Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 18. apríl, 2020.

„Hvað er að gerast?“

Þannig spyr gugusar, Guðlaug Sóley Höskuldsdóttir, í upphafslagi fyrstu plötu sinnar, Listen to this twice. Þessi sextán ára stúlka vakti mikla athygli á Músíktilraunum í fyrra og hefur heldur en ekki hnykkt á árangrinum þar.

Músíktilraunir vorið 2019 og það er stemning í loftinu. Á svið stígur hin undarlega nefnda gugusar, „tvær fimmtán ára stelpur sem spila melódíska raftónlist“ eins og þær lýstu sér sjálfar. Þá var um dúett að ræða, og hann skipuðu Guðlaug Sóley Höskuldsdóttir og Aníta Núr Magnúsdóttir, báðar 15 ára. „Ekkert náði að undirbúa viðstadda fyrir hinar einbeittu og ofursvölu stöllur sem voru mættar á sviðið,“ sagði Ragnheiður Eiríksdóttir um frammistöðu sveitarinnar í Morgunblaðinu og rataðist henni sönn orð á munn. Stúlkurnar voru öruggar, skemmtilegar og tóku m.a. nettan vélmennadans í anda Kraftwerk. Tónlistin sem slík vakti þó mesta athygli; falleg og nostursamleg og greinileg vinna í hana lögð. Fór svo að gugusar, eða Guðlaug sem skráð var fyrir tónlistinni, var valin rafheili Tilraunanna.

Um haustið var gugusar svo valin á langlista Kraumsverðlaunanna vegna sjötommu sem hafði komið út á vegum Móatúnsmerkisins, útgáfu sem Árni Grétar, einn af eigendum Möller Records og oft kenndur við Futuregrapher, stendur að.

„Við í Möller gefum venjulega mix og masteringu (hljóðblöndun og hljómjöfnun) til rafheilans og ég tók þann snúning á þrjú lög hennar,“ tjáði Árni þessum blaðamanni. „Ég innti hana eftir því hvort hún væri til í að gefa þetta út hjá mér líka og hún sló til. Ég bauð henni þetta einfaldlega af því að þetta var svo gott stöff! Alveg ótrúlega frambærilegt efni hjá svona ungri manneskju.“ Árni segir að samstarfið hafi gengið það vel að hún hafi beðið hann um að fullbúa breiðskífuna sína með sama hætti. „Hún er að taka áhættu og gera hluti sem eldri tónlistarmenn myndu hreinlega ekki leggja í. Fer alveg út að brúninni en allt gengur þetta upp hjá henni einhvern veginn.“

Guðlaug byrjaði að semja tónlist fyrir tveimur árum. Hún lýsir þeirri þörf fallega á Karolinafund-síðu sinni vegna plötunnar: „…þegar ég sem tónlist er ég alveg í mínum eigin heimi og gleymi öllu óþarfa stressi. Lögin verða yfirleitt fyrst til á eitthvað ákveðið hljóðfæri og færast svo yfir í tölvu og þróast þar.“

Í viðtali við Kristján Guðjónsson hjá Ríkisútvarpinu viðurkenndi Guðlaug að Músíktilraunir hefðu verið fyrstu tónleikar hennar. Hún hefði ekki þorað að vera ein á sviðinu og því fengið vinkonu sína með sér. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og gugusar hefur m.a. komið fram ásamt Hatara, Omotrack, Andy Svarthol, Frid, ClubDub, Hermigervli og FM Belfast.

Platan stóra kom svo út í endaðan febrúar, innheldur sextán lög, og má nálgast á Spotify. Að sönnu tilkomumikill frumburður. Þetta er raftónlist með ýmsum hætti, á stundum lungamjúk og svefnherbergisleg og gamlar Warp-kempur eins og Boards of Canada koma í hugann. Einnig melódísk, lágstemmd og móðins tónlist að hætti Clairo eða Billie Eilish. Lögin eru vel samin og úthugsuð og búa yfir tilfinninganánd sem maður heyrir ekki á hverjum degi frá raftónlistarfólki sem er að stíga fyrstu skref sín.

Hlutirnir hafa gerst hratt hjá gugusar en ég vona að Guðlaug beri gæfu til að rækta garðinn af þolinmæði jafnt sem elju. Hún er með hæfileika, það er klárt. Og auðvitað er skemmtilegt að heyra af því hvernig þetta allt saman er að hitta hana, eins og þetta svar hennar í viðtali við áðurnefndan Kristján ber með sér: „Ég fór út í búð um daginn. Þegar ég kom úr búðinni og settist upp í bíl var lagið mitt í útvarpinu. Sem var bara svona „kreisí móment“. Ég bara panikkaði og skildi ekki hvað var að gerast.“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: