Bjarni Ómar, hress og alþýðlegur á því!

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 16. mars, 2019

Vefst ekki tunga um tönn

Tónlistarmaðurinn Bjarni Ómar Haraldsson gaf á dögunum út plötuna Enginn vafi. Innihaldið er alíslensk popptónlist eins og hún gerist sönnust.

Bjarni Ómar Haraldsson, eða Bjarni Ómar eins og hann kallar sig, er tónlistarmaður sem fellur kirfilega í flokk íslenskra alþýðu/popptónlistarmanna sem iðka sína sköpun svona tiltölulega utan alfaraleiðar. Síðan ég byrjaði að skrifa um tónlist fyrir Morgunblaðið fyrir meira en tuttugu árum hefur plötum sem þessum skolað til mín reglubundið. Þetta eru iðulega karlmenn á miðjum aldri, sumir með einhvern tónlistarlegan bakgrunn (voru kannski í hljómsveitum á unglingsaldri) en sinna tónlistargyðjunni í dag meðfram öðrum störfum. Það sem er hvað áhugaverðast við þessar plötur er að oftar en ekki fylgir þeim heilnæmur heiðarleiki og viss sköpunargleði, sem er a.m.k. með öðrum hætti en það sem maður nemur frá tónlistarmönnum sem eru atvinnumenn eða eru að keyra eitthvað sem hægt væri að kalla feril. Það er engu að tapa, allt að vinna, og á því græðir maður sem hlustandi, svona oftast nær a.m.k.

En hver er þessi Bjarni? Hann fæddist á Akureyri en bjó svo á Raufarhöfn óslitið til ársins 2003 þegar hann fluttist til Hólmavíkur (þess má geta að Raufarhafnarskáldið, Jónas Friðrik, á texta á plötunni sem hér er til umfjöllunar). Í dag býr hann á mölinni og starfar hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Bjarni hefur síðan á unglingsárum komið fram sem trúbador og söngvari, og hefur verið gítarleikari hljómsveita eins og Kokkteil, Antik, Sífrera og Nostal, auk þess að taka þátt í ýmiss konar tónlistarverkefnum. Hann starfaði m.a. sem tónlistarkennari um skeið. Fyrir um þrjátíu árum setti hann sér það markmið að gefa út plötu með frumsömdu efni á tíu ára fresti og kom fyrsta plata hans, Annað líf, út árið 1998. Fyrirheit hét næsta breiðskífa og kom út 2008 og nú er komið að þeirri þriðju en hún er gefin út á geisladiska- og vínylplötuformi (fyrri plötur má m.a. nálgast á Spotify).

Engir aukvisar koma að sjálfri plötugerðinni. Vignir Snær Vigfússon annaðist upptökustjórn og auk Bjarna og Vignis leika á henni Þorvaldur Þór Þorvaldsson á trommur, Helgi Reynir Jónsson á hljómborð og Róbert Þórhallsson á bassa. Anna Sigríður Snorradóttir og Ragna Björg Ársælsdóttir annast röddun, Troy Engle og Daniel Flam leika á ýmis strengja- og málmblásturshljóðfæri og þá er hér strengjasveit sem ber nafnið Supreme track. Tónlistin er nokk hefðbundið popprokk. Maður heyrir í Bubba, Bjarna Tryggva og fleiri alþýðuskáldum íslenskrar dægurtónlistarsögu. Lögin eru misspennandi, „Þegar draumarnir svíkja“ er gott, með melankólískum brag og vel sömdu viðlagi. „Ég ligg á leiði“ er eitt af þessum lögum sem lýtur engum lögmálum en þar leikur blásturssveitin skemmtilega rullu, minnir helst á mexíkóska mariachi sveit. Á milli eru svo lög sem sigla um hefðbundnari mið, en það er aldrei svo að Bjarni detti ofan í einhvern slappleika. Lagasmíðataugin er í honum. Undirleikur er fagmannlegur í alla staði og skyggir aldrei á tónsmíðarnar. Það er helst að söngrödd Bjarna sé til trafala, raddsterkur er hann ekki og það veldur misfellum hér og hvar. Á móti liggur röddin nokkuð hátt og það er knýjandi þrá í henni, sem Bjarni nær að hagnýta. Ástríðuna vantar ekki, ég þarf varla að taka það fram, og hann brúkar hana eins vel og hægt er. Vel er í lagt á nýju plötunni, hér áður fyrr fékk maður stundum ræfilslega geisladiska frá viðlíka listamönnum en Bjarni Ómar sparar ekkert við sig og fylgir verkefninu rækilega úr hlaði, eins og maður hefur orðið var við á samfélagsmiðlum. Auk þess mun hann halda tónleika fyrir sunnan sem norðan til að fylgja henni eftir. M.a. gefur hann plötuna út sem forláta vínylplötu, og það tvöfalda. Umslagið er „opnanlegt“ („gatefold“) og pappinn þykkur. Um þrjú lög eru á hverri hlið, og skurður því djúpur og víður, sem magnar upp góðan hljóm. Þykktin er þá góð, slagar upp í 180 g hið minnsta.





Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: