Það var gaman að hitta á Jóhann úr Dynfara og spjalla aðeins. Gerðum það fyrir utan heimili mitt að Stangarholti í blíðum haustkulda. Hann kom hjólandi og færði mér nýja plötu sveitar sinnar, Myrkurs er þörf. En við fengum reyndar bara smá rökkur á fundi okkar.

Það var nefnilega létt yfir. Jóhann gírugur og skrafhreyfinn, ég sömuleiðis (kemur á óvart). Ræddum Grænland, háskólanám og Roadburn, en þar átti Dynfari að vera í Apríl. Margt sem hefur lagst af í þessu árferði, en plata þessi er komin út og því fögnum við. Það er einfaldlega mikilvægt að finna að það er eitthvað að gerast, einhver hjól að snúast, einhver sköpun og framleiðsla í gangi á þessum síðustu og verstu. Í gegnum þetta tikkum við mannskepnan.

Ég hitti Jóhann síðast fyrir þremur árum, þegar hann færði mér eintak af fjórðu plötu Dynfara, The Four Doors of the Mind. Reit þá um hana (sjá m.a. arnareggert.is) og pældi í þessari nálgun sveitarinnar við öfgarokkið sem er nokk einstakt. Svartþungarokkið er mögulega útgangspunktur en útfærslan melódísk. Og um leið er mikið um stemningu („atmosphere“) sem er í senn þung og knýjandi. Mikið undir. Þessi plata er eiginlega verulega rökkurbundin mætti segja, grimmari og grófari en síðasta verk. Titill plötunnar segir sitthvað en lagatitlar eins og „Dauðans dimmu dagar“ og „Ég tortímdi sjálfum mér“ undirstrika angistina sem rennur um hljóðrásirnar.

Platan byrjar með „hefðbundnu“ gítarplokki, hljómar eins og kassagítarströmm og það sem ég hef fílað við Dynfara er hvernig hún er alltaf með annan fótinn í rokki. Semsagt, „rokk“, ekki „þungarokk“ og það er auðvitað heilmikill munur þar á. Dynfari hefur sveiflað sér á milli síðrokks, gotarokks, þungarokks og rokks eins og að drekka vatn. Stundum í einu og sama laginu. Þetta lag, „Dauðans dimmu dagar“, byggist svo upp hægt og sígandi og spennan eykst með hverju trommuslagi.
Dynfara tekst að halda þessari stemningu, þessum hráleika, út plötuna. Nefni t.d. „Ég tortímdi sjálfum mér“, ástríðufullt, epískt og með mjög svo mannlegri, sorgbundinni söngrödd. Einhver nefndi Isis í dómi og ég skil hvaðan verið er að koma. Fjölmargir dómar eru nú þegar birtir í hinum ýmsu ritum erlendis.

Það er ítalska útgáfan Aural Music sem gefur út, í gegnum undirmerkið Code666. Glæsilegt umslagið er hannað af Metastazis sem hefur m.a. hannað fyrir Alcest. Svo er þessi glæsilegi slettuvínyll og gatefold. Það held ég nú!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: