins og það sé búið að taka Orphée Jóhanns Jóhannssonar og smella á hana „industrial“-skotnum rafmagnsgíturum. Eða eru þetta Godflesh að búa til „ambient“-tónlist? Æ, hættu þessum rembingi Arnar, mér heyrist þetta bara vera hann Ben Frost!

Listamaðurinn ástralski hefur verið búsettur á Íslandi í áratugi og litað íslenskt tónlistarlíf sterkum, afgerandi litum. Frost á að baki æði fjölskrúðugan feril en auk þess að gefa út hljóðversskífur eins og þessa hefur hann samið tónlist fyrir kvikmyndir, sjónvarp, leik- og dansverk auk þess að upptökustýra. Hann hefur unnið með risum eins og Swans, Steve Albini og Tim Hecker og flytur tónlist sína um veröld víða. Tónlistarlega fer Frost um allar koppagrundir, hann beitir fyrir sig hljóðlista- og vettvangsupptökufræðum þegar þannig liggur á honum en í sínum kjarna, þegar „hans“ tónlist er ein og sér, þyrlar hann upp hávaða og dökkva og ríður á vaðið í eilífri tilraunaleit þar sem hljóð- og hljómlist getur tekið á sig undarlegustu myndir.

Scope Neglect var tekin upp með Greg Kubacki, gítarleikara bandarísku reiknirokkaranna í Car Bomb („mathcore“) og Liam Andrews, bassaleikara hinnar áströlsku My Disco. Og svo vélar Frost um herlegheitin. Útkoman er nokkuð svakaleg. Ég reyndi svona aðeins að lýsa hughrifunum í upphafi en sá texti nær frekar skammt. Frost tekur riffin hans Kubacki og einangrar þau. Tekur þau úr þungarokksfasanum ef svo mætti segja, heldur þeim uppi einum og örvasa og endursetur þau, býr þeim annars konar og ég vil segja listrænna umhverfi. Killing Joke, Swans og „Nosferatu Man“ með Slint, þó að greina megi þungarokkslega tónlist þá er þetta ekki þungarokk, ekki frekar en þessi plata.

Lögin stökkva á mann, hrista mann og skekja en áætlanir Frost eru dýpri en svo. Hér tekst að vefa teppi þar sem naumhyggja ræður för. Grimmileg riffin falla saman undir rest, endurtekningin gerir tónlistina línulega og með endurtekinni hlustun verður þetta „ambient“ og umlykjandi. Athugið að fátt er eins róandi og að hlusta á tónlist sem er á góðu blasti með tilheyrandi þyngslum. Þegar tónlistin er orðin það ofboðsleg ummyndast hún í taktfastan, sefandi graut, líkt og þegar maður stendur frammi fyrir hinum öfluga og dynjandi Dettifossi. Þetta vita þeir sem hafa reynt það. Þessa upplifun nær Ben okkar Frost að knýja fram hér.

Það er kannski ágætt að það komi fram að ég þekki Ben ágætlega og hef fylgst grannt með hans störfum alla tíð eða eftir að hann fluttist hingað. Það er nýlegt viðtal við hann í Reykjavik Grape­vine hvar hann talar um þessa plötu en margt annað líka, m.a. Ísland. Honum líði sannarlega vel hér, mjög vel meira að segja, en sem tónlistar­maður sé hann lítt þekktur og sama á við um Ástralíu. Ég ætla því að nota tækifærið hér og votta það við hann að hér er hann og verður alltaf aufúsugestur. Ég hef tekið viðtöl við hann oft og mörgum sinnum á þessum vettvangi og í einu af okkar fyrstu viðtölum, 2007, sagði hann: „Það er eitthvað í mínu fari sem smellpassar við Ísland – og eitthvað í fari Íslendinga sem smellpassar við mig.“ Látum þetta vera lokaorðin.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: