Vatnaskil Ingunn Huld fjallar um reynsluheim kvenna á plötunni nýju. — Ljósmynd/Alfreð Ingvar A. Pétursson

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 18. júlí, 2020.

Og hverfa önnur sjónarmið…

Söngvaskáldið Ingunn Huld gaf út sex laga plötuna Cycles & Tides fyrir stuttu. Áður hefur hún gefið út plötuna Fjúk (2015) sem innihélt þekkilegt þjóðlagapopp.

Ég man hvað ég var hissa er ég heyrði Fjúk því að hún var eitthvað svo stöndug og frambærileg, miðað við að ég þekkti tónlistarkonuna ekkert. Kom í ljós að hún var vissulega eldri en tvævetur í tónlistarstússi, þverflautukennari og með próf í djasssöng frá FÍH, þó hún hafi stigið fyrst fram þarna sem útgefin tónlistarkona. Enda er mikið „músíkalítet“ á þeirri plötu, tónnæmi gott. Berskjaldað, á stundum sakleysislegt þjóðlagapopp sem svífur þægilega áfram.

Cycles & Tides viðheldur þessum gæðum meira og minna. Spilamennska og hljóðupptaka er með miklum ágætum en stíllega er hún fjölbreyttari, þjóðlagaminnið ekki eins áberandi ef þá nokkurt. Umfjöllunarefnið er þá tematískt, fjalla öll um reynsluheim kvenna á einn eða annan hátt og tvö laganna voru samin eftir fósturmissi sem eins konar leið til að vinna úr erfiðum tilfinningum. Lokaverkefni Ingunnar Huldar frá Listaháskóla Íslands vorið 2018 var m.a. unnið í kringum lögin ásamt greinargerð um tilfinningalega úrvinnslu söngvaskálda við lagasmíðar.

Arnar Guðjónsson tók upp fimm laganna og Addi 800 sá um hljómjöfnun þar. Stefán Örn Gunnlaugsson tók upp lagið „Splendid“ og hljóðblandaði en Bjarni Bragi Kjartansson sá um hljómjöfnun. Fjöldi hljóðfæraleikara og söngvara kom svo að tónlistinni sem verða ekki sérstaklega taldir upp hér.
Pistilritari bar nokkrar spurningar undir listamanninn og spurði m.a. hver tildrögin að þessu verki væru.

„Þegar ég gaf út plötuna Fjúk voru nokkur lög sem ekki fengu að fara með á hana því hún endaði á að vera öll á íslensku,“ segir Ingunn. „Eitt af lögunum var lagið „Splendid“ og hugmyndin var að gefa seinna út plötu sem væri þá öll á ensku. Á fyrsta árinu mínu í LHÍ varð ég ólétt en þegar ég var komin stutt á leið missti ég fóstur. Maðurinn minn var erlendis á tónleikaferðalagi þegar þetta gerðist og þetta var mér mjög erfitt. Á þessum tíma var ég í kúrsi í textasmíðum og óhjákvæmilega fékk ég útrás fyrir hugsanir mínar og tilfinningaúrvinnslu í gegnum textasmíðar. Bæði ljóð og lagatexta.“

Ingunn segir að það kitli sig dálítið að halda áfram með textagerð. „Mig langar að sökkva mér aftur í smá bragfræði og sjá hvað kemur út úr því. En það er gaman að takast bæði á við það að semja á ensku og íslensku því það eru mismunandi áskoranir sem felast í að semja á móðurmálinu og svo á ensku.“

Ingunn segir kennarastarfið og skapandi starf fara vel saman og þó að kennslan útheimti auðvitað orku þá gefi hún helling líka. Börn séu mjög skapandi einstaklingar og hollt að læra af þeim. „Annars var þessi plata unnin þegar ég var nýkomin úr fæðingarorlofi og meðfram kennslu og fyrsta ári frumburðarins á ungbarnaleikskóla með tilheyrandi veikindum og fjöri,“ lýsir Ingunn. „Og ég rétt næ að gefa hana út áður en næsta barn mætir núna í september. Svo ég geri mitt besta til að fylgja henni eftir en kannski verður bara til barnaplata í orlofinu – því konur hafa auðvitað ekkert að gera í svona fæðingar-„orlofum“ (hlær).“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: