Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 29. júní.

Hugrakkt, einlægt og berskjaldandi

Hér er rýnt í sólóplötu Bigga Maus, Litli dauði/ Stóri hvellur, og eigindi Bigga sem sólólistamanns sett kirfilega undir mælikerið um leið. Platan er köld og krómuð um leið og hún er afskaplega sannferðug og áhrifarík.

Maus telst með allra merkilegustu rokksveitum íslenskum og þó að sveitin starfi stopult í dag eru einstaka liðsmenn flestir að sýsla eitthvað í tónlist á eigin forsendum. Einn þeirra er Birgir Örn Steinarsson, gítarleikari og söngvari, sem búsettur er á Akureyri eins og er. Plata þessi er enda öll unnin þar og er Þorgils Gíslason (Toggi Nolem) helsti samstarfsmaður Bigga hér. Við sögu koma og Páll Ragnar Pálsson, Valmar Valjaots, Rósa Ómars (aukalag á vínylútgáfu), Eggert Gíslason og Daníel Þorsteinsson. Ég er aðeins að reyna að hugsa upphátt um sólóferil Bigga. Fyrsta útspilið var ID (2006) undir nafninu Bigital, vel rafrænt dæmi og svo var sveitinni Krónu ýtt úr vör, fremur klassískt rokktríó og lögin sem hanga á Spottanum eru ljómandi verð ég að segja. En hér er okkar maður á berangri ef svo má segja, einn og óstuddur og að minnsta kosti ábyrgur fyrir lokaafurðinni. Hann lýsti því á Fjasbók fyrir stuttu að hann hefði verið fullur efasemda gagnvart plötunni og sólóvafstri sínu og mér fannst það í senn fallegt og hugrakt. Að segja það bara. En áhyggjur þarf hann ekki að hafa, trúið mér. Eðlilega er hann með reynslu, innsæi og það allt en vissulega er aldrei hægt að reikna til enda hvernig lokaafurðir „þroskaðra“ listamanna verða. En nóg um það, vindum okkur í þetta! Platan fer af stað með krafti. Pundið er þungt í „Má ég snúza meir?“ (Biggalegur titill!), hnausþykk bassalína og framvinda lagsins glæst og grípandi. Biggi syngur hátt í þessu lagi og umhverfis er kaldur gotabundinn hljóðheimur en listamaðurinn hefur lýst því að platan sé undir beinum áhrifum þess nýbylgjupopps sem hann ólst upp við á níunda áratugnum (Duran Duran, Rikshaw, New Order, Bubbi, Bara-flokkurinn, Grafík, Bauhaus, Blondie er það sem ég hef séð nefnt og allt saman passar þetta). Stemningin er rokkuð upp í næsta lagi, „Gleymdu mér“. Biggi syngur reiðilega, hvessir sig, undir er surgandi gítar og keyrslan æði grimm. „Nagar og yfirsker!“ spýtir hann út úr sér um leið og brýnnar eru hnyklaðar. Smíðin gengur vel upp, er sannfærandi, og þetta er „eitt, tvö högg“-byrjun eins og sagt er. Lagið „I don‘t remember your name“ (eftir Friðrik Dór, af plötunni Vélrænn, 2012) hefst með spikfeitum hljóðgervli frá árinu 1982 eða svo, ágengum gítar og djúpum bassa. Já, hún hljómar nefnilega frábærlega platan. Þykkur góður hljómur „beint í andlitið“. „Óargadýr“ er rólegheitalag, sorgbundið, og glitrandi píanó leiðir það. Einlægt og berskjaldandi. Og flott. Við erum hálfnuð og þetta er að ganga! Platan er köld og krómuð, hylling til þessarar nýbylgju sem nefnd hefur verið. Tónlistin er áhrifarík, poppkrókar eru ekki endilega málið, sannfærandi heildarbragur er það hins vegar og þar nær Biggi landi. Það er ekkert lag hér sem er afgangur eða áfyllingarefni. Sjá t.d. geggjaðan gítar í „Ekki vera að eyða mínum tíma“ og viðlagið frábæra í „Tölum bara um veðrið“ þar sem Biggi sýnir okkur melódíuvöðvann. Hvert og eitt lag hefur eitthvað við sig. Vel heppnuð plata hjá Bigga og engum ætti að dyljast að hér fer maður sem er eldri en tvævetur í bransanum. Megi hann halda áfram á þessari braut, mér finnst eiginlega annað ekki koma til greina!

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: