Bassadrottning Listakonan Eva Jóhannsdóttir er EVA808.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 6. febrúar, 2021.


Svamlað í dökkum sjó


Seint á síðasta ári kom platan Sultry Venom út sem listakonan EVA808 stendur að. Um er að ræða helsvalt „dubstep“ en það er Eva Jóhannsdóttir sem stendur á bak við verkefnið.


Eva Jóhannsdóttir býr og starfar í Svíþjóð en hefur verið að byggja upp feril sinn í danstónlistarkreðsum hægt og bítandi. Tólftommur, stuttskífur og „white label“-útgáfur hafa litið dagsins ljós þar sem oft fer drungalegt, bassadrifið „dubstep“/græm. Bandaríska útgáfan Innamind Recordings gaf t.d. út tólftommuna „Prrr“ fyrir réttum þremur árum og smekkleiðarar eins og Hudson Mohawk og Nina Kraviz gáfu tvo þumla upp. EVA808 spilaði síðan á Sónar Reykjavík 2018 hvar landar hennar gátu loks barið hana augum. Eins og ég hef skrifað um í þessum pistlum er íslensk danstónlistarsena sterk og þræltengd um allar koppagrundir og það munaði um minna þegar lag Evu, „Pink Uzi Gang“ (af tólftommu frá 2018 á Innamind Recordings), rataði inn á Mint-lagaspotta þeirra Boys Noize, Ty Dolla $ign og Skrillex árið 2019. Blaðamaður ræddi stuttlega við Evu í undirbúningi greinarinnar og tjáði hún honum að hún hefði enga hugmynd um hvernig þessar risar komust yfir lagið. Á lagaspottanum áttu þeir að setja inn lög sem þeir voru að hlusta á í kringum útgáfu lagsins „Midnight Hour“.

Þannig að útgáfa hefur verið stöðug allt frá árinu 2014. Sultry Venom er hins vegar fyrsta breiðskífan og alveg ofboðslegt verk, nítján laga hlunkur sem kemur út í glæsilegum, þrigg ja platna vínylplakka frá nefndu Innamind Recordings. Því miður hef ég ekki náð að handfjatla gripinn en ljósmyndirnar einar fá mig til að glenna upp augun. Eva tjáði mér í nefndu spjalli að mikil vinna væri á bak við gripinn, í tónlist jafnt sem útliti. Elsta lagið var gert 2015 en þau nýjustu týndust inn á síðasta ári. Mesta vinnan fór hins vegar fram á síðustu tveimur og hálfu ári.

Hið virta DJ Mag (sem fagnar 30 ára afmæli í ár) gerði plötuna óðar að plötu janúarmánaðar. Í heilsíðudómi er fögrum orðum farið um verkið og segir m.a. að Evu sé tamt að smala inn hljóði, setja það í lykkju og umverpa því svo í takt um leið og hún settur bassahljóð undir sem „getur hrist jarðmöndulinn í sundur“. Gagnrýnandinn lokar með því að lýsa því yfir að hér sé á ferðinni einstakur listamaður, hún þekki greinilega söguna og nýti hana til fulls á þessu „hljóðsmölunar-meistarastykki“ („sampling masterclass“).

Sultry Venom stendur þannig vel sem plata/verk. Gagnrýnandi DJ Mag , Sam Davies, bendir á að þannig sé hún skipulögð og það er rétt. Þetta er ferðalag, við erum að tala um rúman klukkutíma af efni og „Intro“ setur tóninn. Tilraunakennt, djúpt og dökkt. Hljóð aftur á bak, toga mann inn, dálítið falleg en líka skekkt og skæld. Og við tekur glæsilega hannað raftónlistarverk sem byggir allt í senn á græmi, „dubstep“ og bassatónlist. Hljóðrænt séð er dumbungslegt um að litast, djúpur bassi, flæðið þokukennt og í sumum lögum er eins og þú sért farinn að svamla meðfram hafsbotni. Ef ekki innan í sjálfu leginu, svo ég vísi í pælingar sumra þeirra sem bjuggu til ámóta tónlist á sokkabandsárum dans/raftónlistarinnar í Bretlandi snemma á tíunda áratugnum. „Drowning“ dettur í Aphex-gír en „I Saw the Devil“ er grimmt, líkt og titillinn. „Snakes“ er tilraunakennt, með „industrial“-blæ. Svart, kalt, stáli bundið og engin grið gefin. Þessi gotneski heimur sem umlykur margt hérna fékk Davies til að hugsa um Burial sem er skiljanlegt. En bíðið samt við, verkið er fjölbreytilegt um leið. Þetta er ekki bara dómadagsdrungi. Sérstaklega undir endann fer melankólískari blær að gera vart við sig, meiri melódía og blíða og sú stemning skýtur og upp kolli í lögum eins og „Demantar“ og „Broken Neon“.

Ég ætla nú ekki að fara í gegnum hvert og eitt lag og heildarmyndin er eins og ég hef lýst. Stöndug og tilkomumikil. Svo ég grípi í vísun í hipphopp-söguna: „Bassi! Hversu lágt kemstu?“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: